Fyrir rétt rúmum hundrað árum reis Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu. Það var þá. Nú má segja að faglegt starf íþróttahreyfingarinnar og gífurleg þátttaka sé orðið eitt af menningareinkennum okkar sem þjóðar. Okkur hefur auðnast að stíga svo kröftug skref í forvörnum með faglegu starfi að eftir er tekið. Til okkar er nú leitað sem fyrirmyndar.

Allt árið fara fjölskyldur um landið og eiga saman góðar samverustundir á íþróttaviðburðum. Reyndir, menntaðir og góðir þjálfarar eru til staðar. Með aukinni þátttöku og auknum kröfum hefur verið mikil þörf á að öll aðstaða batni. Nú verður staðið við stóru orðin. Saman stöndum við að því tímabæra verkefni að landsliðin í innanhússíþróttum, frjálsíþróttum og knattspyrnu fái leikvanga sem sæma starfi og umgjörð, nýja þjóðarleikvanga.

Þau mannvirki sem við reisum í Laugardal endurspegla íþróttamenninguna enn betur. Þjóðarhöll í innanhússíþróttum mun fyrst rísa, en á eftir fylgir aukin og betri aðstaða fyrir frjálsíþróttir og knattspyrnu. Það mun verða kraftur í undirbúningi og framkvæmdum allra þessara verkefna. Ríki og borg hafa lofað orku, vilja og dugnaði. Þjóðin fagnar, enda verkefnin tímabær.

Ótal mál eru þó óleyst, þannig er það alltaf. Eitt þeirra er að tryggja að heimafólkið, börn og unglingar úr Stór-Laugardalshverfinu, fái alltaf nauðsynlegan aðgang að mannvirkjum þannig að gott starf hverfisfélaganna rofni aldrei.

Mikilvægt er að nýting mannvirkja sé með sem bestum hætti. Tryggja þarf aðgengi að öllum mannvirkjum í Laugardal. Það gildir líka um núverandi frjálsíþróttahöll. Það fer ekki saman að loka íþróttamannvirkjunum í langan tíma vegna vörusýninga, að henda iðkendum út á gaddinn um leið og einhver býðst til að borga betur. Á þessu verður að finna lausnir til framtíðar, röskunin er of mikil.

Á næstu misserum þurfum við öll áfram að setja hagsmuni barna og unglinga í íþróttum í fyrsta sæti. Mannvirkin í Laugardal þurfa að nýtast öllum, þannig byggjum við upp nýtt þjóðmenningarþorp í Laugardal. Þannig mun þjóðin njóta best.