Fyrir um 21 mánuði eða þann 28. febrúar 2020 greindist fyrsta Covid-smitið hér á landi. Þá tók við ótrúlegur tími í íslensku samfélagi, eitthvað sem varla nokkur Íslendingur hefði trúað fyrirfram að eiga eftir að upplifa. Heimsfaraldurinn hefur sannarlega haft veruleg áhrif á daglegt líf okkar allra og reynt á þolrifin. Því miður bendir flest til að svipað ástand verði áfram við lýði einhverja mánuði og jafnvel ár.

Heilbrigðisþjónustan og Covid

Þó heilbrigðismál séu iðulega ofarlega á baugi í samfélagsumræðunni hefur athyglin á þessum málaflokki aldrei verið meiri en síðan Covid-faraldurinn skall á. Daglega eru fluttar fréttir af gangi mála og hafa flestir landsmenn skoðanir á þeim aðferðum sem beitt er í baráttunni gegn veirunni. Í öllum þessum stormi hefur Landspítali verið í kastljósinu, enda gegnir spítalinn lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Landspítali er stærsti vinnustaður landsins, þar starfa um 6.000 manns. Í Ráðgjafarnefnd Landspítala situr breiður hópur einstaklinga sem starfa utan veggja spítalans. Nefndinni er ætlað að vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi, rekstur og langtímastefnumótun en einnig að vera rödd samfélagsins. Við höfum kynnst þeim þungu áskorunum sem hafa fylgt starfi spítalans á tímum Covid og teljum brýnt að vekja athygli á því stórkostlega hlutverki sem Landspítali, starfsfólk hans og stjórnendur gegna í baráttunni við faraldurinn og hvernig spítalinn hefur treyst og styrkt samstarf við heilbrigðiskerfið og vísindasamfélagið sem aftur hefur gert okkur fært að fást við þennan vágest.

Landspítali í beinni útsendingu

Umræðan um stöðu Landspítala hefur aldrei verið háværari en nú og virðist því miður fara harðnandi. Nánast allt sem gerist inni á spítalanum er í beinni útsendingu og daglega flytja fjölmiðlar fjölda frétta af starfseminni. Slíkt álag á vinnuumhverfi og starfsfólkið sjálft, ofan á allt annað, er mjög íþyngjandi til lengdar og því miður eru nú teikn á lofti um að hópar starfsfólks hugsi sér til hreyfings. Um leið er þessi sama umræða um spítalann ekki til þess fallin að gera hann að lokkandi vinnustað fyrir nýtt starfsfólk. Loks getur umræðan einnig dregið úr áhuga og eftirspurn eftir námi í heilbrigðisgreinum sem er afar miður því störf í heilbrigðisþjónustu hafa skýran tilgang og markmið, eru gefandi og samfélagslega mikilvæg.

Starfsemi Landspítala er að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafin en gagnrýnin hefur ekki alltaf verið réttmæt og því miður oft ósanngjörn. Því hefur starfsfólk spítalans fengið að kynnast undanfarið í auknum mæli og í slíkt fer mikil orka. Á þeim tímum sem nú eru uppi hefur hins vegar aldrei verið mikilvægara að nýta orkuna og tímann til að koma okkur út úr mesta vandanum og leyfa stjórnendum og starfsfólki að ná aftur vopnum sínum með öllum þeim stuðningi sem hægt er að veita.

Þakklæti og Þjóðarsátt

Við sem þekkjum til starfsemi Landspítala vitum að þar er unninn fjöldi kraftaverka á hverjum degi. Starfsfólk er oft að sinna flóknum og erfiðum verkefnum við mjög krefjandi aðstæður og á miklar þakkir skildar fyrir sín frábæru störf. Þakklæti í orðum er bara ekki nóg.

Því heitum við í Ráðgjafarnefnd Landspítala á landsmenn alla að skapa Þjóðarsátt um Landspítala: Þjóðarsátt sem hefur það markmið að koma á nauðsynlegri ró í kringum starfsemi spítalans og veita starfsfólki og stjórnendum svigrúm til að vinna sína mikilvægu vinnu án þess að hvert handtak verði tilefni aðfinnslu og hallmæla. Við þurfum á sama tíma að skapa svigrúm til að gera þær breytingar á innviðum starfseminnar sem þarf til að spítalinn geti verið góður vinnustaður og sinnt sínu mikilvægasta hlutverki: Að vera þjóðarsjúkrahús í fremstu röð með áherslu á gæði og öryggi notendum heilbrigðisþjónustunnar til handa.

Í þessum sambandi köllum við eftir samstöðu allra hagsmunaaðila spítalans; stjórnvalda, Alþingis, stéttarfélaga og fagfélaga heilbrigðisstarfsfólks, hagsmunasamtaka sjúklinga og landsmanna allra.

Við þurfum að vinna með stjórnendum og starfsfólki Landspítala í að endurheimta jákvæða ímynd spítalans og byggja upp góða vinnustaðamenningu sem býður upp á spennandi verkefni. Það er fátt ánægjulegra í starfi en að geta gefið af sér og hjálpað öðrum.

Ágætu landsmenn, nú er tími til að standa saman. Við þurfum að skapa ró og vinnufrið fyrir starfsemi, starfsfólk og stjórnendur Landspítala svo það geti siglt okkur í gegnum það fárviðri sem nú geisar.

Ráðgjafarnefnd Landspítala

Óskar Reykdalsson, formaður

Álfheiður Ingadóttir

Bára Hildur Jóhannsdóttir

Henný Hinz

Jón Kristjánsson

Pétur Magnússon

Vilmundur Guðnason

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þuríður Harpa Sigurðardóttir