Árið 2020 var mjög sérstakt ár og mörgum erfitt. Á sama tíma og starfsemi íþróttaog ungmennafélaga næstum stöðvaðist í langan tíma, þá leiddi það til þess að fólk sýndi aðdáunarverða hugkvæmni til að halda sér og iðkendum virkum.

Í dag eru gleðitímar því starfsemi íþróttafélaga er loks að komast í gang á ný að svo til öllu leyti. Þetta er jákvæð þróun og afar gleðilegt við upphaf nýs árs.

Nú ríður á að við vinnum saman í hreyfingunni, snúum bökum saman og nýtum það sem við lærðum í fyrra til að byggja upp starfið í félögunum. Við þurfum að ná til sem flestra, hvetja fólk til að taka þátt í skipulögðu íþróttaog æskulýðsstarfi og tryggja að vel sé tekið á móti iðkendum, þeim sem beðið hafa óþreyjufullir eftir því að snúa aftur, ekki síður en nýjum. Við þurfum að tryggja að allir verði með, fyrri iðkendur sem snúið hafa annað og þeir sem staðið hafa utan starfsins. Íþrótta- og ungmennafélög eru bakland fyrir fólk og nærumhverfi. Þar eiga iðkendur að finna til öryggis. Til að vel takist þurfum við að deila þekkingu með öðrum, svo allir verði með. Það er ungmennafélagsandinn í hnotskurn þegar allir leggja sitt af mörkum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræddi í nýársávarpi sínu um mikilvægi forvirkra aðgerða til að bæta lýðheilsu landsmanna. Það geti dregið úr álagi á heilbrigðiskerfinu og lækkað kostnað ríkissjóðs. Ég tek heilshugar undir þetta.

Þess vegna er afar ánægjulegt að íþróttastarfið sé að hefjast á ný. Þótt vissulega séu enn hömlur á starfinu þá er það gleðiefni að 16-18 iðkendur geta nú mætt aftur á æfingar.

Til hamingju með daginn. Ég hvet sambandsaðila UMFÍ til að vinna saman á nýju ári og tryggja að allir verði með. Þá verðum við öll betri – það er samfélaginu til góða