Réttur mánuður er í dag þar til lands­­menn ganga að kjör­­borðinu og velja sér full­­trúa á Al­þingi. Og enda þótt mánuður kunni að vera langur tími í pólitík er ekki við öðru að búast en að næstu fjórar vikur líði hratt í lof­orða­glamri og lúðra­blæstri.

En látum það vera. Niður­­­staða kosninganna skiptir meira máli. Og hún hefur sjaldan eða aldrei verið jafn ó­­­fyrir­­­séð. Veldur þar miklu sá fjöldi flokka sem á mögu­­leika á að koma full­­trúum sínum á þing, en það dregur heldur ekki úr ó­­vissunni að fleiri en einn þeirra mun hugsan­­lega ekki ná inn manni.

Staðan eftir kosningarnar verður flókin. Það er nokkurn veginn aug­­ljóst, meira að segja þótt nú­verandi ríkis­­stjórnar­­flokkar haldi þing­­styrk sínum og geti fyrir vikið haldið á­­fram sam­­starfi sínu. Það er nefni­­lega ekkert gefið í þeim efnum.

Bak­land Vinstri grænna er ó­­á­­nægt með sam­­starfið með Sjálf­­stæðis­­flokknum. Það er í sjálfu sér eðli­­legt, enda til­­heyra flokkarnir hvorum endanum á pólitíska lit­rófinu. Og þessar tvær fylkingar eru vanari því að upp­­­nefna hvor aðra og út­hrópa en að vinna saman í sátt.

Því hefur verið haldið fram að Katrín Jakobs­dóttir, for­­maður VG, sem leitt hefur þessa ó­­­venju­­legu stjórn í gegnum þoku­­móðu far­­sóttar, sé í pólitískri kjör­­stöðu. Hún ráði því hvaða flokkar verði í næstu stjórn, geti hæg­­lega myndað ein­hvers konar vinstri­­stjórn með Sam­­fylkingu, Pírötum og jafn­vel Sósíal­ista­­flokknum, þótt Fram­­sóknar­­flokkurinn sé raunar lík­­legri í því sam­­starfi. En hún geti einnig hundsað þessa flokka og hallað sér aftur að í­haldinu.

Í öllu falli ráði Katrín miklu, jafn­vel mestu, um það hvort næsta stjórn verði á­­fram sú sama og verið hefur eða að ein­hvers konar vinstri­­stjórn verði mynduð.

Í þessum vanga­veltum gleymist þriðji kosturinn, en það er ríkis­­stjórn Sigurðar Inga Jóhanns­­sonar. Hann er sá formanna ríkis­­stjórnar­­flokkanna sem hefur lík­­lega hæstu spilin á hendi, án þess þó að því hafi verið nokkur gaumur gefinn.

Sigurður Ingi er í lykil­­stöðu til að mynda miðju­­stjórn.

Sigurður Ingi er í lykil­­stöðu til að mynda miðju­­stjórn. Hann er í bíl­­stjóra­­sætinu og þarf ekki annað en að blikka for­­menn Sam­­fylkingar, Við­reisnar og Pírata svo þeir stökkvi um borð í Fram­­sóknar­rútuna. Fyrir hann per­­sónu­­lega væri það pólitískur stór­­sigur að setjast í for­­sætis­ráðu­neytið á þessum tíma þegar flokkur hans hefur náð vopnum sínum aftur eftir klofninginn fyrir tæpum fjórum árum.

Nú er hans mögu­­leiki að leiða stjórn. Sá mögu­­leiki kemur mjög lík­­lega ekki aftur. Og það vegur þungt eftir mánuð.