Á dánar­beðinum sendi Ste­ve Jobs sjálfum sér tölvu­póst. Í póstinum skrifaði stofnandi tölvurisans App­le af auð­mýkt um fram­lag sitt til mann­legs sam­fé­lags. „Ég rækta ekki matinn sem ég borða,“ skrifaði Jobs. „Ég bjó ekki til tungu­málið sem ég tala. Ég upp­götvaði ekki stærð­fræðina sem ég nota. Ég er varinn með lögum sem ekki eru mín hugar­smíð … Ég elska og dáist að tegund minni, fólki lifandi og liðnu, og er undir því kominn um líf og vel­ferð.“

Heims­meistara­mót karla í knatt­spyrnu er hafið. Mótið sem fram fer í Katar er um­deilt vegna bágs á­stands mann­réttinda þar í landi. Talið er að 6.500 farand­verka­menn hafi látið lífið við byggingu mann­virkja fyrir keppnina. Sigurður Kristins­son, prófessor í heim­speki við Há­skólann á Akur­eyri, líkir með­ferð á verka­mönnum í Katar við þræla­hald í sam­tali við RÚV og segir fót­bolta­á­huga­fólk vera í sömu stöðu og væri því boðið til veislu þar sem fram­reiddur væri þjóf­stolinn matur og þrælar þjónuðu til borðs.

Bann við sam­kyn­hneigð í Katar hefur einnig vakið at­hygli. Einn tals­manna mótsins full­yrti að sam­kyn­hneigð stafaði af skemmd í heila. Breskur bar­áttu­maður fyrir réttindum sam­kyn­hneigðra var ný­verið hand­tekinn í Katar og honum gert að yfir­gefa landið. Gestum mótsins hefur verið skipað að fara úr fatnaði í regn­boga­litunum.

En þrátt fyrir illan orð­stír virðist lítill skortur á fólki sem til­búið er að kenna sig við mótið. Fyrr­verandi fót­bolta­stjarnan David Beck­ham er sakaður um að hvít­þvo Katar en hann er sagður hafa fengið greidda 26 milljarða ís­lenskra króna fyrir að vera and­lit mótsins. Tón­listar­menn á borð við Robbie Willi­ams og Fat­boy Slim, sem áður skreyttu sig fjöðrum mann­réttinda­bar­áttu sam­kyn­hneigðra, skemmta nú í Katar.

Við Ís­lendingar eigum ekki lið á Heims­meistara­mótinu. Við eigum þó okkar full­trúa í orð­spors­þvotta­húsinu. Á RÚV var ný­verið greint frá því að lista­maðurinn knái Ólafur Elías­son sýndi nýtt 150 metra langt stállista­verk í Katar í tengslum við mótið. Prófessor við Lista­há­skóla Ís­lands sagðist ekki á­lasa Ólafi fyrir þátt­töku í Katar. „Við skulum hafa í huga að Ólafur Elías­son er risa­stórt fyrir­tæki, þetta eru yfir 300 manns sem vinna hjá honum. Það segir sig sjálft að það þarf peninga til að láta þetta ganga.“ Og KSÍ lætur ekki sitt eftir liggja. Sendi­nefnd á vegum sam­bandsins var í góðum gír á opnunar­leik mótsins.

Arf­leifð ekki byggð á orðum

Heima­síðu til minningar um Ste­ve Jobs var ný­verið hleypt af stokkunum. Á síðan að tryggja arf­leifð Jobs en þar er m.a. að finna fyrr­nefnt bréf. Hefði Jobs hins vegar lifað eins og hann dó þyrfti enga heima­síðu til að fram­lag hans skilaði sér til komandi kyn­slóða.

„Ég fann ekki upp hálf­leiðarann, ör­gjörvann, hlut­bundna for­ritun eða nokkra þá tækni sem ég vinn með,“ skrifaði Jobs af þakk­læti dýr­lings þegar hann lá bana­leguna. En arf­leifð er ekki byggð á orðum.

Öll helsta tækni sem liggur til grund­vallar raf­tækjum App­le – inter­netið, GPS-tæknin, snerti­skjárinn – byggir á af­rakstri rann­sókna sem fjár­magnaðar voru með skatt­fé. Engu að síður leitaðist Ste­ve Jobs alla ævi við að komast hjá því að greiða skatta. Hefði Jobs hins vegar greitt sinn skerf til sam­fé­lagsins hefði arf­leifð hans orðið á­þreifan­leg; nýjar vísinda­rann­sóknir, menntun ungs fólks, kannski næsti Ste­ve Jobs.

Vatns­brúsa hannaðan af Ólafi Elías­syni fyrir HM í Katar má kaupa á inter­netinu fyrir 5.800 krónur. Mann­réttindum veraldar stafar ekki hætta af ein­ræðis­herrum í Katar; það verður ekki með einu þungu slagi sem mann­réttindum er veitt náðar­högg. Dauði mann­réttinda mun verða af þúsund skrámum veittum af þeim sem frestuðu fram á dánar­dægur að þróa með sér sóma­kennd.