Ferðaþjónusta á Íslandi er takmörkuð auðlind. Við könnumst við ofbeit og ofveiði og nú hefur oftúrismi sprottið fram á sjónarsviðið. Vegna COVID-kreppunnar höfum við starfsfólk við ferðaþjónustu nægan tíma til að huga að framtíðinni. Við fáum nú tækifæri til að endurskoða síðasta áratuginn eða svo með tilliti til þolmarka ferðaþjónustu. Viljum við virkilega fara sömu leið og áður? Hvað sjálfan mig varðar, þá svara ég neitandi. Þrátt fyrir að ég hafi haft lifibrauð af ferðaþjónustu stóran hluta ævinnar þá þótti mér nóg komið. Þessi mikli fjöldi erlendra ferðamanna er ekki neinum til góðs, hvorki Íslendingum né ferðamönnunum sjálfum.

Tölurnar tala sínu máli. 2010 var fjöldi erlendra ferðamanna um hálf milljón. Árið 2015 var fjöldinn um 1,4 milljónir. Árið 2018 var hann kominn í um 2,5 milljónir. Árið eftir fækkaði gestunum um 300.000 og ég fann að álagið á land og þjóð minnkaði. Þrátt fyrir lakari afkomu hjá mínu eigin fyrirtæki þá fannst mér það af hinu góða á heildina litið. Það er nefnilega ekki vænlegt þegar bæði landsmenn og erlendir ferðamenn kvarta undan ágangi og fjölda ferðamanna. Viljum við stjórnlaust streymi erlendra ferðamanna um landið? Viljum við svo hraða fjölgun ferðamanna að hrikti í innviðum landsins? Viljum við svo ströng lög sett vegna fjölda og ágangs erlendra ferðamanna að ferðafrelsi okkar sjálfra er skert?

Nú höfum við tíma og tækifæri til að byggja upp heilbrigða ferðaþjónustu þar sem tekið væri bæði tillit til landsins gæða og ekki síst til heimafólks. Við ættum kannski beita ítölu inn í landið og inn á ákveðin landsvæði. Með því að stýra komum skemmtiferðaskipa í hafnir, takmarka heildarfjölda erlendra ferðamanna á hverjum tíma á Íslandi og á hverju landsvæði á hverjum tíma þá getum við rekið ferðaþjónustu í sátt við land og þjóð. Á sama tíma þarf að bæta innviði ferðaþjónustunnar, þá ekki síst hvað varðar vegi, salerni og bílastæði. Stefna stjórnvalda virðist vera að takmarka aðgengi akandi vegfarenda um hálendið, með „umhverfisvernd“ að markmiði. Ferðaþjónusta og umhverfisvernd eru þó ekki endilega andstæður og hægt er að þróa bæði í einu ef sjálfbærni er höfð í fyrirrúmi. Sjálfbær ferðaþjónusta getur bæði stuðlað að verndun íslenskrar náttúru og gert íslenskri ferðaþjónustu kleift að byggjast upp af framsýni. Því ef ferðaþjónusta á að vera arðbær, þá verður hún líka að vera sjálfbær.

Það á að teljast sjálfsagður réttur Íslendinga að geta ferðast um landið sitt, sama hvernig ferðast er. Ferðamátinn hefur breyst í aldanna rás en frelsisþráin ekki. Okkur ber að vernda og varðveita ferðaleiðir og fjölbreyttan ferðamáta, þessa séríslensku ferðamenningu með því að viðhalda henni. Við eigum að setja skynsamlegar takmarkanir á fjölda ferðamanna en við eigum ekki að setja hömlur á ferðafrelsi Íslendinga í nafni umhverfisverndar. Ísland er okkar dýrasta djásn og okkur á ekki að líða sem við séum óvelkomin í eigin landi. Náttúran er okkar mikilvægasta vörumerki og við verðum að varðveita hana, nýta og njóta af skynsemi. Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og stjórnvöld eru markvisst að má hálendisvegi af kortum í nafni umhverfisverndar þá leyfa þau virkjanir og og uppistöðulón og raflínur sem setja ný ör á landslagið.

Þetta er þröngur stígur sem við þurfum að feta. Að hóflegur fjöldi erlendra ferðamanna komi hingað til lands. Að tryggja ferðafrelsi Íslendinga. Að ekki aðeins ferðaþjónustufyrirtæki í landinu séu lífvænleg, heldur einnig að lífvænlegt sé fyrir Íslendinga á Íslandi.