Rétt eftir hrun þegar áætlanir um nýjan Landsspítala komust til framkvæmda kom á óvart að ekki væri gert ráð fyrir nýju húsnæði fyrir geðdeildir Landspítalans. Nú er bygging nýs spítala stendur yfir er orðið ljóst að breytingar á geðþjónustu verða þó þær að bráðamóttaka spítalans verður sameiginleg sem þýðir að öll þörf fyrir aðstoð vegna ójafnvægis fær þjónustu undir sama þaki. Á tímum tíðrar „aðskilnaðarumræðu“ í samfélaginu er það mikið fagnaðarefni en mun án efa krefjast aðlögunar og þar með umburðarlyndis og skilnings.

Þann 7. júlí sl. birtu tveir ágætir geðlæknar áeggjan í Fréttablaðinu til stjórnvalda um þörf þjóðarinnar fyrir nýrri geðdeild/um. Veit ég að fleiri eru sömu skoðunar og taka undir. Vil ég sem formaður Geðhjálpar taka heilshugar undir með læknunum og öðrum sem e.t.v. eiga eftir að ýta á stjórnvöld um sama mál. Ég vil hins vegar bæta við hvað viðvíkur útfærslu þeirrar hugmyndar og ræða þann þátt sem of sjaldan er ræddur en skiptir grundvallarmáli og öll framkvæmd þjónustunnar byggir á, hugmyndafræðina.

Í síðasta mánuði kom út 300 blaðsíðna skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), „leiðarvísir um hvernig best er fyrir þjóðir að þróa samfélagsgeðþjónustu. Í dag má í megindráttum skipta þjónustu hins opinbera við fólk sem býr við vanlíðan og mögulegt frávik frá því sem eðlilegt er í lundarfari í tvennt. Annars vegar þjónustu sem innt er af hendi innan lokaðra spítala eða stofnanna og hins vegar þjónustu sem staðsett er í nærsamfélaginu og er markvisst ætlað að byggja bata/framfarir fólks á virkni þess sjálfs og þeim þáttum sem ákvarðast á frelsi til ákvarðana.

Í þessari tímamótaskýrslu frá WHO minnist stofnunin í fyrsta skipti á mikilvægi þess að hverfa markvisst frá því að einblína eingöngu á greiningar, geðlyf og þess að draga úr einkennum sem að margra mati hefur leitt til ofgreininga sem kunni að þrengja að mannlegri upplifun með þeim hætti að leitt geti til takmarkaðrar viðurkenningar á mannlegri fjölbreytni. Orð litháenska geðlæknisins og fyrrverandi talsmanns Sameinuðu Þjóðanna í mannréttindum, Dainiusar Puras endurspegla stöðuna ágætlega: „Geðheilbrigði heldur áfram að verða fyrir barðinu á of mikilli sjúkdómsvæðingu og hið smættandi líflæknisfræðilega líkan, stutt af geðlæknisfræðinni og lyfjaiðnaðinum, er ráðandi við klíníska meðhöndlun, í stefnumótun, rannsóknaráætlunum, menntun lækna og fjárveitingum til geðheilbrigðismála um heim allan.“

Ein af áherslum skýrslunnar er að horfa meira til áhrifaþátta geðheilsu s.s. ofbeldis, mismununar, fátæktar, útilokunar, einangrunar, starfsóöryggis og atvinnuleysis. Með öðrum orðum, í anda áfallatengdrar nálgunar, að spyrja frekar „hvað kom fyrir þig“ frekar en „hvað er að þér“.

Í skýrslunni eru líka rædd mannréttindi, þvinganir og nauðung, stef sem okkur innan þjónustunnar eru kunnug hér á landi. Eitthvað sem við hjá Geðhjálp höfum eindregið lagst gegn og stöndum fast á því að „Þvingunarlaus Ísland“ er mögulegt tilraunaverkefni sem gæti endurspeglað mennsku okkar og vakið alþjóðlega athygli. Við viljum ekki einungis að þjónustan innan allra hennar þriggja stiga sé laus við þvingun og nauðung heldur einnig án refsinga. Sú refsimenning sem við fáum, því miður, of margar sögur af innan Landspítala er eitthvað sem stofnuninni bera að uppræta strax. Að fólki sem þar leitar sér þjónustu og leggst sjálfviljugt inn sé refsað fyrir t.d. að ganga út úr viðtali með því að taka af því tóbak eða banna því að fara út er eitthvað sem á sér engan stað í lögum og verður að linna.

Það er afar mikilvægt að þroskuð umræða fari fram í undanfara byggingar nýs húsnæðis fyrir þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu á þeim forsendum m.a. að við ræðum jafnvægi milli þjónustu innan spítala og samfélagsgeðþjónustu. Þar þarf samfélagsþjónustan aukið vægi og nauðsynleg þjónusta innan spítala þarf allt annað umhverfi en nú er eins og geðlæknarnir segja en það sem ekki er nefnt í þeirra grein er að endurskoðaða þarf alla hugmyndafræði geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og þar hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nú þegar slegið tóninn.

Höfundur er formaður Geðhjálpar og fyrrverandi sérfræðingur geðheilbrigðissviðs Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO-EURO).