Við lifum í heimi a.m.k. þriggja stórvelda. Þessi stórveldi eru Bandaríkin, Kína og Rússland. Á ensku er þetta kallað „multipolar world“.
Bandaríkin eru öflugust. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru þau langstærsta hagkerfi heimsins með um 40% af vergri landsframleiðslu. Árið 1944 skrifuðu stjórnvöld Bandaríkjanna í megindráttum reglur ráðandi alþjóðastofnana eins og Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (GATT). Bandaríkin eru líka ráðandi land í NATO, öflugasta varnarbandalagi heimsins (Rússar og Kína myndu segja hernaðarbandalagi). Eðlilega vilja Bandaríkin sem stórveldi viðhalda þeirri heimsskipan sem varð til eftir seinni heimsstyrjöldina. Sovétríkin voru keppinautur til 1991 en á síðustu árum hefur vöxtur Kína verið helsta ógnin við völd og yfirráð Bandaríkjanna í heiminum. Í Evrópu veldur Rússland nú usla með stríðsrekstri í Úkraínu.
Kína er næstöflugasta stórveldið. Vöxtur þess byggir að mestu á útflutningi til ríkra Vesturlanda. Kína á langt í land með að ná meðaltekjum á mann í Bandaríkjunum en vegna fólksfjölda og mikils hagvaxtar er það næststærsta hagkerfi heims sé verg landsframleiðsla metin á ríkjandi verðlagi (e. current prices) en stærsta hagkerfi heims sé verg landsframleiðsla þess metin á jafnvirðisgengi (e. purchasing power parity). Sem vaxandi stórveldi vill Kína eðlilega ekki fylgja forskrift Bandaríkjanna. Stórveldi setja sínar eigin reglur og ætlast til að aðrar þjóðir fari eftir þeim. Liður í því er að setja á fót eigin alþjóðastofnanir til höfuðs þeim bandarísku og það hefur Kína gert með Asian Infrastructure Investment Bank sem er í Peking og New Development Bank í Shanghai.
Rússland er valdaminna en hin tvö en er samt stórveldi vegna landfræðilegrar stærðar sinnar og auðlinda, auk stöðu sinnar sem kjarnorkuveldis. Samt er Rússland hnignandi stórveldi vegna fólksfækkunar, veikra stofnana, auk þess sem hagkerfið er einhæft, háð sölu á olíu og gasi.
Vald í alþjóðasamskiptum liggur hjá landinu sem getur lagt háan kostnað á annað land með litlum tilkostnaði fyrir sjálft sig. Stríðið í Úkraínu virðist ætla að veikja Rússland verulega. Það veldur kostnaði fyrir Bandaríkin sem senda vopn, en þurfa ekki að fórna mannslífum. Kína þarf ekkert að gera, hvorki senda vopn né fórna mannslífum. Meðal stórveldanna er Kína aðal sigurvegarinn. Ekkert land tapar meira á þessu stríði en Rússland, að Úkraínu einni undanskilinni. Hagkerfi Úkraínu sem var veikt fyrir hrynur nú.
Vesturlönd, undir forystu Bandaríkjanna, líta á Kína og Rússland sem öfl sem grafa undan því sem kallað er „rules-based democratic order“ sem þau hafa komið á undir forystu Bandaríkjanna. Í utanríkisstefnu sinni leggur ríkisstjórn Joe Biden áherslu á að styrkja bandalög við vinveitt ríki. Samskipti Bandaríkjanna við Evrópuríki NATO hafa batnað eftir að kjörtímabili Trump lauk. Bandaríkin hafa líka myndað bandalög í Asíu eins og Quad (e. Quadrilateral Security Dialogue) sem er bandalag Ástralíu, Indlands, Japans og Bandaríkjanna, og AUKUS sem er bandalag Ástralíu, Bretlands og Bandaríkjanna.
Ein meginhugmynd þessara bandalaga, auk öryggismála, er að verja lýðræði og réttarríkið. Vesturlönd líta á það sem fjölþjóðlegt verkefni að veita Kína aðhald og eigi árangur að nást krefst það samvinnu og samstöðu meðal Bandaríkjanna og helstu bandamanna þeirra bæði í Evrópu og Asíu. Þó á lýðræði undir högg að sækja í sumum þessum bandalagsríkjum eins og Tyrklandi, Ungverjalandi, Filippseyjum og Taílandi.
Asíuríkin sem eru hliðholl Bandaríkjunum óttast að þurfa að velja á milli Bandaríkjanna og Kína. Þau eru háð Bandaríkjunum í öryggismálum en Kína í utanríkisviðskiptum. ESB er eina stórveldið sem treystir á annað stórveldi, Bandaríkin, um varnir sínar. Viðskiptin við Kína eru mikilvæg fyrir ESB og þegar kemur að olíu og gasi er Rússland enn mikilvægt eins og rækilega hefur komið fram í Úkraínustríðinu.
Frá sjónarhorni Kína og Rússlands er eðlilegt að þessi lönd bregðist hart við þegar Vesturlönd krefjast þess að þau taki upp lýðræði að sinni fyrirmynd. Stjórnvöld í Kína og Rússlandi sjá þetta sem beina ógn við sig og sína stjórnhætti og sameinast gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. Og Bandaríkin hafa oft verið ansi bjartsýn um að hægt væri að taka upp vestrænt lýðræði í öðrum löndum á einfaldan hátt. Eins og George W. Bush orðaði það í ávarpi 2003: „Íraskt lýðræði mun ná árangri – og þessi árangur mun senda fréttir, frá Damaskus til Teheran, um að frelsi geti verið framtíð sérhverrar þjóðar.“ Samt vita Vesturlönd vel að það tók langan tíma að þróa það lýðræði og lýðræðislegar stofnanir sem þau búa við í dag.
Haldi Kína áfram að vaxta munu Bandaríkin á næstu árum þurfa að draga úr stuðningi við öryggismál Evrópu og um leið krefjast þess að Evrópuríki taki í auknum mæli ábyrgð á sínum eigin öryggismálum. Evrópubúar munu samt sem áður vera háðir hernaðarlegum og pólitískum stuðningi Bandaríkjamanna en í staðinn er líklegt að Bandaríkin leiti eftir evrópskum stuðningi til dæmis vegna Taívan.
Bandaríkin geta myndað fjölþjóðlegan vettvang til að leiða saman helstu bandamenn sína í Asíu og Evrópu til að skapa samstöðu meðal landa sem styðja lýðræði og réttarríki.
Hópur eins og D10, með Bandaríkin og lýðræðisríki sem styðja Bandaríkin innanborðs, gæti myndað mótvægi við einræðisríki eða ríki með einræðistilburði, einkum Kína og Rússland. D10-löndin samanstanda af Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, Japan og Kanada auk Ástralíu, Suður-Kóreu og Indlands. Þarna er verið að tefla fram lýðræðisríkjum einkum gegn Kína. Svo má spyrja hvort heppilegt sé að stilla lýðræðisríkjum og einræðisríkjum upp hverju gegn öðru á þennan hátt. Hvort það sé vænlegt til friðar og gott fyrir velferð mannkynsins til lengdar.
Höfundur er prófessor við Háskólann á Akureyri og starfaði hjá Alþjóðabankanum um tólf ára skeið.