Móðir mín er haldin sterkri trú og vissu um að þegar flutt er inn í nýtt húsnæði þá megi aðeins flytja inn á laugardegi. Viska þessi á sér uppruna úr íslenskum þjóðsögum, sem sjaldnast hafa þótt boða nokkuð gott. Öllu verra er að sannfæring móður minnar í þessum efnum er svo sterk að hún nær ekki aðeins til hennar heldur einnig barna og barnabarna. Ef fyrir dyrum standa flutningar hjá einhverjum afkomenda hennar má ganga að því sem vísu að hún mæti og ræði mikilvægi þess að flutt sé inn á réttum degi. Ég veit fyrir víst að hún ræddi þetta við dóttur mína áður en hún flutti til útlanda síðastliðið haust til að koma í veg fyrir mögulegar hörmungar.
Arfleifð þessara þjóðsagna hefur leitt til þess að ég hef þurft að flytja inn í hálfmálað hús og seinkað flutningum. Samkvæmt mömmu liggur lífshamingjan í því að laugardagar séu til lukku. Aldrei megi til dæmis flytja inn einhvern af fyrstu þrem virkum dögum vikunnar. Mánudagar séu til mæðu. Þriðjudagar til þrautar og miðvikudagar til moldar. Eitt mega þjóðsögurnar samt eiga, dagarnir fara batnandi því nær sem dregur helginni.
Ég hef stundum reynt að mótmæla þessu við mömmu og bent henni á að samkvæmt sömu fræðum séu föstudagar til fjár, og þar sem ég vilji gjarnan græða væri kannski betra að flytja inn á föstudegi. Þá kemur alltaf sama sagan. Foreldrar mínir sváfu á dýnum á gólfinu í fyrstu íbúð þeirra til þess eins að vera viss um að fyrsta nóttin bæri upp á laugardag. Því beri mér að gera það líka og hlýða mömmu rétt eins og hún hlýddi sinni. Við slíkum rökum á ég engin svör og panta bíl á laugardaginn.