Það hníga til þess rök að Íslendingar lifi í samfélagi þar sem meiri áhersla er lögð á eftirgrennslan með skattsvikum en rannsóknir á kynferðisbrotamálum. Fyrri málaflokkurinn virðist vera tekinn fastari tökum en sá síðari, enda fer hann mun hraðar í gegnum réttarkerfið, jafnvel á örfáum mánuðum, á meðan þolendur kynferðisofbeldis – í yfirgnæfandi tilvikum konur – geta átt von á því að bíða árum saman eftir að dómur falli.

Það er svo eftir öðru að margir gerendurnir sem dæmdir eru fyrir þessa svívirðilegu glæpi fá að lokum afslátt af refsivistinni vegna þess hve langur tími leið frá dómsuppkvaðningu. Og það óréttlæti upplifa margir þolendur sem aðra nauðgun, af hálfu ríkisins.

Kynferðisofbeldi er þjóðarmein á Íslandi. Birtingarmyndir þess eru margvíslegar, allt frá endurtekinni áreitni til alvarlegustu sálarmorða. Og ekkert lát er á þessari svívirðu. Það sem af er ári hafa nítján einstaklingar leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis vegna hópnauðgunar þar sem tveir eða fleiri hafa verið að verki. Það eru mun fleiri tilvik en á síðasta ári og miklu fleiri en árið þar á undan.

Hafi ríkið einhverju hlutverki að gegna í samfélaginu þá er það akkúrat að taka þennan málaflokk alvarlega – og gera allt sem í valdi þess stendur til að fækka glæpum af þessu tagi, en rannsaka þá sem drýgðir eru af mannúð, fagmennsku og af þeim þunga sem hann á skilið.

Ómögulegt er að setja sig í spor ungra stúlkna sem verða fyrir hópnauðgun, þótt hægt sé að gera sér í hugarlund þann óbærilega hrylling sem marka mun heilsu fórnarlambsins um aldur og ævi. Mögulegt er aftur á móti að taka þessa glæpi jafn alvarlega og þeir eiga skilið.

Ríkisvilji

Stjórnendur einhvers langþreyttasta ríkisfyrirtækis landsmanna, Póstsins, hafa afráðið að hækka verð á póstsendingum úti á landi en lækka það á höfuðborgarsvæðinu. Þar með verður ekki lengur sama póstverð á landinu. Þetta er ríkisvilji. Þetta er ríkiseinokun.

Verslanakeðjan Bónus, sem er einkafyrirtæki, hefur selt landsmönnum mat- og heimilisvörur á sama verði um allt land um árabil. Ólíku er hér saman að jafna, hjá hinu opinbera og hjá einkaframtakinu. Landsbyggðarfólk hlýtur nú að kalla eftir einkavæðingu Póstsins.