Fyrir nokkrum dögum ritaði Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son grein á heima­síðu sinni undir fyrir­sögninni „Lög­leiðing eitur­lyfja.“ Greinin inni­hélt orð þing­mannsins um frum­varp sem lagt hefur verið fram á Al­þingi um „af­glæpa­væðingu neyslu­skammta.“ Lýsti hann því að af­leiðingar frum­varpsins yrðu far­aldur í anda Co­vid. Sagði þing­maðurinn fram­setningu frum­varpsins og um­búðir þess vera líka skáld­sögum Orwelles, hver svo sem það nú er.

Þegar Sig­mundur steig í pontu á Al­þingi sagði hann m.a. um mál­efnið að hann hefði aldrei séð eitur­lyf og vissi ná­kvæm­lega ekkert um mál­efnið. En hann ætlar þó að hafa vit fyrir öðrum.

Hver veit nema Sig­mundur hafi verið að horfa á „inn­rásin frá Mars“ þegar hann greip pennann og ritaði um raun­veru­leikann í þessum efnum. Hann vísar því á bug að bar­áttan við vímu­efni, sem hann kallar eitur­lyf, sér töpuð. Bendir hann á að frá fornu fari þekkja menn að ekki megi hætta að berjast við hið illa þótt endan­legur sigur náist aldrei. Nefnir hann sjúk­dóma sem nær­tækt dæmi. Þeim verði seint út­rýmst en það þýði ekki að við eigum að hætta að berjast gegn þeim þeim.

Vímu­efna­stríðið er að mínu viti ekki tapað. Það eru bara að­ferðirnar sem virka ekki. Að­ferðirnar stuðla að neyslu en ekki öfugt. Málið er að vopninu í bar­áttunni er ætlað að hræða fólk og valda ótta við refsingu. Ótti er hins vegar oft á tíðum það sem veldur mis­notkun vímu­efna. Eitt sinn var ráð við berklum að setja hina veiku út í frost. Þeir áttu það þá til að deyja úr lungna­bólgu en að­ferðin gagnaðist að öðru leyti ekki vel. Í annað sinn fengu mið­alda­læknar þá flugu í höfuðið að taka blóð við öllum sjúk­dómum. Enginn árangurs varð annar en að dreirar­sjúkum fækkaði. Hver þekkir ekki sögur af því þegar borað var í höfðu fólks til að lækna alls­konar geð­sjúk­dóma og særingar voru iðkaðar til að sigra illskuna sem Sig­mundur nefnir. Einu sinni heyrði ég meira að segja um kara­te­kappa sem skáru í utan­verða lófana og stráðu salti í sárið til að herða höndina. Upp frá því gátu þeir ekki stundað karate.

Við lifum á öld upp­lýsinga, þekkingar og tækni. Ný þekking tekur við af gömlum kreddum. Gömul bú­konu­ráð hafa stundum sannast hættu­leg. Málið snýst alls ekki um það hvort Sig­mundur kalli vímu­efni eitur­lyf eða eitt­hvað annað. Það skipti heldur engu máli hvort Sig­mundur líti á á­fengi sem eitur­lyf, vímu­efni eða bara gleði­gjafa. Og veit ég þó ekkert um hvort Sig­mundur notar eitur­lyfið alkó­hól. Málið snýst ein­fald­lega um að taka upp raun­hæfar að­ferðir sem gagnast geta við vímu­efna­vanda þjóðarinnar.

Í upp­hafi ætlaði ég nú ekkert að fara að tala um hið al­ræmda á­fengi. En ég má til. Og ég er viss um að Sig­mundur lesi The Economist og þess vegna ætla ég að vísa til um­fjöllunar á vef­síðu þess miðils frá því fyrir Co­vid. Þar er fjallað um hættu­legustu vímu­gjafa í Bret­landi en eitt og í sér­flokki trónir Alkó­hól á toppi þess lista. Alkó­hól veldur meiri heilsu­skaða en heróín, kostar sam­fé­lög hlut­falls­lega langt um meira en önnur vímu­efni peninga­lega og stuðlar að fleiri glæpum en heróín, kókaín, LSD, am­feta­mín og kanna­bis til samans.

Það kann vel að vera að ein­hver drykkju­boltinn hneykslist og skrifi eitt­hvað fjand­sam­legt um þessi orð mín í „kommenta­kerfinu“ en mér er alveg sama. Enda er ég bara að vísa til rann­sókna sem ein­hverjir aðrir hafa unnið og birt.

En hvað um það. Frum­varpið snýst ekkert um að lög­leiða vímu­efni. Það snýst um skaða­minnkun. Skaða­minnkun miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsu­fars­legum, fé­lags­legum og efna­hags­legum af­leiðingum notkunar lög­legra og ó­lög­legar vímu­efna án þess endi­lega að draga úr vímu­efna­notkun.

Það er ef­laust margt til í því að ein­hverjir not­færa sér svig­rúm laganna til að svindla en það á við um flest lög. Ekki satt Sig­mundur? Sá hópur er ekki stór miðað við þann hóp sem frum­varpið beinir sjónum sínum að.

Við erum að tala um veikt fólk sem vill hætta en getur það ekki, veikt fólk sem fær ekki að­stoð því hún er ekki fyrir hendi hér á landi. Veikt fólk sem getur ekki beðið um hjálp sökum ótta við að fara á lista góð­kunningja lög­reglu, á saka­skrá, í fangelsi og svo í þessa ömur­legu hring­ekju sem fangelsis­kerfið er fyrir mörgum sjúk­lingum. Þarna er fólk sem á sér ekki við­reisnar von vegna fjöl­skyldu­að­stæðna. Ömur­legar að­stæður ganga nefni­lega í erfðir rétt eins og auður.

Að mínu viti er það að mál­efna­legt fela nefnd sér­fræðinga það hlut­verk að komast að því hvað neyslu­skammtur er í raun. Um er að ræða sér­fræðinga í heil­brigðis­stétt, gras­rót neyt­enda, stofnana og fleiri sem þekkingu og reynslu hafa af málinu. Það er ein­mitt skyn­sam­legt að færa matið til sér­fræðinga í stað þing­manna sem hafa ekki mikið vit á slíku. Og ég tel að Sig­mundur þurfi ekki að velta því sér­stak­lega hver ber á­byrgð á því er ein­hver deyr af völdum neyslu­skammts. Toyota er leyfi­legt á Ís­landi og fólk deyr af vörslum hennar án þess að ríkið bera á­byrgð á því.

Að lokum vil ég hrósa Sig­mundi fyrir það að benda á að mikil vöntun sé á með­ferðar­úr­ræðum fyrir veikasta hópinn sem frum­varpið beinir sjónum sínum að. Hver veit nema hann hafi hnotið um þetta á leið í ríkið.

Að lokum vil ég þakka stjórn­völdum fyrir að koma þessari um­ræðu af stað. Ég vona að hún leiði til þess að rökum sé beitt í þeim til­vikum sem tekist er á um mis­notkun vímu­efna. Eygja má von um að pólitísk sátt sé á næsta leyti um þess mál en um mál­efnið ríkir lík­lega þver­fag­leg sátt.

Höfundur er for­maður Af­stöðu, fé­lags fanga á Ís­landi