Í byrjun nóvember tók Ísland við formennsku í Evrópuráðinu. Stundum er Evrópuráðinu reyndar ruglað saman við Evrópusambandið, enda heiti stofnana oft lík t.d. á enskri tungu (e. Council of Europe = Evrópuráðið, og European Council = ráðherraráð Evrópusambandsins). Ísland hefur verið aðili að Evrópuráðinu síðan 7. mars 1950, en það var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Hins vegar hefur Ísland aldrei verið aðili að Evrópusambandinu, þó að einhverju leyti í gegnum evrópska efnahagssvæðið, en verið aðili að Evrópuráðinu nánast frá upphafi. Einkennismerki Evrópuráðsins og Evrópusambandsins enda keimlík, svo kannski ekki að undra að stundum sé misskilningur varðandi hlutverk þessara stofnana.

Á þeim tíma sem Ísland hefur átt aðild að Evrópuráðinu hefur á stundum verið fastanefnd gagnvart ráðinu í Strassborg. Ísland hefur þó stundum verið eina aðildarríki Evrópuráðsins sem ekki hefur haft sendiskrifstofu gagnvart ráðinu í Frakklandi. Stundum er sagt að lítil ríki eins og Ísland hafi lítið að segja gagnvart stærri ríkjum hjá stórum stofnunum eins og Evrópuráðinu og Sameinuðu þjóðunum. Sú fullyrðing er hins vegar röng. Þegar Thor Thors var fastafulltrúi okkar hjá Sameinuðu þjóðunum 1946-1965 var rödd hans til að mynda hávær. Á þeim tíma gaf Ísland meðal annars fundarhamar þann sem enn í dag er notaður á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ísland hefur einnig haft háværa rödd hjá Evrópuráðinu að undanförnu og meðal annars átt formann laga- og mannréttindanefnd Evrópuþingsins, auk þess sem forseti Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins hefur verið frá Íslandi. Dómstóls sem hefur í tíð Róberts Spanó aukið vægi sitt verulega, bæði þegar litið er til íslensks réttar sem og evrópsks. Ísland fullgilti enda – og lögleiddi – Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins árið 1994. Nú hefur Ísland tekið forsæti í Evrópuráðinu. Til hamingju Ísland!

Með reglulegum hætti hefur nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum (s.k. CPT-nefnd) heimsótt Ísland. Þær heimsóknir hafa markað djúp spor í sögu Íslands – og mannréttinda hér á landi. Fangelsinu í Síðumúla var t.d. lokað í kjölfar heimsóknar CPT-nefndarinnar til Íslands. Þá bárust fréttir í fjölmiðlum af ítrekuðum athugasemdum nefndarinnar af svokölluðum pyndingarbekk á Litla-Hrauni – sem var loks fjarlægður og eftir síðustu heimsókn nefndarinnar til Íslands var loks komið á geðheilbrigðisaðstoð í fangelsum landsins, svokölluðu geðheilbrigðisteymi. Svo ekki sé undanskilinn þrýstingur nefndarinnar á að Ísland fullgilti valfrjálsa bókun Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum, sem loks var gert árið 2018. Í kjölfarið var komið á innlendu eftirliti, undir stjórn umboðsmanns Alþingis, með stofnunum sem vista frelsissvipta – hvort sem þeir eru frelsissviptir í fangelsi, minnislausir á öldrunarheimili eða á svokölluðu unglingaheimili. Allir eru undir í því eftirliti sem er nú er á hendi frumkvæðisdeildar umboðsmanns Alþingis. Sem betur fer!

Undanfarin ár hefur Afstaða reglulega sent íslenskum yfirvöldum fyrirspurnir um hvort íslensk stjórnvöld hyggist þýða Evrópsku fangelsisreglurnar sem settar voru af Evrópuráðinu sem lágmarks réttindi frelsissviptra hér á landi. Reglurnar voru settar árið 2006 og í kjölfarið þýddar á íslensku og gefnar út á prenti. Var þeim dreift hér á landi til þeirra sem hófu afplánun í fangelsi eða sættu gæsluvarðhaldi. Síðan hafa reglurnar tekið verulegum breytingum og jafnframt verið þýddar á flest tungumál aðildarríkjanna – þó ekki á íslensku! Afstaða hefur ítrekað beint fyrirspurnum til íslenskra stjórnvalda um það hvort ætlunin sé að þýða reglurnar á íslensku – án svara.

Nú síðast sendi ég fyrirspurn til ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og fastafulltrúa Íslands gagnvart Evrópuráðinu hvort ætlunin væri í formennskutíð Íslands að þýða reglurnar á íslensku? Engin svör hafa borist við fyrirspurninni frá íslenskum stjórnvöldum.

Evrópsku fangelsisreglurnar eru í raun birtingarmynd Evrópuráðsins, um forystu þeirra á sviði mannréttinda í Evrópu. Formennska Íslands mun vonandi endurpegla starf ráðsins. Sjái Ísland sér ekki fært að þýða evrópsku reglurnar, sem eru í raun lágmarksþröskuldur gagnvart frelsissviptum, þá veltir maður fyrir sér hvers virði það sé að hafa formennsku í ráði sem ætlað er að hafa forystu á sviði mannréttinda í Evrópu?

Hér með er mikilvægi þess að þýða evrópsku fangelsisreglurnar á íslensku ítrekað. Formennska Íslands í Evrópuráðinu mun vara næstu sex mánuði. Lýkur henni með hátíð í Hörpu. Vonandi munum við fyrir þann tíma hafa tekið skrefið og þýtt evrópsku fangelsisreglurnar á íslensku.

Til hamingju Ísland – með formennsku í Evrópuráðinu!

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi