Rauðu dagarnir í kringum nýyfirstaðnar hátíðirnar voru glataðir. Að blanda jóladegi og öðrum inn í helgina og svo nýársdegi líka, verður að teljast ansi slöpp nýting. Það er ferlega fúlt að þurfa að halda svona örjól eða ellegar að eyða frídögum sem væri betur varið í sumarfrí. Næstu jól verða svo eiginlega bara verri hvað frídaga varðar, en svona er þetta. Gregóríska tímatalið er hverfull andskoti.

Við þurfum þó ekki að ríghalda svona í Gregóríus. Árið 1902 bar Bretinn Moses B. Cotsworth fram tillögu um nýtt dagatal, svokallað sólardagatal, sem myndi skipta árinu upp í 13 mánuði, sem væru 28 dagar hver. Þrettánda mánuðinum er troðið inn á milli júní og júlí og gaf Cotsworth honum heitið Sol, sem myndi íslenskast sem Sunna. Mikið fagnaðarefni fyrir Sunnur landsins sem gætu þá orðið mánaðarbörn, alveg eins og Júlí og Ágúst.

Í sólardagatali Cotsworth er hver dagsetning samtengd ákveðnum vikudegi og breytir aldrei til. Fjórtándi hvers mánaðar er þá alltaf laugardagur og sá tuttugasti og fjórði er alltaf á þriðjudegi. Í fyrstu virðist þetta vera algjör negla, enda gæti þetta bundið enda á dagatalslottóið sem fylgir því hvernig hátíðisdagar raðast í kringum helgarnar.

Þótt það væri ömurlegt fyrir suma að þurfa að eiga afmæli á mánudegi það sem eftir er lífsins, væri frábært að getað gengið að hátíðisdögunum vísum ár hvert. Að lenda á lélegum jólum er nefnilega miklu verra en það er gott að lenda á góðum jólum, rétt eins og það er mun verra að tapa tíu þúsund krónum heldur en það er gott að græða sömu upphæð.