Ruth Bader Ginsburg, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, lést síðastliðinn föstudag, 87 ára gömul, 46 dögum fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum.

Ruth hafði þjónað sem dómari við réttinn í 27 ár og var önnur konan frá upphafi til að taka sæti við dómstólinn sem samanstendur af níu dómurum, skipuðum af sitjandi Bandaríkjaforseta.

Ruth tilheyrði frjálslyndari armi dómstólsins og eiga kynsystur hennar, samkynhneigðir, innflytjendur og fleiri hópar henni mikið að þakka, enda hefur hún greitt atkvæði með mörgum stærstu mannréttindaúrbótum sem rétturinn hefur fjallað um.

Líklega hefur aldrei verið sótt eins harkalega að jafnrétti kynjanna og þessa stundina í landi hinna frjálsu, Bandaríkjunum. Donald Trump, sitjandi forseti, hefur fyrir löngu sannað að virðing fyrir réttindum kvenna, er ekki eitt af hans aðalsmerkjum. Og nú, rétt fyrir kosningar, fær hann óvænt tromp upp í hendurnar – en örvæntingarfullt útspil er einmitt það sem hann þarf til að kreista fram sigur í þarnæsta mánuði.

Árið 2016 fékk Trump mikinn meirihluta atkvæða strangkristinna en sá hópur hefur hægt og bítandi fjarlægst forseta sinn á líðandi kjörtímabili. Kannanir hafa undanfarið sýnt að það væri óvarlegt af honum að treysta á að kristnir kjósendur sem studdu hann síðast tryggi honum áframhaldandi veru í Hvíta húsinu.

Fjörutíu og sex dögum fyrir kosningar fellur Ruth frá. Konan sem staðið hefur vörð um lögin sem kennd eru við Roe v. Wade og vernda rétt kvenna til fóstureyðinga. Hún hefur þar staðið sem dyggur vörður en nú er raunveruleg hætta á að lögin verði afnumin.

Fram undan er val á eftirmanni hinnar alræmdu RBG eða „Notorious RBG“ eins og hún var oft kölluð. Þeir, sem er annt um jafnrétti og almenn mannréttindi, hafa kviðið þeim degi og vonast til að Ginsburg, sem lengi barðist við heilsubrest, lifði fram yfir kosningar. Þá væri í það minnsta von til þess að í forsetastól væri sestur aðili með þankagang sem hæfði ártalinu, en ekki afturhaldssinninn sem þar hefur ráðið og ríkt.

Það er sannarlega undarleg staða en skyndilega snúast forsetakosningar Bandaríkjanna að miklu leyti um rétt kvenna til þungunarrofs. Það gæti skýrst af því að Trump sá sæng sína útbreidda og spilaði út því örvæntingarfulla spili. Þannig á hann góða möguleika á að ná til baka sínum kristnu kjósendum.

Forsetinn hefur opinberað lista með 40 nöfnum sem koma til greina í embættið en lofaði því nú um helgina að kona yrði fyrir valinu. Það eru þó nokkrar konur á listanum en það sem allir sem til greina koma eiga þó sameiginlegt er að hver einn og einasti tekur afstöðu á móti réttindum kvenna til þungunarrofs.

Að svo mikilvægt réttindamál kvenna, að hafa lokavald yfir eigin líkama, skuli enda sem tól í kosningabaráttu karls sem margoft hefur sýnt rétti kvenna og konum óvirðingu, er ekki bara þyngra en tárum taki, háalvarlegt og afturhvarf til verri tíma. Heldur er það skýrt og augljóst merki um að lýðræðislegt kerfi eins valdamesta ríkis heims er stórgallað.

Og það kemur okkur öllum við.