Sérhver þjóð á sín verðmæti sem kalla má þjóðargersemar. Þess konar verðmæti eru stundum hlutlæg eða að öllu leyti huglæg en oftast blanda af hvoru tveggja. Dæmi um þjóðargersemar eru fornbókmenntir og handrit okkar Íslendinga. Við höfum aðgangsstýringu að handritunum til þess að þau haldist óskemmd um ókomna tíð. Handritin og sögurnar sem þau geyma eru grafin djúpt í þjóðarvitundina, við vitum af þeim en menn labba ekki inn á Árnastofnun til að fá að handleika Möðruvallabók eða fletta upp í Konungsbók eddukvæða.

Aðrar þjóðir eiga sínar þjóðargersemar. Gott dæmi eru bronsaldarlúðrarnir í Þjóðminjasafni Dana. Allir mega koma í safnið til þess að berja lúðrana augum en maður fær ekki að taka þá út úr glerskápnum og prófa að blása í þá til þess að athuga hvernig þeir hljóma.

Ósnortin landsvæði eða víðerni má telja til þjóðargersema Íslendinga. En það er eitthvað í menningararfi okkar sem veldur því að hugmyndin um að ósnortin víðerni í flokki þjóðargersema hefur ekki náð almennilegri fótfestu í þjóðarsálinni. Það er þó tilfinning mín að þetta sé að breytast þótt hægt fari.

Dæmi um ósnert landsvæði er eða var að finna norðvestur af Mýrdalsjökli. Fyrir mörgum árum gekk ég Laugaveginn frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk. Í gönguhópnum voru þýsk hjón á miðjum aldri. Þegar gengið var niður úr Hvanngili blasti allt í einu við víðáttumikill svartur Mælifellssandur og hvítur Mýrdalsjökull handan við sandinn. Þýsku hjónin fórnuðu höndum, ekki af skelfingu heldur voru þau gagntekin af hrifningu þegar þessi tilkomumikla sýn blasti allt í einu við þeim. Í mörgum þessara mála birtast miklar þversagnir. Í auglýsingum um náttúru Íslands eru ósnortin víðerni oft sýnd mjög áberandi til að draga til okkar erlenda ferðamenn en á sama tíma erum við dugleg að raska þeim með nútímavélum og tækni.