Vitundarvakningin Þróunarsamvinna ber ávöxt stendur nú sem hæst. Í þetta sinn er markmiðið með vitundarvakningunni að hvetja fyrirtæki til samstarfs og að leggja lóð sitt á vogarskálarnar við að bæta lífskjör fólks úti um allan heim og vinna að framgangi Heimsmarkmiðanna.

Fyrirtæki hafa ýmsa möguleika þegar kemur að þróunarsamvinnu og er samstarf með frjálsum félagasamtökum spennandi leið sem er til hagsbóta fyrir báða aðila. Fyrirtæki geta lagt til þekkingu, búnað, vinnuafl eða fjármuni svo eitthvað sé nefnt.

Fyrirtæki og frjáls félagasamtök hafa í auknum mæli hafið samstarf á sviði þróunarsamvinnu en Heimsmarkmið 17 kallar einmitt eftir víðtækri samvinnu margra hagsmunaaðila því margar hendur vinna létt verk og báðir aðilar hafa yfir að búa mikilvægri reynslu og þekkingu sem getur gagnast á báða bóga.

Mörg frjáls félagasamtök á Íslandi eru aðilar að stórum alþjóðasamtökum með stórt net sérfræðinga úti um allan heim sem hafa sérþekkingu á staðháttum og starfa náið með grasrótinni og stjórnvöldum. Samstarf fyrirtækja við íslensku samtökin veitir aðgang að þessu neti sem er ómetanlegt þegar hafin er starfsemi í þróunarlöndum.

Fyrirtæki hafa í gegnum tíðina oft verið gagnrýnd fyrir að notfæra sér þróunarlöndin. Með því að til dæmis greiða ósanngjarnt verð fyrir vöru og/eða þjónustu, borga ekki skatta og ýta undir spillingu með mútugreiðslum. Gagnrýnin hefur verið sérstaklega hörð á fyrirtæki sem menga með námuvinnslu eða efna- og lyfjaframleiðslu auk vinnuaflsfrekra fyrirtækja í framleiðslu á klæðnaði, skóm, leikföngum, sælgæti og kaffi. Slík fyrirtæki leggja mikla áherslu á að tengja vörumerki sitt samfélagslegri ábyrgð og vinna með frjálsum félagasamtökum.

Dæmi um samstarfsverkefni fyrirtækja og frjálsra félagasamtaka

Save the Children hafa unnið með mörgum erlendum stórfyrirtækjum að því að innleiða réttindi barna í verkferla og virðiskeðjur fyrirtækja. Allt frá því að sjá til þess að vinnuumhverfi starfsfólks á Norðurlöndum sé fjölskylduvænt til þess að berjast gegn barnaþrælkun við ræktun á kakóbaunum í Afríku.

SOS barnaþorpin á Íslandi hafa meðal annars unnið með Marel að því að safna fyrir skóla og bókasafni á Fílabeinsströndinni í gegnum svokallað Tour de Marel sem er fjáröflunarátak starfsmanna Marel. Alþjóðasamtök SOS barnaþorpanna hafa einnig unnið með Wrigley tyggjóframleiðandanum að verkefnum þar sem hluti af ágóða fyrirtækisins fer í að styðja við tannheilsu barna í þróunarlöndum.

UNWOMEN hafa undanfarin ár verið í samstarfi við Vodafone í tengslum við FO herferð samtakanna. Vodafone hefur fjármagnað framleiðslu FO húfanna sem hefur gert UNWOMEN kleift að senda allan ágóða af sölu húfanna til verkefna UNWOMEN sem miða að því að valdefla konur og stúlkur út um allan heim.

Rauði krossinn hefur m.a. starfað með Íslandsbanka og Reiknistofu bankanna að því að fá að láni sérfræðinga í upplýsinga- og samskiptatækni, þeim að kostnaðarlausu, til að aðstoða landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í löndum Afríku við að byggja upp getu sína í upplýsinga- og samskiptatækni.

Einnig þekkist að fulltrúum frjálsra félagasamtaka hafi verið boðið að taka sæti í stjórn fyrirtækja með það að markmiði að tala máli ákveðinna hópa og/eða málstaðar og hafa þannig áhrif á ákvarðanatöku er snýr að sjálfbærni, stefnumörkun eða vöruþróun. Save the Children eru til að mynda í auknum mæli í stjórn stórra erlendra fyrirtækja til að standa vörð um réttindi barna og sjá til þess að réttindi barna séu virt í öllu starfi og ákvarðanatöku innan fyrirtækja.

Eins og sést á þessum dæmum eru möguleikarnir endalausir og getur samstarf fyrirtækja og frjálsra félagasamtaka verið með ýmsu móti. Fyrirtæki geta kynnt sér vitundarvakninguna nánar á https://www.facebook.com/throunarsamvinna.ber.avoxt/.

Höfundur er verkefnastjóri erlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.

Greinin er skrifuð í tilefni átaksins Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Markmið átaksins er að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, að taka þátt í þróunarsamvinnu og vinna þannig markvisst að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.