Það er virkilega ánægjulegt að hafist hefur verið handa við að byggja nýjan meðferðarkjarna Landspítala. Það er spennandi að skoða teikningar og myndir af þessu framtíðarsjúkrahúsi og umhverfi þess, þar sem áhersla er lögð á heilsueflandi og græðandi umhverfi, á dagsbirtu, útsýni og fegurð. Þar á að tryggja friðhelgi einstaklinga og huga að umhverfisvernd. Í nýjum meðferðarkjarna verða einbýli með sér salerni fyrir hvern sjúkling. Þar verður tækifæri til einkalífs og rými fyrir aðstandendur.

Það er einnig ánægjulegt að á síðustu árum var samþykkt ný heilbrigðisstefna til 30 ára ásamt aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum sem hefur verið fylgt eftir með fjármagni og uppbyggingu í þjónustu, þar sem áhersla hefur verið á uppbyggingu geðþjónustu í heilsugæslunni og samfélagsþjónustu.

Við höfum starfað sem geðlæknar á geðdeild Landspítala í mörg ár og verðum að játa mikil vonbrigði yfir því að í þessari góðu áætlun er ekkert að finna um uppbyggingu húsnæðis fyrir geðþjónustu Landspítala, hvorki legudeildir, dag- eða göngudeildir. Það er einfaldlega ekki gert ráð fyrir nýbyggingum fyrir skjólstæðinga með geðrænan vanda.

Fólk veltir kannski fyrir sér þörfinni á slíku húsnæði þar sem það finnast geðdeildir bæði á Kleppi og í geðdeildarhúsinu við Hringbraut. Geðþjónusta Landspítala hefur haft húsnæði á fimm mismunandi stöðum í Reykjavík síðustu ár. Húsin eru á mismunandi aldri en ekkert er yngra en 40 ára. Það er kannski ekki hár aldur fyrir hús en á þessum tíma hefur fleygt fram þekkingu á mikilvægi umhverfis í meðferð einstaklinga sem glíma við geðraskanir. Þá verður ekki hjá því komist að benda á að öll þau hús sem hýsa geðþjónustu Landspítala eru gömul, úr sér gengin og sum eru einfaldlega ónýt. Einnig að það er ekki lengur pláss fyrir alla þá starfsemi sem geðþjónustan rúmar. Engin áætlun er til um endurnýjun á húsakosti geðþjónustu Landspítala. Húsakosturinn eins og hann leggur sig hefur ekki fengið viðeigandi viðhald í gegnum tíðina og því fylgir ýmiss konar vandi, til dæmis snjóar inn á sjúklinga og starfsfólk í vetrarveðrum og mygla hefur greinst í sumum húsanna, nokkuð sem seint telst heilsubætandi. Þjónusta við sjúklinga hefur liðið fyrir þetta ástand. Aðstaðan í húsunum stenst engan veginn nútímakröfur. Deildirnar eru þröngar og hafa fá önnur viðverurými en herbergi sjúklinga. Í dag vitum við að umhverfið hefur mikil áhrif á okkar andlegu líðan. Við vitum líka að hreyfing er mikilvæg fyrir okkur til að viðhalda andlegri heilsu. Við gerum einfaldlega miklu meiri kröfur til húsnæðis sjúkrahúsa í dag en fyrir 40 árum að ekki sé talað um fyrir 100 árum.

Það má í raun segja að húsnæði geðdeildar við Hringbraut standi á bílastæði sjúkrahússins.

Á hverju ári leggjast að meðaltali 1.200 einstaklingar inn á geðdeildir Landspítala og sumir hverjir oftar en einu sinni. Flestir þurfa þeir að deila herbergi með ókunnugu fólki. Það finnst mörgum skiljanlega erfitt og treysta sér jafnvel ekki til þess. Deila þarf sturtu og salerni með fleira fólki (oft 4-6) með tilheyrandi smithættu en sjúkrahússýkingar eru alvarlegt vandamál á öllum spítalanum, líka á geðdeildum. Í geðdeildarhúsinu við Hringbraut er aðeins eitt sjúklingaherbergi með sér baðherbergi. Á aðeins einni deild í húsinu fá allir inniliggjandi einbýli, en þar deila tveir salerni og sturtu. Á endurhæfingargeðdeildum á Kleppi þar sem fólk dvelur að jafnaði lengur eru vissulega fleiri einbýli en þar deila allir inniliggjandi sjúklingar baðherbergi með öðrum. Aðstaða til afþreyingar er af skornum skammti, helst sjónvarp, hugsanlega handavinna eða spil. Aðstaða til útiveru er enn bágbornari og í sumum tilfellum er ekki hægt að hleypa fólki út svo dögum skiptir þar sem ekki eru örugg svæði til útiveru. Hefur geðdeildin fengið ákúrur vegna þess frá pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem telur þetta réttilega brot á mannréttindum. Við fullyrðum bæði út frá reynslu og rannsóknum að þrengri geðdeildir þar sem ekki er beint aðgengi að garði/útisvæði auka líkur á spennu, óróleika og of beldisatvikum og um leið því að sjúklingar séu í kjölfarið beittir þvingunum.

Þá má benda á að geðdeildin við Hringbraut er umkringd bílastæðum og umferðarþungum götum. Það má í raun segja að húsnæði geðdeildar við Hringbraut standi á bílastæði sjúkrahússins.

Nágrannalönd okkar hafa á undanförnum árum endurnýjað sínar geðdeildir með miklum sóma. Þar má nefna 12 ný geðsjúkrahús í Danmörku þar sem allir sjúklingar dvelja í einbýlum með sér salerni, allir komast út undir bert loft þegar þeir vilja í örugga og hlýlega garða, deildirnar eru staðsettar á jarðhæðum, bjartar og rúmgóðar með stórum íþróttasölum og góðri aðstöðu til afþreyingar.

Við förum fram á það við stjórnvöld að skjólstæðingar geðþjónustu Landspítala fái á sínum erfiðustu stundum einnig að njóta umhverfis sem er heilsueflandi og græðandi fyrir sál og líkama eins og aðrir skjólstæðingar spítalans. Að þar sé tækifæri til einkalífs, með persónulegum rýmum sem eru rúmgóð og björt. Að þar sé beint aðgengi í garð frá öllum deildum þar sem inniliggjandi sjúklingar dvelja. Að þar séu bjartar dagstofur og rými fyrir slökun og hreyfingu. Við krefjumst þess að strax verði hafist handa við undirbúning byggingar nýrrar geðdeildar.