Nýverið leitaði fjölskylduvinur og áhugaíþróttamaður til læknis vegna bólgu í stóru tá, sem hann taldi orsakast af langhlaupum að loknu fríi. Spurningar heilbrigðisstarfsmannsins komu honum á óvart, sérstaklega þegar læknirinn spurði hvort hann væri ríkur. Þegar vinurinn neitaði var honum sagt að hann þjáðist af velmegun, morbus dominorum et dominus morborum, sjúkdómi herranna sem á fyrri tímum var talinn orsakast af munaðarlífi og óhófi.

Þvagsýrugigt væri gigt hinna ríku og lækningin fælist í því að drekka minna áfengi og borða minna kjöt.

Þó að þvagsýrugigt hafi orðið eftirsóttur sjúkdómur á 18. öld, stöðutákn og vitnisburður um góða samfélagsstöðu sjúklinga, er öldin önnur í dag. Öllum veislum fylgir uppvask og að afloknu hóglífi allra sumarfría tekur amstur hversdagsins við. Á mörgum heimilum hefur vigtin á baðherberginu bilað og heimilisfólk á erfitt með að setja fingur á orsökina. Vertíð líkamsræktarstöðva er um það bil að hefjast og stór hluti þjóðarinnar gerist annaðhvort stoltur styrktaraðili ýmissa þolfimifrömuða eða skráir sig í Landvættina – og um leið þjóðina í áskrift að afreksmyndum brosandi síðmiðaldra æskuljóma á fjallstindum. Aðrir standa á bilaðri vigtinni, horfa í baðherbergisspegilinn og íhuga hvort þeir þjáist af velmegun.

Allt er best í hófi. Frekar pirrandi máltæki fyrir þjóð sem tekur allt með trukki. Áður en við sleppum sumrinu er því tilvalið að ná myndum af hinstu grillstundinni, myndarlegri nautasteik á nýuppkomnu hrauni, rauðvíni í fallegu glasi og sólsetri. Þjást örlítið lengur af velmegun – áður en kjarasamningar og verðbólga skella á með haustlægðum.

Góðar stundir.