Skaðinn sem fyrrverandi forsetinn Donald Trump náði að valda á stuttri en afdrifaríkri stjórnartíð sinni er enn að koma fram í dagsljósið. Á embættistíma sínum skipaði hann í Hæstarétt Bandaríkjanna þrjá dómara og tryggði þannig að æðsti dómstóll í landi hinna frjálsu væri að meirihluta skipaður afturhaldsseggjum. Þetta gerði hann til að tryggja sér völd og nú raungerast hryllilegar afleiðingar þess. Fórnarkostnaðurinn er skertur réttur kvenna til þungunarrofs.
Fyrir helgi sneri dómstóllinn, sem skipaður er sex íhaldssömum dómurum og þremur frjálslyndari, við einum sögufrægasta dómi bandarískrar réttarsögu, Roe vs. Wade. Dómi sem verndað hefur rétt bandarískra kvenna til þungunarrofs í tæpa fimm áratugi, eða frá árinu 1973.
Það voru fimm eldri karlar og ein strangtrúuð sjö barna móðir sem kusu gegn rétti kvenkyns samlanda sinna til að binda endi á þungun sem þær vilja ekki ljúka. Tvær konur og einn karl við dóminn, hinn frjálslyndari hluti, vildu vernda þennan sjálfsagða rétt og létu andmæli fylgja dómnum þar sem sagði að þau syrgðu að með honum töpuðu milljónir bandarískra kvenna grundvallarréttindum sínum.
Það eru komin um tvö ár síðan ég fyrst reifaði á þessum vettvangi áhyggjur mínar af vali Donalds Trump á hæstaréttardómurum, þar var línan lögð og á stuttum tíma hafa svörtustu spár gengið eftir. Grundvallarréttindi hálfrar bandarísku þjóðarinnar eru felld úr gildi og heilsu og lífi stúlkna og kvenna jafnvel stefnt í hættu. Er þetta gert í skjóli kristinna gilda sem eru neydd upp á trúaða sem trúlausa. Gildi sem hinir íhaldssömu kristnu túlka á sína lund, þar sem þungunarrof er ekki til umfjöllunar í Biblíunni, enda hlutar hennar allt frá bronsöld.
„Þessi áður óhugsandi afturför í lagasetningu fær mann til að leiða hugann að því hvað gerist næst.“
Þessi áður óhugsandi afturför í lagasetningu fær mann til að leiða hugann að því hvað gerist næst. Sterka vísbendingu má finna í ákalli eins dómaranna, Clarence Thomas, til réttarins. Við atkvæðagreiðslu sína kallaði hann eftir því að Hæstiréttur leiðrétti þau mistök sem gerð hefðu verið í fordæmisgefandi dómum er leyfa hjónabönd og jafnvel sambönd samkynhneigðra.
Hér er lögfræði notuð til að snúa upp á lýðræðið enda hafa kannanir sýnt að meirihluti bandarísku þjóðarinnar er fylgjandi rétti kvenna til þungunarrofs.
Bandaríkjamenn hafa um helgina sýnt að þessu verði ekki tekið þegjandi enda kvíðvænlegt að ímynda sér á hvaða áratugi fortíðarinnar við gætum lent með áframhaldandi afturför.
Slagorð á við: Ekkert leg – engin skoðun, hafa verið áberandi, enda kannski eðlileg krafa að þeir aðilar sem löggjöfin nær yfir hafi eitthvað um hana að segja.