Í seinustu viku heimsótti Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins, Taívan og kom það eflaust fáum á óvart að stjórnvöld í Peking voru ekki beint sátt við þá ákvörðun. Kínversk stjórnvöld hafa í gegnum árin mótmælt harðlega í hvert skipti sem bandarísk stjórnvöld eiga einhvers konar aðkomu að málefnum Taívan, hvort sem það er í gegnum vopnasölur eða heimsóknir leiðtoga. Þessi óheppilegi trekantur á milli þessara tveggja stórvelda og þessarar 23 milljóna manna eyju á sér langa sögu. Í þetta sinn lýstu sumir áhyggjum yfir því að kínverski alþýðuherinn myndi reyna að skjóta niður flugvél Pelosi áður en hún lenti á Songshan-flugvellinum í Taípei. Aðrir bentu á að þessi heimsókn gæti breytt afstöðu kínverskra yfirvalda gagnvart stríðinu í Úkraínu og að Kínverjar myndu færa sig úr hlutlausri stöðu yfir í það að selja jafnvel sveltandi Rússaher kínversk vopn. En í gegnum tíðina hafa skapast töluvert hættulegri deilur í Taívansundi á milli þessara „stríðandi fylkinga“ og á meðan heimurinn býr við svo mikla öryggisklemmu þessa stundina er ekki vitlaust að spyrja í fyrsta lagi af hverju er Taívan svona mikilvæg í augum Kínverja og við hverju má búast?

Sagan

Taívan var upprunalega kölluð „Formósa“ af portúgölskum landkönnuðum og í kringum 17. öld voru bæði hollenskir og spænskir kaupmenn byrjaðir að setjast þar að. Han-Kínverjar voru hins vegar löngu búnir að koma sér fyrir á eyjunni alveg frá seinni hluta 13. aldar. Engu að síður varð Taívan hollensk nýlenda þar til kínverska þjóðarhetjan Koxinga endurheimti hana árið 1662. Eyjan endaði svo undir stjórn Qing-keisara til ársins 1895 þegar Kínverjar töpuðu í fyrsta Sino-japanska stríðinu og neyddust til að láta Japönum eyjuna eftir.

Eyjan var þá í eigu Japans alveg þar til í lok seinni heimsstyrjaldarinnar og var meðal annars notuð sem miðstöð fyrir árásina á Perluhöfn. Þrátt fyrir stríðslok ríkti enn borgarastyrjöld á meginlandi Kína á milli kommúnista og þjóðernissinna og þegar her þjóðernissinna undir stjórn Chiang Kai-shek tapaði neyddist hann til að flýja til Taívan. Áður en hersveitir kommúnista gátu ráðist inn á eyjuna hafði bandaríski sjóherinn lokað hana af og til ársins 1979 þá var það ríkisstjórnin í Taívan sem Bandaríkin viðurkenndu sem hina lögmæta stjórn allra Kínverja. Á endanum breyttu Bandaríkjamenn þessari afstöðu og viðurkenndu stjórnvöld í Peking sem lögmæta ríkisstjórn Kínverja með þeim fyrirvara að skyldu þeir ráðast inn í Taívan bæri Bandaríkjunum skylda að verja eyjuna. Það loforð hefur alltaf staðið en eftir innrás Rússa í Úkraínu hafa sérfræðingar velt því fyrir sér hvort þjösnaskapur Kínverja í Suður-Kínahafi gæti haft í för með sér mögulega innrás í Taívan.

Mikilvægi eyjunnar

Á öllum þeim árum sem ég bjó í Kína kynntist ég mikið af Kínverjum sem höfðu mismunandi álit á alls konar málefnum en ekkert sameinaði Kínverja jafn mikið og Taívan. Það má nánast útiloka það að þú hittir einhvern á meginlandinu sem lítur svo á að Taívan eigi að vera sjálfstæð þjóð. Að vissu leyti mætti skilja þá afstöðu. Ef Íslendingar hefðu fengið sjálfstæði 1944 undir því skilyrði að við þyrftum að afselja Vestmannaeyjar til Danaveldis væri að sjálfsögðu erfitt fyrir sjálfstæðis-stolta þjóð að kyngja því að horfa upp á danska eyju í fjarska í hvert sinn sem við keyrum um Suðurlandið á heiðskírum degi. Hér er höfundur ekki að gera lítið úr lýðræði eyjunnar eða að segja að íbúar Taívan myndu hafa það eitthvað betra undir stjórn Peking, en það er mikilvægt að skilja hvaðan þjóðarsál Kínverja kemur þegar við lítum á þetta málefni.

Taívan þjónar einnig mikilvægu hlutverki í okkar nútímaheimi. Taívanska fyrirtækið TSMC er einn stærsti framleiðandi hálfleiðara í heiminum, sem notaðir eru í tölvukubba og örflögur. Margir bílaframleiðendur víða um heim hafa á þessu ári þurft að loka verksmiðjum sínum tímabundið vegna skorts á hálfleiðurum í bíla sína, sem sýnir hversu háð við erum orðin slíkri tækni. Frá hernaðarlegu sjónarmiði er Taívan einnig landfræðilegur draumur. Í seinni heimsstyrjöldinni var haft eftir McArthur hershöfðingja að eyjan væri í raun „ósökkv­andi flugmóðurskip“. Kína er til dæmis ekki með neinar djúpvatnshafnir í norðaustur-hluta Suður-Kínahafsins, sem gerir stærsta sjóher heims mjög erfitt fyrir með að senda kafbáta og skip sín í viðgerðir og slipp. Aftur á móti býr Taívan yfir nokkrum slíkum djúpvatnshöfnum, sem þýðir að næði alþýðuherinn eyjunni á sitt band væri hann kominn í töluvert betri stöðu hernaðarlega séð.

Allt þetta bendir ekki endilega til að stríð sé á næsta leiti en ef slíkar heræfingar munu aukast í framtíðinni mun það án efa auka hættuna á mistúlkun.

Heræfingar og mistúlkun

Sem svar við þessari heimsókn Pelosi fór fram stærsta heræfing í sögu kínverska hersins fyrir síðustu helgi og samkvæmt ríkismiðlum átti æfingin að fara fram á sex stöðum undan ströndum Taívans, en einu öðru svæði var síðan bætt við. Alvöru skotfæri voru nýtt og var 11 flugskeytum meðal annars skotið í hafið við strendur eyjunnar. Það sem kom á óvart var að fimm flugskeyti lentu einnig í efnahagslögsögu Japans og gat það verið túlkað sem ögrandi skilaboð til Bandaríkjahers sem hýsir 26 þúsund hermenn á japönsku eyjunni Okinawa.

Taívanski herinn svaraði einnig fyrir sig með því að senda sínar eigin herþotur í loftið og virkjaði meðal annars eldflaugavarnarkerfi sín. Aftur á móti gæti það verið nákvæmlega það sem alþýðuherinn var að vonast eftir. Við slíkar æfingar er hægt að sjá hvernig óvinurinn bregst við. Hvaða radar hann mun til dæmis kveikja á og hvert hann mun færa hersveitir sínar eru allt upplýsingar sem hægt væri að nýta í framtíðinni. Þar að auki var bandaríska flugmóðurskipið USS Ronald Reagan einnig að sigla í kringum svæðið. Allt þetta bendir ekki endilega til að stríð sé á næsta leiti en ef slíkar heræfingar munu aukast í framtíðinni mun það án efa auka hættuna á mistúlkun. Svipaðar kringumstæður áttu sér til dæmis stað þegar heimurinn upplifði Kúbudeiluna fyrir 60 árum og þrátt fyrir mikla heppni hvað varðaði lausn á þeirri deilu þarf oft ekki mikið meira en einn misskilning fyrir eina heimsókn að breytast í heimsendi.