Borgarráð samþykkti í gær þrjár tillögur sem afgreiddar voru samhljóða úr menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í vikunni og tengjast allar fyrstu aðgerðum í meirihlutasáttmála Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Tillögurnar gera lífið léttara fyrir barnafjölskyldur og skemmtilegra fyrir fólk á öllum aldri.

Frístundastyrkur hækkar um 50% um næstu áramót og munar um minna, en þá mun borgin greiða með hverju barni 75 þúsund krónur á ári til að létta undir með foreldrum varðandi fjármögnun skipulegs frístundastarfs. Frístundastyrkurinn hefur fyrir löngu sannað gildi sitt en hann hækkaði síðast árið 2017 og er væntanleg hækkun sú mesta síðan styrkurinn var tekinn upp árið 2006. Hún á að styrkja stöðu barnafjölskyldna sem ekki er vanþörf á þegar verðbólgan lætur á sér kræla svo um munar. Við munum fela Íþróttabandalagi Reykjavíkur að hafa sérstakt eftirlit með því að hækkunin leiði ekki sjálfkrafa til mun hærri notendagjalda. Við munum samhliða skoða leiðir til að auka þátttöku barna í frístundum í hverfum þar sem þátttakan hefur verið undir meðallagi.

Önnur aðgerð sem kemur barnafjölskyldum til góða er frítt í sund fyrir börn. Frá og með með 1. ágúst verður ókeypis í sundlaugar borgarinnar fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Sundið er frábær heilsubót fyrir fólk á öllum aldri og börn vita fátt skemmtilegra en að skella sér í sund með fjölskyldu eða vinum. Frítt í sund gerir vonandi gott sumar enn þá betra fyrir börnin í borginni. Boðið verður upp á endurgreiðslu á sundkortum.

Síðast en ekki síst hefur verið samþykkt að hafa eina sundlaug í borginni, Laugardalslaug, opna til miðnættis einu sinni í viku, á fimmtudagskvöldum. Þetta verður reynt í tilraunaskyni til að byrja með frá 4. ágúst til áramóta og ef vel gengur er vilji til að halda því áfram. Við vonumst til að þessu verði vel tekið og miðnæturopnunin geri sundmenninguna í borginni enn líflegri og skemmtilegri. Gleðilegt sumar!