Skaðinn sem fyrr­verandi for­setinn Donald Trump náði að valda á stuttri en af­drifa­ríkri stjórnar­tíð sinni er enn að koma fram í dags­ljósið. Á em­bættis­tíma sínum skipaði hann í Hæsta­rétt Banda­ríkjanna þrjá dómara og tryggði þannig að æðsti dóm­stóll í landi hinna frjálsu væri að meiri­hluta skipaður aftur­halds­seggjum. Þetta gerði hann til að tryggja sér völd og nú raun­gerast hrylli­legar af­leiðingar þess. Fórnar­kostnaðurinn er skertur réttur kvenna til þungunar­rofs.

Fyrir helgi sneri dóm­stóllinn, sem skipaður er sex í­halds­sömum dómurum og þremur frjáls­lyndari, við einum sögu­frægasta dómi banda­rískrar réttar­sögu, Roe vs. Wade. Dómi sem verndað hefur rétt banda­rískra kvenna til þungunar­rofs í tæpa fimm ára­tugi, eða frá árinu 1973.

Það voru fimm eldri karlar og ein strang­trúuð sjö barna móðir sem kusu gegn rétti kven­kyns sam­landa sinna til að binda endi á þungun sem þær vilja ekki ljúka. Tvær konur og einn karl við dóminn, hinn frjáls­lyndari hluti, vildu vernda þennan sjálf­sagða rétt og létu and­mæli fylgja dómnum þar sem sagði að þau syrgðu að með honum töpuðu milljónir banda­rískra kvenna grund­vallar­réttindum sínum.

Það eru komin um tvö ár síðan ég fyrst reifaði á þessum vett­vangi á­hyggjur mínar af vali Donalds Trump á hæsta­réttar­dómurum, þar var línan lögð og á stuttum tíma hafa svörtustu spár gengið eftir. Grund­vallar­réttindi hálfrar banda­rísku þjóðarinnar eru felld úr gildi og heilsu og lífi stúlkna og kvenna jafn­vel stefnt í hættu. Er þetta gert í skjóli kristinna gilda sem eru neydd upp á trúaða sem trú­lausa. Gildi sem hinir í­halds­sömu kristnu túlka á sína lund, þar sem þungunar­rof er ekki til um­fjöllunar í Biblíunni, enda hlutar hennar allt frá brons­öld.

„Þessi áður ó­hugsandi aftur­för í laga­setningu fær mann til að leiða hugann að því hvað gerist næst.“

Þessi áður ó­hugsandi aftur­för í laga­setningu fær mann til að leiða hugann að því hvað gerist næst. Sterka vís­bendingu má finna í á­kalli eins dómaranna, Clarence Thomas, til réttarins. Við at­kvæða­greiðslu sína kallaði hann eftir því að Hæsti­réttur leið­rétti þau mis­tök sem gerð hefðu verið í for­dæmis­gefandi dómum er leyfa hjóna­bönd og jafn­vel sam­bönd sam­kyn­hneigðra.

Hér er lög­fræði notuð til að snúa upp á lýð­ræðið enda hafa kannanir sýnt að meiri­hluti banda­rísku þjóðarinnar er fylgjandi rétti kvenna til þungunar­rofs.

Banda­ríkja­menn hafa um helgina sýnt að þessu verði ekki tekið þegjandi enda kvíð­væn­legt að í­mynda sér á hvaða ára­tugi for­tíðarinnar við gætum lent með á­fram­haldandi aftur­för.

Slag­orð á við: Ekkert leg – engin skoðun, hafa verið á­berandi, enda kannski eðli­leg krafa að þeir aðilar sem lög­gjöfin nær yfir hafi eitt­hvað um hana að segja.