Við undirritaðar skorum á borgarráð að hafna breytingum á opnunartíma leikskóla sem samþykktar hafa verið í skóla- og frístundaráði. Sú stefna Reykjavíkurborgar að leggja áherslu á aukinn hlut almenningssamgangna og annarra vistvænna ferðamáta hefur varla farið framhjá mörgum Reykvíkingum. Þessar áherslur birtast í umhverfis- og auðlindastefnu borgarinnar, loftslags- og loftgæðastefnu, samgöngustefnu, Staðardagskrá 21, hjólaborginni Reykjavík, Grænum skrefum Reykjavíkurborgar og liggja eins og rauður þráður í gegnum aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Í aðalskipulagi er sett fram það skýra markmið að notkun einkabílsins dragist saman þannig að hlutdeild bílferða af öllum ferðum lækki úr 75% árið 2011 í 58% árið 2030.

Það skýtur því vægast sagt skökku við að nú árið 2020, þegar tímabil aðalskipulagsins er hálfnað, skuli meirihluti borgarstjórnar taka þá ákvörðun að frá og með 1. apríl skuli reykvískum leikskólum lokað kl. 16:30 á daginn. Ekki virðist hafa verið lagt mat á áhrifin á umferðarmenningu í borginni af því að stefna foreldrum allra leikskólabarna út í umferðina á sama hálftímanum á hverjum degi. Það gefur auga leið að margir foreldrar sem hingað til hafa komist af án þess að nota einkabíl til að sækja börnin munu ekki lengur eiga þess kost. Ef foreldrar hafa minni tíma til að koma öllum á sína staði munu þeir í einhverjum tilfellum ekki eiga annars kost en að keyra frekar en að ganga, hjóla eða taka strætó. Það er einnig erfitt að ímynda sér hvernig hægt sé að ná því í einni ferð að keyra makann sinn í vinnuna, eitt barn á leikskólann og annað í grunnskóla, skila sínum átta klukkustunda vinnudegi og ná svo að sækja alla aftur á innan við níu klukkustundum. Það einfaldlega gengur ekki alltaf upp og því hljóta sumar fjölskyldur að finna sig knúnar til að bæta við bíl á heimilið eða fjölga bílferðum með því að keyra fram og til baka til að sinna þessu öllu. Það er nauðsynlegt að áreiðanlegar upplýsingar um þessi áhrif liggi fyrir áður en ákveðið er að skerða þjónustu leikskólanna.

Við höfum bent á í fyrri greinum okkar að þessi þjónustuskerðing sé líkleg til að koma verr niður á konum en körlum. Hún mun einnig koma sér verr fyrir einstæða foreldra og auka enn frekar á jaðarsetningu fátækra einstæðra foreldra, fólks í láglaunastörfum með lítið eða ekkert tengslanet. Sama fólk er líklegt til að nýta sér vistvænar samgöngur til að spara peninga en getur með þessari skerðingu fundið sig þvingað til að kaupa bíl.

Formaður skóla- og frístundaráðs hefur látið hafa eftir sér að leikskólastjórnendur telji það ekki vera viðkvæmasta foreldrahópinn, t.d. einstæða foreldra, sem hafi verið að kaupa vistun milli kl. 16:30 og 17:00. Engar tölur eru til um þetta, raundvalartími barna á leikskólum hefur ekki verið kannaður nema yfir einnar viku tímabil í aðdraganda þessarar samþykktar. En sé þetta rétt mat væri borginni nær að spyrja sig hvað veldur þessu og hvort hún geti betur komið til móts við þarfir foreldra leikskólabarna fremur en að þrengja enn frekar að þeim. Það er nefnilega svo að leikskólagjöld snarhækka eftir átta klukkustunda dvöl.

Sé meirihluta borgarstjórnar alvara með allar sínar stefnur og fyrirheit um fjölbreytta, skapandi, blómstrandi, græna borg, þá væri nær að bjóða upp á miklu meiri sveigjanleika í dvalartíma á leikskólum án þess að rukka fyrir það fram úr öllu hófi og stuðla að styttingu vinnuvikunnar, umhverfinu, fjölskyldum og samfélaginu öllu til hagsbóta.

Anna Ingeborg Pétursdóttir

Edda Ýr Garðarsdóttir

Claudia Overesch

Elísabet Ýr Atladóttir

Gunnhildur Finnsdóttir

Gunnur Vilborg

Halldóra Jónasdóttir

Hildur Björk Pálsdóttir

Ingibjörg Stefánsdóttir

Margrét Inga Gísladóttir

Ósk Gunnlaugsdóttir

Sóley Tómasdóttir

Sunna Símonardóttir

Þóra Kristín Þórsdóttir