Við lifum í heimi a.m.k. þriggja stór­velda. Þessi stór­veldi eru Banda­ríkin, Kína og Rúss­land. Á ensku er þetta kallað „multi­polar world“.

Banda­ríkin eru öflugust. Eftir seinni heims­styrj­öldina voru þau lang­stærsta hag­kerfi heimsins með um 40% af vergri lands­fram­leiðslu. Árið 1944 skrifuðu stjórn­völd Banda­ríkjanna í megin­dráttum reglur ráðandi al­þjóða­stofnana eins og Al­þjóða­bankans og Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðsins og Al­þjóða­við­skipta­stofnunarinnar (GATT). Banda­ríkin eru líka ráðandi land í NATO, öflugasta varnar­banda­lagi heimsins (Rússar og Kína myndu segja hernaðar­banda­lagi). Eðli­lega vilja Banda­ríkin sem stór­veldi við­halda þeirri heims­skipan sem varð til eftir seinni heims­styrj­öldina. Sovét­ríkin voru keppi­nautur til 1991 en á síðustu árum hefur vöxtur Kína verið helsta ógnin við völd og yfir­ráð Banda­ríkjanna í heiminum. Í Evrópu veldur Rúss­land nú usla með stríðs­rekstri í Úkraínu.

Kína er næstöflugasta stór­veldið. Vöxtur þess byggir að mestu á út­flutningi til ríkra Vestur­landa. Kína á langt í land með að ná meðal­tekjum á mann í Banda­ríkjunum en vegna fólks­fjölda og mikils hag­vaxtar er það næst­stærsta hag­kerfi heims sé verg lands­fram­leiðsla metin á ríkjandi verð­lagi (e. cur­rent prices) en stærsta hag­kerfi heims sé verg lands­fram­leiðsla þess metin á jafn­virðis­gengi (e. purchasing power parity). Sem vaxandi stór­veldi vill Kína eðli­lega ekki fylgja for­skrift Banda­ríkjanna. Stór­veldi setja sínar eigin reglur og ætlast til að aðrar þjóðir fari eftir þeim. Liður í því er að setja á fót eigin al­þjóða­stofnanir til höfuðs þeim banda­rísku og það hefur Kína gert með Asian Infra­structure Invest­ment Bank sem er í Peking og New De­velop­ment Bank í Shang­hai.

Rúss­land er valda­minna en hin tvö en er samt stór­veldi vegna land­fræði­legrar stærðar sinnar og auð­linda, auk stöðu sinnar sem kjarn­orku­veldis. Samt er Rúss­land hnignandi stór­veldi vegna fólks­fækkunar, veikra stofnana, auk þess sem hag­kerfið er ein­hæft, háð sölu á olíu og gasi.

Vald í al­þjóða­sam­skiptum liggur hjá landinu sem getur lagt háan kostnað á annað land með litlum til­kostnaði fyrir sjálft sig. Stríðið í Úkraínu virðist ætla að veikja Rúss­land veru­lega. Það veldur kostnaði fyrir Banda­ríkin sem senda vopn, en þurfa ekki að fórna manns­lífum. Kína þarf ekkert að gera, hvorki senda vopn né fórna manns­lífum. Meðal stór­veldanna er Kína aðal sigur­vegarinn. Ekkert land tapar meira á þessu stríði en Rúss­land, að Úkraínu einni undan­skilinni. Hag­kerfi Úkraínu sem var veikt fyrir hrynur nú.

Vestur­lönd, undir for­ystu Banda­ríkjanna, líta á Kína og Rúss­land sem öfl sem grafa undan því sem kallað er „ru­les-based democratic or­der“ sem þau hafa komið á undir for­ystu Banda­ríkjanna. Í utan­ríkis­stefnu sinni leggur ríkis­stjórn Joe Biden á­herslu á að styrkja banda­lög við vin­veitt ríki. Sam­skipti Banda­ríkjanna við Evrópu­ríki NATO hafa batnað eftir að kjör­tíma­bili Trump lauk. Banda­ríkin hafa líka myndað banda­lög í Asíu eins og Quad (e. Qu­adri­la­teral Secu­rity Dia­logu­e) sem er banda­lag Ástralíu, Ind­lands, Japans og Banda­ríkjanna, og AUKUS sem er banda­lag Ástralíu, Bret­lands og Banda­ríkjanna.

Ein megin­hug­mynd þessara banda­laga, auk öryggis­mála, er að verja lýð­ræði og réttar­ríkið. Vestur­lönd líta á það sem fjöl­þjóð­legt verk­efni að veita Kína að­hald og eigi árangur að nást krefst það sam­vinnu og sam­stöðu meðal Banda­ríkjanna og helstu banda­manna þeirra bæði í Evrópu og Asíu. Þó á lýð­ræði undir högg að sækja í sumum þessum banda­lags­ríkjum eins og Tyrk­landi, Ung­verja­landi, Filipps­eyjum og Taí­landi.

Asíu­ríkin sem eru hlið­holl Banda­ríkjunum óttast að þurfa að velja á milli Banda­ríkjanna og Kína. Þau eru háð Banda­ríkjunum í öryggis­málum en Kína í utan­ríkis­við­skiptum. ESB er eina stór­veldið sem treystir á annað stór­veldi, Banda­ríkin, um varnir sínar. Við­skiptin við Kína eru mikil­væg fyrir ESB og þegar kemur að olíu og gasi er Rúss­land enn mikil­vægt eins og ræki­lega hefur komið fram í Úkraínu­stríðinu.

Frá sjónar­horni Kína og Rúss­lands er eðli­legt að þessi lönd bregðist hart við þegar Vestur­lönd krefjast þess að þau taki upp lýð­ræði að sinni fyrir­mynd. Stjórn­völd í Kína og Rúss­landi sjá þetta sem beina ógn við sig og sína stjórn­hætti og sam­einast gegn Banda­ríkjunum og banda­mönnum þeirra. Og Banda­ríkin hafa oft verið ansi bjart­sýn um að hægt væri að taka upp vest­rænt lýð­ræði í öðrum löndum á ein­faldan hátt. Eins og Geor­ge W. Bush orðaði það í á­varpi 2003: „Íraskt lýð­ræði mun ná árangri – og þessi árangur mun senda fréttir, frá Damaskus til Teheran, um að frelsi geti verið fram­tíð sér­hverrar þjóðar.“ Samt vita Vestur­lönd vel að það tók langan tíma að þróa það lýð­ræði og lýð­ræðis­legar stofnanir sem þau búa við í dag.

Haldi Kína á­fram að vaxta munu Banda­ríkin á næstu árum þurfa að draga úr stuðningi við öryggis­mál Evrópu og um leið krefjast þess að Evrópu­ríki taki í auknum mæli á­byrgð á sínum eigin öryggis­málum. Evrópu­búar munu samt sem áður vera háðir hernaðar­legum og pólitískum stuðningi Banda­ríkja­manna en í staðinn er lík­legt að Banda­ríkin leiti eftir evrópskum stuðningi til dæmis vegna Taí­van.

Banda­ríkin geta myndað fjöl­þjóð­legan vett­vang til að leiða saman helstu banda­menn sína í Asíu og Evrópu til að skapa sam­stöðu meðal landa sem styðja lýð­ræði og réttar­ríki.

Hópur eins og D10, með Banda­ríkin og lýð­ræðis­ríki sem styðja Banda­ríkin innan­borðs, gæti myndað mót­vægi við ein­ræðis­ríki eða ríki með ein­ræðis­til­burði, einkum Kína og Rúss­land. D10-löndin saman­standa af Banda­ríkjunum, Bret­landi, Frakk­landi, Ítalíu, Þýska­landi, Japan og Kanada auk Ástralíu, Suður-Kóreu og Ind­lands. Þarna er verið að tefla fram lýð­ræðis­ríkjum einkum gegn Kína. Svo má spyrja hvort heppi­legt sé að stilla lýð­ræðis­ríkjum og ein­ræðis­ríkjum upp hverju gegn öðru á þennan hátt. Hvort það sé væn­legt til friðar og gott fyrir vel­ferð mann­kynsins til lengdar.

Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði hjá Alþjóðabankanum um tólf ára skeið.