Á dánarbeðinum sendi Steve Jobs sjálfum sér tölvupóst. Í póstinum skrifaði stofnandi tölvurisans Apple af auðmýkt um framlag sitt til mannlegs samfélags. „Ég rækta ekki matinn sem ég borða,“ skrifaði Jobs. „Ég bjó ekki til tungumálið sem ég tala. Ég uppgötvaði ekki stærðfræðina sem ég nota. Ég er varinn með lögum sem ekki eru mín hugarsmíð … Ég elska og dáist að tegund minni, fólki lifandi og liðnu, og er undir því kominn um líf og velferð.“
Heimsmeistaramót karla í knattspyrnu er hafið. Mótið sem fram fer í Katar er umdeilt vegna bágs ástands mannréttinda þar í landi. Talið er að 6.500 farandverkamenn hafi látið lífið við byggingu mannvirkja fyrir keppnina. Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri, líkir meðferð á verkamönnum í Katar við þrælahald í samtali við RÚV og segir fótboltaáhugafólk vera í sömu stöðu og væri því boðið til veislu þar sem framreiddur væri þjófstolinn matur og þrælar þjónuðu til borðs.
Bann við samkynhneigð í Katar hefur einnig vakið athygli. Einn talsmanna mótsins fullyrti að samkynhneigð stafaði af skemmd í heila. Breskur baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra var nýverið handtekinn í Katar og honum gert að yfirgefa landið. Gestum mótsins hefur verið skipað að fara úr fatnaði í regnbogalitunum.
En þrátt fyrir illan orðstír virðist lítill skortur á fólki sem tilbúið er að kenna sig við mótið. Fyrrverandi fótboltastjarnan David Beckham er sakaður um að hvítþvo Katar en hann er sagður hafa fengið greidda 26 milljarða íslenskra króna fyrir að vera andlit mótsins. Tónlistarmenn á borð við Robbie Williams og Fatboy Slim, sem áður skreyttu sig fjöðrum mannréttindabaráttu samkynhneigðra, skemmta nú í Katar.
Við Íslendingar eigum ekki lið á Heimsmeistaramótinu. Við eigum þó okkar fulltrúa í orðsporsþvottahúsinu. Á RÚV var nýverið greint frá því að listamaðurinn knái Ólafur Elíasson sýndi nýtt 150 metra langt stállistaverk í Katar í tengslum við mótið. Prófessor við Listaháskóla Íslands sagðist ekki álasa Ólafi fyrir þátttöku í Katar. „Við skulum hafa í huga að Ólafur Elíasson er risastórt fyrirtæki, þetta eru yfir 300 manns sem vinna hjá honum. Það segir sig sjálft að það þarf peninga til að láta þetta ganga.“ Og KSÍ lætur ekki sitt eftir liggja. Sendinefnd á vegum sambandsins var í góðum gír á opnunarleik mótsins.
Arfleifð ekki byggð á orðum
Heimasíðu til minningar um Steve Jobs var nýverið hleypt af stokkunum. Á síðan að tryggja arfleifð Jobs en þar er m.a. að finna fyrrnefnt bréf. Hefði Jobs hins vegar lifað eins og hann dó þyrfti enga heimasíðu til að framlag hans skilaði sér til komandi kynslóða.
„Ég fann ekki upp hálfleiðarann, örgjörvann, hlutbundna forritun eða nokkra þá tækni sem ég vinn með,“ skrifaði Jobs af þakklæti dýrlings þegar hann lá banaleguna. En arfleifð er ekki byggð á orðum.
Öll helsta tækni sem liggur til grundvallar raftækjum Apple – internetið, GPS-tæknin, snertiskjárinn – byggir á afrakstri rannsókna sem fjármagnaðar voru með skattfé. Engu að síður leitaðist Steve Jobs alla ævi við að komast hjá því að greiða skatta. Hefði Jobs hins vegar greitt sinn skerf til samfélagsins hefði arfleifð hans orðið áþreifanleg; nýjar vísindarannsóknir, menntun ungs fólks, kannski næsti Steve Jobs.
Vatnsbrúsa hannaðan af Ólafi Elíassyni fyrir HM í Katar má kaupa á internetinu fyrir 5.800 krónur. Mannréttindum veraldar stafar ekki hætta af einræðisherrum í Katar; það verður ekki með einu þungu slagi sem mannréttindum er veitt náðarhögg. Dauði mannréttinda mun verða af þúsund skrámum veittum af þeim sem frestuðu fram á dánardægur að þróa með sér sómakennd.