Eitt veigamesta verkefni sem Ísland hefur tekist á hendur á alþjóðavettvangi á síðari árum var þegar Ísland tók óvænt sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí 2019 og sat þar fram að síðustu áramótum.

Þeir eru til sem sögðu að verkefnið yrði smáríkinu Íslandi ofviða og það ætti ekki erindi þar.

Hlutverk Mannréttindaráðsins er að auka og vernda mannréttindi, fjalla um mannréttindabrot og beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur. Ráðið er einn helsti vettvangur ríkja heims til hreinskiptinna samræðna um mannréttindamál. Starfið byggir á þeirri trú að mannréttindi spretti af samfélagslegu mikilvægi gagnkvæmrar virðingar og að viðurkenndur sé réttur allra til mannlegrar reisnar. Mannréttindi eru algild og óháð félagslegri stöðu, eignum, kynferði, kynþætti, hörundslit, trú, tungu, skoðunum og þjóðerni.

Þátttaka Íslands í ráðinu var vel til fundin enda eru mannréttindi einn hornsteina utanríkisstefnunnar og standa Íslendingum nærri. Þátttaka Íslands í mannréttindaráðinu gaf einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða. Þar voru áherslurnar einkum í jafnréttismálum, réttindum hinsegin fólks, barna, umbótum á starfsemi ráðsins og tengslum mannréttinda við umhverfismál.

Framganga Íslands í ráðinu vakti mikla athygli á alþjóðavettvangi og uppskar lof þeirra sem láta sig þessi mál sérstaklega varða. Fulltrúar landsins lögðu áherslu á mikilvægi þess að alþjóðalög væru virt, ekki síst alþjóðleg mannúðarlög og mannréttindi. Hafði Ísland góða sögu að segja og margt til málanna að leggja.

Setu Íslands í Mannréttindaráðinu bar brátt að þegar Bandaríkin sögðu sig óvænt úr því. Ísland sat því þar einungis hálft kjörtímabil, nærri átján mánuði, en ekki í þrjú ár eins og venja er.

Ísland á að sækjast aftur eftir setu í Mannréttindaráðinu. Við eigum þar erindi. Fámennar þjóðir geta oft lagt mikið af mörkum öllum til heilla.

En þrátt fyrir að þátttaka Íslands í ráðinu væri tímabundin var hún til vegsauka, skóp því góðan sess og sérstöðu í alþjóðastarfi. Hún sýndi einnig að smáríkið Ísland réði vel við verkefnið. Vel var að verki staðið og íslensk utanríkisþjónusta verðskuldar hrós fyrir störf sín.

Ísland á að sækjast aftur eftir setu í Mannréttindaráðinu. Slíkt er alls ekki sjálfgefið. Væntanlega þarf að tilkynna slíkt framboð með nokkurra ára fyrirvara og vinna markvisst að því og stöðugt til að tryggja nægan stuðning við framboðið. Marka þarf slíkri þátttöku áherslur í málaflokki. Seta í þrjú ár, eða heilt kjörtímabil, krefst úthalds og langtímahugsunar og ber með sér kostnað.

Við eigum þar erindi. Fámennar þjóðir geta oft lagt mikið af mörkum öllum til heilla.