Kórónaveirufaraldurinn hefur sýnt okkur hvernig yfirvöld á Norðurlöndum hafa brugðist við með mismunandi hætti. Samanburður á viðbrögðum landanna við kreppunni af völdum faraldursins, gæti auðveldað yfirvöldum að taka upplýstar og hnitmiðaðar ákvarðanir þegar næsti heimsfaraldur gýs upp.

Norrænt samstarf

Norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu í ágúst 2019 nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf. Samkvæmt henni eiga Norðurlöndin að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.

Þegar framtíðarsýnin var kynnt þótti mörgum hún full metnaðarlaus, þar sem samþættingin væri þegar staðreynd á Norðurlöndum. Allt frá árinu 1954 höfum við getað ferðast frjálst milli landanna án þess að framvísa vegabréfi og við höfum búið við frjálsan vinnumarkað. Á landamærasvæðum fer fjöldi fólks daglega á milli landa á leið í og úr vinnu. Eða þar til COVID-19 faraldurinn gaus upp. Þá var landamærum lokað og löndin mótuðu hvert sína stefnu til að bregðast við vandanum. Faraldurinn rak fleyg milli landanna, sem enginn hafði séð fyrir.

Hvað hefur kreppan kennt okkur fram að þessu?

Þrátt fyrir að lengi hafi verið búist við heimsfaraldri var ekkert Norðurlandanna (eða nokkurt annað land í heiminum) nægilega viðbúið því hvernig bregðast ætti við heimsfaraldri. Kórónaveiran breiddist út á ógnarhraða og barst til „allra“ landa samtímis. Faraldurinn olli kreppu sem bitnað hefur á öllum sviðum samfélagsins. Við höfum einnig lært að þörf er á viðamiklu alþjóðasamstarfi til þess að draga úr áhrifum kreppunnar og taka á þeim. Mikilvægasta lexían er líklega sú að við verðum að hugsa upp á nýtt um viðbúnað okkar við heimsfaraldri og undirbúa okkur betur fyrir þann næsta.

Norðurlöndin eru tiltölulega fámenn og hver þjóð fyrir sig býr yfir takmarkaðri færni og afkastagetu til að bregðast við heimsfaraldri. Ef Norðurlöndin eiga samstarf um viðbúnað við heimsfaraldri, verða þau öll mun betur undirbúin því sem að höndum ber. Þjóðirnar gætu hjálpast að í viðbrögðum við erfiðleikunum og auðveldara yrði að takmarka neikvæðar afleiðingar heimsfaraldursins fyrir samfélög okkar.

Þörf á aukinni þekkingu, byggðri á rannsóknum

Til þess að efla viðbúnað gegn heimsfaraldri í framtíðinni, verðum við að bæta þekkingargrundvöll um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig taka ber á heilbrigðiskreppunni sjálfri, en einnig afleiðingum hennar fyrir aðra mikilvæga samfélagsþjónustu. Þess vegna verða hafnar rannsóknir í löndunum um aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins og afleiðingar hans. Rannsóknirnar geta veitt okkur mikilvæga þekkingu, vegna þess að þær felast einnig í samanburði á viðbrögðum við COVID-19 og afleiðingum faraldursins í löndunum.

Norræna rannsóknaráðið er stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, og mun í samstarfi við fjármögnunaraðila rannsókna í löndunum geta greitt fyrir norrænu rannsóknasamstarfi um COVID-19.

Heilsa

Á öllum Norðurlöndunum er að finna heilbrigðisskrár með upplýsingum um tíðni, útbreiðslu, meðhöndlun og afleiðingar COVID-19 faraldursins. Með samstarfi um notkun gagna milli landa, mætti fá mun fleiri gagnasett að vinna með og hægt yrði að bera saman hvernig sjúkdómurinn gaus upp í löndunum. Á þann hátt mætti öðlast meiri vitneskju um árangur mismunandi nálgunar og stefnu sem löndin hafa tekið, í þeim tilgangi að fyrirbyggja og hefta útbreiðslu COVID-19 smitsins, veita sjúklingum meðferð og fylgja þeim eftir. Þá fengist yfirgripsmikil þekking sem heilbrigðisyfirvöld gætu nýtt í viðbúnaði fyrir næsta heimsfaraldur. Norræna rannsóknaráðið hefur tvisvar sinnum auglýst styrki til um umsóknar í heilbrigðismálum vegna COVID-19 og við erum reiðubúin að auglýsa fleiri styrki til rannsókna, einnig á öðrum þáttum COVID-19 heimsfaraldursins.

Skólar og menntun

Þegar heimsfaraldurinn braust út brugðust Danmörk, Finnland og Noregur fljótt við með því að loka öllum skólum og koma á heimanámi. Lítið var vitað hvaða áhrif þessar ráðstafanir hefðu á nám barna, heilsu þeirra og velferð. Þá lá heldur ekki fyrir mikil þekking um hvernig kennarar gætu boðið upp á góða kennslu og fylgt hverjum nemanda eftir. Ætla má að svipaðar aðgerðir verði íhugaðar í framtíðinni þegar heimsfaraldrar steðja að. Nú gefst okkur tækifæri til að gera samanburðarrannsóknir á Norðurlöndum, sem gera skólayfirvöld betur í stakk búin til að taka upplýstar ákvarðanir um aðgerðir, strax í upphafi nýs heimsfaraldurs.

Viðbrögð yfirvalda

COVID-19 faraldurinn hefur sýnt okkur að yfirvöld Norðurlandanna hafa tekið sér ólík hlutverk og brugðist við á mismunandi hátt. Með því að rannsaka og bera saman ólík viðbrögð landanna við sömu kreppu, er hægt að gera yfirvöldum auðveldara að taka upplýstar og markvissar ákvarðanir þegar næsta kreppa ríður yfir. Heimsfaraldurinn hefur sýnt okkur hvað vönduð samskipti og upplýsingagjöf eru mikilvæg. Með því að rannsaka og bera saman það sem er líkt og ólíkt í samskiptastefnu landanna á meðan á COVID-19 faraldrinum stendur, öðlumst við þekkingu sem nýtist þegar þróa á samskiptastefnu í alvarlegum kreppum.

Hvað varðar COVID-19 faraldurinn þá hafa yfirvöld þurft að íhuga hvort vegi meira, að tryggja líf og heilsu fólks eða tryggja störf, efnahagslíf, menntun, íþróttir, menningarlíf og þar fram eftir götunum. Þetta hefur verið eldraun fyrir yfirvöld sem hafa þurft að bregðast skjótt við flóknum og erfiðum spurningum. Með því að rannsaka þessa togstreitu sem myndast milli ólíkra sjónarmiða og hagsmuna og bera saman ákvörðunarferlið í löndunum, ekki síst að skoða siðferðislegar vangaveltur sem haft hafa áhrif á val ráðamanna, fæst þekking sem auðveldar yfirvöldum að íhuga afleiðingar vandlega, þegar næsta kreppa knýr að dyrum.