Móðir mín er haldin sterkri trú og vissu um að þegar flutt er inn í nýtt hús­næði þá megi að­eins flytja inn á laugar­degi. Viska þessi á sér upp­runa úr ís­lenskum þjóð­sögum, sem sjaldnast hafa þótt boða nokkuð gott. Öllu verra er að sann­færing móður minnar í þessum efnum er svo sterk að hún nær ekki að­eins til hennar heldur einnig barna og barna­barna. Ef fyrir dyrum standa flutningar hjá ein­hverjum af­kom­enda hennar má ganga að því sem vísu að hún mæti og ræði mikil­vægi þess að flutt sé inn á réttum degi. Ég veit fyrir víst að hún ræddi þetta við dóttur mína áður en hún flutti til út­landa síðast­liðið haust til að koma í veg fyrir mögu­legar hörmungar.

Arf­leifð þessara þjóð­sagna hefur leitt til þess að ég hef þurft að flytja inn í hálf­málað hús og seinkað flutningum. Sam­kvæmt mömmu liggur lífs­hamingjan í því að laugar­dagar séu til lukku. Aldrei megi til dæmis flytja inn ein­hvern af fyrstu þrem virkum dögum vikunnar. Mánu­dagar séu til mæðu. Þriðju­dagar til þrautar og mið­viku­dagar til moldar. Eitt mega þjóð­sögurnar samt eiga, dagarnir fara batnandi því nær sem dregur helginni.

Ég hef stundum reynt að mót­mæla þessu við mömmu og bent henni á að sam­kvæmt sömu fræðum séu föstu­dagar til fjár, og þar sem ég vilji gjarnan græða væri kannski betra að flytja inn á föstu­degi. Þá kemur alltaf sama sagan. For­eldrar mínir sváfu á dýnum á gólfinu í fyrstu íbúð þeirra til þess eins að vera viss um að fyrsta nóttin bæri upp á laugar­dag. Því beri mér að gera það líka og hlýða mömmu rétt eins og hún hlýddi sinni. Við slíkum rökum á ég engin svör og panta bíl á laugar­daginn.