Við erum öll hluti af þessu samfélagi, hvert og eitt okkar er hlekkur í þeirri lífrænu heild sem við köllum Reykvíkinga. Reykjavík er og á að vera lýðræðissamfélag.

Við viljum heyra þín sjónarmið. Hvað má betur fara og hvernig lýðræði Reykjavíkurborgar er eflt og bætt. Hvernig er hægt að gera samráðsferli Reykjavíkurborgar betri? Að hvaða ákvarðanatöku viltu hafa meiri aðkomu en nú er í boði? Hvað finnst þér virka vel?

Lýðræðisstefna Reykjavíkur-borgar er nú í mótun. Opnuð hefur verið samráðsgátt þar sem hægt er að koma hugmyndum sínum á framfæri með því að setja þær inn á www.reykjavik.is/lydraedisstefna. Þar að auki verður haldinn opinn samráðsfundur með vorinu og notaðir rýnihópar til að fá fram sjónarmið hagsmunaaðila.

Vald kjörinna fulltrúa kemur frá almenningi. Stjórnmálafólk er bara venjulegt fólk og það veit ekki allt best. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir það að heyra raddir borgar-búa og að borgarbúar hafi aðkomu að ákvarðanatöku. Með þessu aukast gæði ákvarðana. Með því getum við bætt stjórnmálin og stjórnsýslu borgarinnar.

Við viljum að verkefni borgar-innar séu á þínum forsendum, ekki á forsendum kerfisins. Stærstu áskoranir nútímans eru að auki einfaldlega það stórar að okkur farnast best að leita lausna saman. En hvernig er hægt að tryggja þína aðkomu? Hvernig viltu geta haft áhrif og á hvaða stigi ákvarðanatökuferilsins?

Taktu þátt! Vertu með! Gerum þetta saman.

Dóra Björt Guðjónsdóttir,

f.h. þverpólitísks stýrihóps um aukið íbúalýðræði í borginni