Umhverfisráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um þjóðgarð á miðhálendinu og þar með styrkt vonir um að langþráður draumur náttúruunnenda rætist. Hálendi Íslands, þessi magnaða, óbyggða háslétta þar sem höfuðkraftarnir leika lausum hala og upplifa má sköpun jarðarinnar í beinni útsendingu, er svæði sem á engan sinn líka á heimsvísu. Þetta er ekki bara fullyrðing mín heldur álit fjölda alþjóðlegra sérfræðinga og embættismanna sem mæltu með því að hluti hálendisins, Vatnajökulsþjóðgarður, yrði skráður sem heimsminjasvæði UNESCO – og það gekk eftir sl. sumar. Hvergi á jörðinni annars staðar en á hálendi Íslands eigast við rekbelti á mótum jarðskorpufleka, möttulstrókur úr iðrum jarðar og stórir hveljöklar, á engum öðrum stað finnast svo áköf átök elds og íss og bara þar má finna svo fjölbreytilegar afurðir þessa samspils.

Miðhálendið er landslagsheild sem öll er orðin til við ofangreind átök. Hana ber líka að annast og vernda sem heild og því er víðtæk friðlýsing afar mikilvæg. Hefði allt miðhálendið verið undir sem þjóðgarður í umsókninni til UNESCO er ég sannfærður um að það væri nú heimsminjasvæði, verndað um ókomna tíð fyrir ágengri nýtingu á borð við virkjanir og námugröft.

Meginmarkmið þjóðgarða er friðlýsing náttúru sem þykir svo mikilvæg og einstök að vert sé að leyfa henni að þróast eftir eigin lögmálum án virkra afskipta manna. Annað markmið er að veita fólki aðgang að þessari náttúru til þess að sækja sér andlegan innblástur, fræðast og stunda útivist. Í seinni tíð hefur hlutverk þjóðgarða sem þungamiðju í sjálfbærri atvinnustarfsemi grannsvæða líka styrkst. Þetta hlutverk er afar mikilvægt á nærsvæðum Vatnajökulsþjóðgarðs. Í þjóðgörðum er mannfólkið gestir og njótendur í náttúrunni frekar en mótendur, nema þá á óbeinan hátt t.d. vegna hnattrænna breytinga.

Í tæknilegum skilningi eru þjóðgarðar tiltekinn flokkur friðlýstra náttúruverndarsvæða þar sem flokkaskiptingin fer eftir eðli friðunarinnar og fyrirbæranna sem verið er að vernda. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, IUCN, skipta verndarsvæðum í sex meginflokka og raðast þjóðgarðar í flokk II – næst æðsta flokk ef svo má segja. Samkvæmt þeirra skilgreiningu eru þjóðgarðar: Stór náttúruleg eða því sem næst náttúruleg svæði sem friðlýst eru til að vernda umfangsmikla vistfræðilega ferla, ásamt tilheyrandi vistkerfum og tegundum, og eru opin gestum til andlegrar og vísindalegra iðkunar, menntunar og útivistar sem samrýmist verndarskilmálum svæðisins.

Í náttúruverndarlögum, nr. 60/2013, eru þjóðgarðar skilgreindir sem stór náttúrusvæði sem eru lítt snortin og hafa að geyma sérstætt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag. Þá segir í lögunum: Í þjóðgörðum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist. Íslenska skilgreiningin er sambærileg við skilgreiningu IUCN en meiri áhersla er lögð hér á verndun jarðminja og landslags, auk lífríkis.

Í ofannefndum frumvarpsdrögum að hálendisþjóðgarði er gert ráð fyrir því að tillögur rammaáætlunar um stórar virkjanir innan hálendisþjóðgarðs verði áfram til umræðu. Þetta eru Skrokkalda sem er í nýtingarflokki, og nokkrar virkjanir aðrar sem nú eru í biðflokki, en verða mögulega færðar í nýtingarflokk síðar og heimilaðar, með býsna hertum skilyrðum þó.

Ég veit að þetta er það besta sem umhverfisráðherra gat náð fram meðal fólks sem er hallt undir orkuiðnað og á erfitt með að skilja að náttúruvernd er góð fyrir landið og líka arðbær fyrir þjóðina. En þjóðgarður með yfirvofandi virkjanir gengur ekki upp. Ég veit ekki um neina lagalega eða almenna skilgreiningu þjóðgarðs nokkurs staðar sem gerir ráð fyrir mögulegum nýjum stórvirkjunum – öðru máli gegnir um virkjanir sem þegar eru fyrir hendi og örvirkjanir til að knýja innviði þjóðgarðsins.

Það yrði stórslys í mínum huga ef – eftir stofnun hálendisþjóðgarðs – ráðist yrði í stórtækar framkvæmdir á borð við virkjun innan hans. Slík aðför (leyfð að lögum!) mundi ganga af þjóðgarðshugtakinu dauðu og kasta rýrð á aðra þjóðgarða landsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum

Ég styð aftur á móti alvöru hálendisþjóðgarð af alhug. Skora á ríkisstjórnarflokkana að falla frá öllum áformum um virkjanir á hálendinu og standa við loforðið: Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu (bls. 22 í Sáttmála F, D og VG). Ekki reyna að víkjast undan þessu loforði með því að grafa undan þjóðgarðshugtakinu og búa til bastarð eins og frumvarpsdrögin gera.

Næst besti kostur væri að stofna þjóðgarðinn í áföngum. Fyrst verði innan hans aðeins þau svæði sem örugglega eru og verða laus við virkjanir en síðan bætt við svæðum eftir því sem rammaáætlun vindur fram.