„It’s the economy, stupid,“ er frægt slagorð úr kosningabaráttu Bill Clinton þegar hann varð forseti Bandaríkjanna árið 1992. Orðin eru að sjálfsögðu ekki hans, heldur ráðgjafa hans, James Carville, sem vildi útskýra fyrir starfsmönnum framboðsins hvaða skilaboð skipta máli í svona baráttu.

Eftir að hafa fylgst með pólitík í nokkurn tíma, beðið kjósendur um að forgangsraða áherslum í könnunum og eytt allt of miklum tíma yfir Íslensku kosningarannsókninni hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þessi skilaboð hafa líka skipt íslenska kjósendur hvað mestu máli. Þess vegna skiptum við kjósendum til hægri og vinstri og sú skipting segir okkur eitthvað.

En þetta er ekki það eina sem deilt er um í kosningum. Þess vegna verða til margir flokkar sem staðsetja sig á mismunandi stað á fjölvíðum ásum. Stundum til að dylja persónulegan ágreining og metnað sem ekki hefur raungerst innan annarra flokka.

Í dag er stærsta verkefnið umhverfis- og loftslagsmálin. Og í kosningunum fá kjósendur mismunandi valkosti til að velja úr bestu lausnina. Sumir leggja áherslu á hvernig Íslendingar geti lagt sitt af mörkum til að tryggja að afkomendur okkar hafi eitthvað að erfa. Aðrir benda til útlanda og segja að þetta verði að ráðast þar. Enn aðrir stinga hausnum í sandinn, því þeirra flokkar eigi að leysa önnur vandamál.

Í samhengi hlutanna er auðvelt að sjá að efnahagurinn og loftslagsvandinn tengjast. Efnahagurinn okkar fer mjög illa á því að leyfa loftslagsvandanum að grassera. Hann gæti reynst heiminum öllum mjög dýr. Því skiptir þetta líka máli fyrir þá kjósendur sem telja að þetta snúist bara um efnahagsmálin.