Í dag er alþjóðlegur dagur matarsóunar og vert að staldra við og velta fyrir sér: „Er ég að sóa mat?“ Svarið hjá okkur flestum er já. Sum sóun er óhjákvæmileg – önnur sannarlega ekki. Öll erum við hluti af keðju sem spillir rúmlega þriðjungi allra matvæla.

Sóunin er bæði fjárhagsleg og umhverfisleg. Við urðun á umframframleiðslu af mat myndast til dæmis metan sem er 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð. Mikilvægt að takmarka þessa sóun.

Allir geta tekið þátt í að minnka matarsóun. Einfalt ráð fyrir heimili er til dæmis að venja sig á smærri skammta á minni diskum og leggja aukna áherslu á að nýta afganga. Fara reglulega í gegnum ísskáp og matarbúr og klára öll matvæli fyrir „best fyrir“-dagsetningu.

Gott fyrir veskið – enn betra fyrir umhverfið.

Það er ekki síður á ábyrgð okkar kaupmanna að leggja okkar af mörkum. Við í Krónunni höfum unnið markvisst að því að minnka matarsóun, allt frá því að nýta gagnagreiningu til skynsamra innkaupa yfir í að selja vörur á lækkuðu verði eða gefa undir heitinu „Síðasti séns“.

Sömuleiðis er stefna okkar að minnka skammtastærðir matvæla sem við seljum og innleiða nýja tækni sem ákvarðar afslætti af ákveðnum vöruflokkum eftir því hversu stutt er eftir af líftíma vörunnar.

Áskorun til þín

Kannanir sýna að umhverfismál skora hátt hjá Íslendingum. Við í Krónunni viljum nýta tækifærið á degi matarsóunar og hvetja okkar viðskiptavini til að prófa að kaupa vörur á síðasta séns.

Ekki bara að slík kaup séu góð fyrir veskið, heldur eru þetta oftar en ekki gómsætar vörur sem annaðhvort eiga eftir stuttan líftíma eða umbúðir vörunnar hafa laskast.

Það er ekkert betra en að nýta dísæta ávexti sem virðast þreyttir að utan í þeyting eða brúna banana í bananabrauð – fyrir utan þá góðu tilfinningu sem fylgir því að bjarga matvælum frá sóun.