Leiða má af orðum forseta ASÍ að æskilegt væri að framleiðsla á bókum, fatnaði og ýmsu fleiru færi fram hér á landi en ekki erlendis eins og tíðkast í hagræðingarskyni. Það hefði í för með sér að við gæfum alþjóðavæðingu upp á bátinn með tilheyrandi tjóni fyrir almenning.

Lággjaldaflugfélagið Play vinnur að því að opna skrifstofu í Litáen þar sem meðal annars á að ráða markaðsfólk og forritara. Laun eru lægri þar í landi og úrvalið af hæfu starfsfólki meira enda mun fjölmennara land. Þetta er skynsamt skref fyrir íslenska neytendur því það stuðlar að lægra farmiðaverði.

Forseta ASÍ þótti opnun skrifstofunnar hins vegar fásinna og sagði Play stórhættulegt öllu íslensku launafólki. Það er ekki eðlismunur á því að ráða fólk erlendis til að vinna við framleiðslu eða á skrifstofu og því hlýtur að mega ætla af ummælunum að betri væri fyrir almenning að fyrirtæki myndu flytja framleiðslu á vörum hingað til lands frá heppilegri framleiðslulöndum. Það er þó ekki raunin heldur myndi slíkt gera fjölda innlendra fyrirtækja ósamkeppnishæf. Það myndi draga þróttinn úr atvinnulífinu sem fyrir vikið gæti ekki greitt jafn há laun.

„Það er aldrei hægt að skilja hið einstaka án þess að þekkja þá heild sem það er brot af,“ sagði Gunnar Dal heimspekingur. Íslendingar njóta góðs af því að viðskiptamódel Icelandair og Play hverfist um að ferja farþega á milli heimsálfa og nota Ísland sem tengipunkt. Þess vegna er flogið frá Íslandi til mun fleiri áfangastaða en fámennt land gæti annars staðið undir. Af þeim sökum auka flugfélögin lífsgæði landsmanna. Til að varpa ljósi á hugmyndafræðina horfir Play til þess að um 80 prósent farþega félagsins verði erlend.

Innlend flugfélög eiga í alþjóðlegri samkeppni meðal annars við lággjaldaflugfélög á borð við EasyJet og Wizz air. Takist þeim ekki að koma böndum á kostnað, til dæmis með opnun skrifstofa erlendis, munu þau verða undir í samkeppninni og lognast út af. Það yrði bagalegt fyrir íslenskan almenning enda yrði flogið beint til færri landa.

Dregið hefur hratt úr atvinnuleysi hérlendis að undanförnu og engum er skylt að starfa fyrir Play. Flugfélagið þarf að leggja sig fram við að vera aðlaðandi vinnustaður og er því ekki hættulegt heldur áhugaverð viðbót við atvinnulífið.