Það er eitthvað stórkostlegt við þá staðreynd að akkúrat núna er geimjeppi með hið mjög svo bandaríska nafn Þrautseigja staddur á Mars. En eitthvað svo óáhugavert líka. Þessi dularfulla pláneta var lengi vel uppspretta alls konar vangaveltna um hvort þar væri líf, eins og Bowie söng um og jafnvel væri yfirvofandi innrás vel skipulagðra drápstóla sem ætluðu sér að eyða mannkyninu.

Geimurinn var heillandi ráðgáta. Þegar ég var unglingur var algengt að lesa frásagnir af fólki sem hafði verið brottnumið af geimverum. Eða sjá í fjölmiðlum dökka ljósmynd með hvítum punkti, sem var (augljóslega) fljúgandi furðuhlutur sem einhver tortrygginn útlaginn hafði fest á filmu en stjórnvöld vildu ekki að við vissum af. Núna eru engar eyður til að geta í. Maður opnar bara símann og fylgist með Þrautseigju tvíta myndum frá Mars. Fyrir fólk með þriggja sekúndna athyglisþol var þetta áreynsla. Grjót og möl, gígar og hólar eins langt og augað eygir. Minnti helst á íslenska hálendið, maður bjóst eiginlega við því að sjá Guðmund umhverfisráðherra friðlýsa þessi víðerni og kannski einn Miðflokksmann að andmæla.

Tölfræðin hefur drepið alla rómantík og spennu í tengslum við geiminn. Nú er búið að reikna út hvar lífvænlegar plánetur er að finna. Í kvikmyndum berst mannkynið við geimverurnar og sigrar í blálokin þökk sé hetjudáð aðalsöguhetjunnar. Við munum sennilega bara reikna okkur niður á hvar geimverurnar eru staddar. Sendum kannski geimjeppa þangað einhvern tíma og fylgjumst með honum tvíta um einhverja fjölfrumunga ofan í malarhrúgu. Ágætt svo sem. En ekkert á við áhrifavald að fá sér bröns.