Mér er nokkuð sama um fótbolta. Hvort sem það er kvenna- eða karlabolti, deildakeppni eða heimsmeistaramót. En mér er ekki sama um mannréttindi og misbeitingu valds og þess vegna hef ég fylgst með FIFA. Þar hafa spillingarpésar svo sannarlega náð að ata stjórnsýslu þessarar ágætu íþróttar auri. Nú er heimsmeistaramót í Katar og mér dettur ekki hug að reyna að koma inn áhorfssamviskubiti hjá heiðarlegu fótboltaáhugafólki. Njótið bara.

Þeir sem beygja sig undir afarkosti mannréttindabrjótanna í Katar eiga hins vegar að skammast sín. Hér er KSÍ, sem ekkert sérstakt erindi hefur á þessa hvítþvottarsamkomu, sannarlega ekki undanskilið. Það hefur verið vont að fylgjast með framgangi forystufólks sambandsins. Formaðurinn hafði reyndar orð á því að mikilvægt væri að fara til að „taka samtalið“ eða eitthvað á þá leið. Það samtal hefur skilað nákvæmlega því sem gera mátti ráð fyrir – engu.

Eitt sinn hitti ég mannréttindastjóra Evrópuráðsins og ræddi áhrif stórra atburða sem haldnir eru í löndum með vafasama mannréttindasögu. Hann var eindreginn í sínu áliti – ekkert samtal sem lýtur afarkostum geranda skilar öðru en viðurkenningu þeirra innanlands, enda er til hátíðarhaldanna stofnað til þess: „Sjáið bara, umheimurinn elskar okkur,“ segja þeir við kvalda þegna sína sem skilja ekki að umheimurinn láti þetta yfir þá ganga.

Það er auðvitað þannig að ef maður stendur við hliðina á drullupolli sem hoppað er í, slettist á mann. Og ef maður reynir svo að þvo þvottinn í skítugu vatni verður hann áfram skítugur. Þetta ætti forysta KSÍ, með aðsetur steinsnar frá þvottalaugunum, að vita.