Var ekki ein kenningin eitthvað á þá leið að í gangi sé viðamikið og þrautskipulagt samsæri sem snúist um að skrökva veirufaraldri að gjörvallri heimsbyggðinni til þess að geta sprautað inn í mannkynið efni sem breytir DNA í okkur, svo að við verðum öll að uppvakningum? Svo eru þeir sem telja að bólusetning sé bara pjatt og hystería og Covid ekki annað en flensa sem maður verði að harka af sér sjálfur. Að ógleymdum þeim sem þola ekki að láta segja sér fyrir verkum og líta á óhlýðni við yfirvöld sem dyggð í sjálfu sér, nokkurs konar markmið í lífinu, og telja það til marks um einstaklingshyggju og sjálfstæða hugsun að efast um vísindalegar niðurstöður.

Svara sönnunum og jöfnum og tölum með þvermóðskulegri axlayppingu: „Nei, mér finnst það ekki.“

Staðreyndir og valreyndir

Ýmsar ástæður eru sem sagt fyrir því að fólk vill ekki þiggja bólusetningu sem styrkir varnir þess gagnvart Covid – en rauði þráðurinn er vantraust. Þetta er fólk sem treystir ekki vísindalegri þekkingu eins og hún er fengin með hefðbundnum leiðum. Það treystir ekki hefðbundnum fjölmiðlum sem flytja fréttir sem aflað er og miðlað með þrautreyndum aðferðum sem þróast hafa í opnum samfélögum. Það treystir ekki hefðbundnum stjórnmálamönnum sem miða ákvarðanir sínar og orð við þekkingu sem aflað er hjá þar til gerðum stofnunum samfélagsins. Það treystir ekki sérfræðingum. Það treystir ekki háskólamenntun eða rannsóknarstofum. Það treystir ekki Kerfinu. Það treystir ekki Elítunni. Þetta er fólk sem afneitar staðreyndum en setur traust sitt á valreyndir.

Þrettándinn var dagur þessa fólks. Í gær var ár síðan valreynda­sinnar réðust inn í Þinghúsið í Washington, og sýndu þar styrk sinn og veikleika – um leið og opinberaðist veikleiki lýðræðisins og styrkur. Litlar sem engar varnir voru við þinghúsið, enda mótmælendur ekki að mótmæla lögregluofbeldi gegn svörtu fólki. Það var létt verk fyrir Trumpherinn að ráðast inn í þinghúsið og leggja það undir sig, en þegar inn var komið voru viðkomandi eins og glópar og vissu eiginlega ekki hvað þeir ættu til bragðs að taka, ráfuðu um, svældu gras, settu fætur upp á borð þingmanna, rótuðu í dóti og töluðu digurbarkalega. Hætt er við að næst þegar Trump leggur til atlögu við lýðræðið verði árásin betur skipulögð.

Frjálsar félagsverur

Nú stöndum við frammi fyrir öðrum vanda af völdum valreynda­sinna: hversu mjög eigum við að láta þá stjórna lífi okkar allra: á að miða allt samfélagið við þarfir þeirra sem neita að láta bólusetja sig? Komi það í ljós með óyggjandi hætti – sem flest bendir til – að þríbólusett fólk fái miklu vægari útgáfu af Covid, ef það veikist á annað borð – eigum við þá að halda áfram að taka tillit til þess sem fullgilds sjónarmiðs að vilja ekki bólusetningu? Þetta er ekki einfalt úrlausnarefni, siðferðilega og samfélagslega.

Við fæðumst með tiltekin réttindi, en við fæðumst ekki óháð öðrum mönnum. Fyrstu árin erum við háð umönnun og æ síðan erum við í margvíslegum og misflóknum tengslum við annað fólk; enginn er eyland. Meðal þeirra réttinda sem við höfum frá fæðingu er ferðafrelsi og tjáningarfrelsi, réttur til að vinna, menntast, skapa, semja um kaup og kjör, bindast samtökum, elska og elskast í samræmi við kynhneigð okkar – og þannig mætti áfram telja.

Við fæðumst sem frjálsar félagsverur. Þetta getur rekist á og þarna getur verið togstreita, og það er eitt helsta úrlausnarefni stjórnmálanna að leita jafnvægis þarna á milli; finna meðalhófið sem ævinlega þarf að virða við setningu á lögum og reglum, og er ein mikilvægasta regla stjórnmálanna: að ekki sé gengið of nærri frelsi fólks, en líka að athafnir borganna skerði ekki réttindi samborgaranna, ógni ekki öryggi og afkomu annarra.

Réttindin eru alltaf í fyrirrúmi. Við höfum þau en við vissar kringumstæður skerðast þau. Til dæmis þegar kemur upp veirufaraldur sem getur dregið fólk til dauða og valdið neyðarástandi á spítölum, með tilheyrandi afleiðingum fyrir aðra sjúklinga. Við göngumst flest fúslega undir takmarkanir á ferðum okkar vegna faraldursins til að vernda okkur sjálf og okkar nánustu – en um leið og þær forsendur eru ekki lengur fyrir hendi, um leið og dregur úr smithættu, og við eigum ekki á hættu að veikjast lífshættulega – þá fáum við væntanlega þessi ásköpuðu réttindi sjálfkrafa aftur. Hin, sem ekki uppfylla þau skilyrði sem þarf til að teljast úr hættu – þau óbólusettu – þau geta hins vegar ekki reiknað sjálfkrafa með því að fá öll þessi sömu réttindi til baka. Forsendurnar vantar. Við slíkar kringumstæður er eðlilegt að leyfa listviðburði og önnur mannamót, svo fremi fólk geti framvísað bólusetningarvottorði – eða að minnsta kosti einhverju öðru en kenningum um stórfellt samsæri til að breyta DNA í okkur.