Það var margt sem breyttist þegar ég varð háður því að nota hjólastól. Jafnvel einföldustu hlutir í hversdagslífinu urðu allt í einu að meiri háttar verkefnum.
Þannig er það til dæmis með salernisferðirnar. Nú er vissara að gæta að því, hvert sem ég fer, hvort þar sé salerni fyrir hreyfihamlaða. Og björninn er ekki endilega unninn þótt svo sé, því allt of oft virðist það gleymast, að snyrtingin sé þannig að notandi í hjólastól geti í raun vandræðalaust notað hana hjálparlaust. Þar má til dæmis nefna aðkomuna. Yfirleitt opnast dyrnar að slíkum snyrtingum út þannig að meira athafnarými verði innra fyrir. En þetta leiðir til þess að fjarlægðin í hurðarhúninn verður það mikil, að mér er allsendis ómögulegt að loka dyrunum á eftir mér. Það er með öðrum orðum eins og ráð sé fyrir því gert, að þegar ég settist í hjólastólinn þá hafi mér allt í einu vaxið þriggja metra handleggur! En svo er því miður ekki.
Því upphefst nú mikið baks við það að snúa stólnum við, teygja mig í húninn, bakka síðan inn og reyna að draga hurðina á eftir mér. Stundum heppnast baráttan, en oft gefst maður upp og neyðist þá til að kalla á aðstoð ef hana er að fá. Úr þessu vandamáli má þó bæta einfaldlega með því að skrúfa handfang á innanverða hurðina, þannig að mögulegt sé að draga hana á eftir sér um leið og farið er inn. Slík handföng fást í öllum byggingarvöruverslunum og kosta lítið. Aðgerð til að lengja á mér handlegginn yrði íslenska heilbrigðiskerfinu hins vegar býsna dýr. Það er mér því hulin ráðgáta af hverju slík handföng vantar á yfir 90% allra snyrtinga fyrir fatlaða.