Á undanförnum vikum hefur umræða átt sér stað um þvingunaraðgerðir á geðdeildum. Hagsmunasamtök sjúklinga (notenda) hafa barist lengi fyrir því að dregið verði úr þvingunaraðgerðum á geðdeildum og þeim helst útrýmt alveg. Starfsfólk geðdeilda hefur á undanförnum árum einnig leitað leiða til að draga úr þvingunaraðgerðum. Í tilraunum þar sem unnið hefur verið eftir gagnreyndum aðferðum og þekkingu hefur þvingunaraðgerðum oft fækkað en ekki hefur tekist að útrýma þeim. Almenningur er hliðhollur þvingunaraðgerðum fólks með ákveðna geðsjúkdóma, sérstaklega ef talið er að það sé hættulegt sjálfu sér eða öðrum.

Þvingunaraðgerð gegn sjúklingi á geðdeild eða utan geðdeilda er hægt að skilgreina þannig að sjúklingur sé beittur frelsisskerðingu af einhverju tagi gegn eigin vilja. Upplifuð þvingun sjúklings á við hversu miklum þrýstingi sjúklingi finnst hann vera beittur til að hefja eða halda áfram meðferð. Flestar rannsóknir sýna að eftir því sem sjúklingur upplifir minni þvingun því betra verður meðferðarsamband hans við meðferðaraðila og meðferðartíminn styttri.

Helstu þvingunaraðgerðir á geðdeildum eru nauðungarvistun (sjúklingur er vistaður á geðdeild gegn eigin vilja), nauðungarlyfjagjöf (sjúklingi eru gefin lyf inni á eða utan spítala gegn eigin vilja), innilokun (sjúklingi er ætlað að dvelja á afmörkuðu svæði á deildinni í ákveðinn tíma) og að halda sjúklingi kyrrum tímabundið með handafli eða beltum og ólum (sjúklingum er aðeins haldið kyrrum með handafli á geðdeildum á Íslandi að meðaltali í 10 mínútur). Í mörgum löndum eru þessar þvingunaraðgerðir, allar eða hluti þeirra, bundnar í lög og þarf að fá sérstakt leyfi til að framkvæma þær.

Á undanförnum árum hefur komið fram mikil þekking á því hvaða neikvæðar afleiðingar þvingunaraðgerðir geta haft á sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk geðdeilda. Um getur verið að ræða erfiða reynslu fyrir sjúklinginn, hann getur endurupplifað ofbeldi sem hann varð fyrir fyrr í lífi sínu, traust hans gagnvart starfsfólki minnkar, honum finnst hann niðurlægður og útilokaður. Þetta getur t.d. átt við ef sjúklingi er haldið kyrrum til að gefa honum lyf í sprautuformi. Starfsfólk slasast oftar en sjúklingar þegar þeir síðarnefndu eru beittir þvingunar­aðgerðum eða áður en þeim er beitt, starfsfólki finnst oft niðurlægjandi fyrir sig að þurfa að beita þving­unaraðgerðum en sér enga aðra leið.

Flestir sjúklingar sem dvelja á geðdeildum hérlendis og erlendis sýna starfsfólki ekki ofbeldi. Það er samt ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd sem allar rannsóknir um efnið sýna að hjúkrunarfræðingar á geðdeildum og starfsfólk sem vinnur undir þeirra stjórn eru á meðal starfsstétta í þjóðfélaginu sem oftast verða fyrir ofbeldi. Starfsfólk beitir þvingunaraðgerðum til að stöðva ofbeldið ef aðrar aðferðir hafa ekki dugað. Minnki ofbeldi sjúklinga gagnvart starfsfólki dregur úr þvingunaraðgerðum.

Rannsóknir sýna að hægt er að draga úr ofbeldi og þvingunar­aðgerðum á geðdeildum með því að starfsfólk sýni sjúklingum virðingu, verji sem mestum tíma með sjúklingunum, komi fram við þá sem manneskjur með sínar þarfir eins og annað fólk, að jafningjasamband ríki á milli starfsfólks og sjúklinga og sjúklingum séu gefnir eins miklir möguleikar og kostur er á að hafa áhrif á meðferð sína.

Starfsfólk geðdeilda menntar sig og kemur til starfa til að hjálpa fólki við að ná eins miklum bata og mögulegt er. Það á því rétt á að öryggi þess sé tryggt og það verði ekki fyrir ofbeldi. Hagsmunasamtök sjúklinga hafa barist með réttu fyrir auknum réttindum fólks með geðsjúkdóma og mannúðlegri meðferð á geðdeildum, m.a. að draga úr þvingunaraðgerðum. Þau þurfa einnig að mínu mati að leggja sitt af mörkum til að draga úr ofbeldi sjúklinga gagnvart starfsfólki.