Kosningarnar á morgun eru loksins orðnar spennandi. Ég hugsa að ég vaki. Fyrir mitt leyti mun ég fylgjast spenntur með þremur víglínum: Ein þeirra er við 20%, önnur við 15% og sú þriðja við 5%. Hvernig fylgi flokkanna verður við þessar þrjár víglínur held ég að muni ráða miklu um það hvernig landinu verður stjórnað á næsta kjörtímabili og hvernig pólitíska landslagið þróast á næstu árum.

Tuttugu

Við 20% línuna berst Sjálfstæðisflokkurinn fyrir tilverurétti sínum sem síðasti stóri flokkurinn. Í raun og veru liggur línan nokkuð hærra, því fylgi flokksins náði sögulegu lágmarki eftir hrun árið 2009, þegar það fór í 23,7% og þótti fáheyrt. Verulegar líkur eru á að fylgi flokksins núna verði minna en það, svo flokkurinn er þegar í basli. Fari flokkurinn niður fyrir tuttugu munu þau stórtíðindi hafa gerst að Sjálfstæðisflokkurinn bætist í hóp allra hinna, sem hafa mátt sætta sig við að berjast um atkvæði í flötu, víðfeðmu landslagi þar sem smáflokkafylgi, á eldri mælikvörðum, þykir núna frábært. Sjálfstæðisflokkurinn mun þá augljóslega ekki eiga sérstakt tilkall til ríkisstjórnarsetu umfram aðra. Til þess að eiga það, þarf hann að komast allnokkuð í burtu frá tuttugu prósentunum. Það virðist strembið. Í stuttu máli: Á morgun gætum við orðið vitni að hinu endanlega smiðshöggi á gjörbreytta flokkapólitík á Íslandi með falli síðasta fjórflokksins.

Fimmtán

Fimmtán prósent línan er ekki síður spennandi. Þar verður skorið úr um hvaða flokkur, eða flokkar, teljast sigurvegarar. Hér keppa nokkrir. Framsókn hefur náð vopnum sínum eftir erfið uppgjörsár við fyrrverandi formann og fylgismenn hans. Þau átök hafa vafalítið leitt til ótal niðurlútra andvarpa. Upp úr þunglyndislegum „æ-ég-veit-ekki-af-hverju-ég-er-að-þessu“ árum rís „æ-er-ekki-bara-best-að-kjósa-framsókn“. Margir dæsa með. Flokkurinn verður án efa í lykilstöðu eftir kosningar, sleiki hann fimmtán prósentin. Við hann keppir vinstrið: Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn. Samfylkingin, sem hvarf næstum því fyrir nokkrum árum, er í sókn. Þótt fokinn sé út um gluggann hinn upphaflegi draumur um að verða hinn risinn, mótvægið við hægrið, virðist jafnaðarhreyfingunni hafa gengið ágætlega að sníða á sig ný og aðskornari föt, sem passa betur. Norrænar áherslur lifa þar góðu lífi á inniskónum, yfir kvefuðum börnum og endurvinnslutunnum. Snerti Samfó fimmtán, og Sjallar ströggli, verða skilaboðin nokkuð skýr um bæði vinstri sveiflu og ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks. Sigur Samfó yrði að þessu leyti frábrugðinn sigri Framsóknar, sem útilokar alls ekki samstarf við Sjálfstæðisflokk. Sigri báðir flokkar, gæti orðið áhugavert pólitísk limbó.

Píratar eru ekki heldur spenntir fyrir balli í Sjallanum. Hvað sigurvegaraslaginn varðar er staða Pírata og Viðreisnar örlítið öðruvísi en Samfylkingar, Framsóknar og Vinstri grænna. Fyrir tiltölulega nýja flokka, eins og Pírata og Viðreisn, verður það að teljast árangur að ná að festa sig í sessi í þriðju eða fjórðu kosningunum frá stofnun. Það að flokkarnir séu yfirhöfuð með í fimmtán prósent slagnum, og eygi jafnvel von um umræddan sigurvegarabikar — en séu ekki lagstir á hliðina í innanflokkserjum — er eftirtektarverður árangur einn og sér. Báðir flokkar gætu náð að styrkja sig sem valkostir. Annar sem frjálslyndur og nokkuð grænn Evrópuflokkur. Hinn sem róttækari, einnig frjálslyndur og nokkuð grænn andkerfisflokkur. Hversu hátt þessir tveir drífa verður alltaf athyglisvert.

Horfur eru á að ein stærstu tíðindi kosninganna verði útkoma Vinstri grænna. Vinsæll forsætisráðherra virðist ekki ætla að duga til sigurs, þótt enn geti ýmislegt gerst. Þótt fólkið sé fínt og grænn sósíalismi eigi upp á pallborðið, þykir syndin stór. Var ekki sálinni fórnað fyrir völd?

Fimm

Á fimm prósent línunni skylmast flestir hinna og útlit er fyrir fjörlegar sviptingar á kosninganótt á meðal flokka sem þar berjast fyrir því að vera yfir höfuð á þingi. Til þess þarf jú fimm prósent. Sósíalistaflokkurinn virðist öruggur. Flokkurinn hefur haft ótvíræð áhrif á baráttuna þó ekki væri nema með því að minna gömlu vinstri flokkanna á uppruna sinn, kannski mestmegnis með þeirri afleiðingu að Vinstri græn eru nú toguð til tveggja átta, til hægri af núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og til vinstri af Sósíalistum, sem sækja á fylgið eins og fúlskeggjaðar Allaballaafturgöngur. Því hærra auðvitað sem Sósialistar ná, því stærri sigur, en ekki síður yrði það athyglisvert hliðarafrek ef Flokki fólksins tækist við þessar kringumstæður að tolla inni. Gaman væri auðvitað að sjá þá Tomma í Tommahamborgurum og Jakob Frímann í sölum Alþingis, í þágu fjölbreytninnar. Ég hefði fyrir mitt leyti gaman af því að heyra Jakob segja í pontu þau víðfrægu orð: „Ég er sammála því.“

Það jafnast ekkert á við jazz.

Svo eru eftir flokkar sem eiga minna erindi.