Ríkisstjórnin setti sér nýverið forgangsraðaðan aðgerðalista tengdan hagsmunagæslu Íslands vegna aðildar að EES samningnum. Þar segir að leiðarstef framkvæmdastjórnar ESB sé að styrkja stöðu sambandsins á alþjóðavettvangi, efla samkeppnishæfni Evrópu í iðnaði og viðskiptum og þar er lagður grunnur að þverfaglegri nálgun og samvinnu. Þar kemur ekki fram að það verði gert að talsverðu leyti með stöðlun en sú er þó raunin. Á forgangslistanum segir að þessi nálgun kalli á að íslenska stjórnkerfið vinni samhent að hagsmunagæslu í góðu samráði við hagsmunaaðila.

Ef rifjað er upp hvað felst í stöðlun er um að ræða sammælt viðmið hagaðila, unnin eftir verkferlum sem tryggja að raddir allra, og besta mögulega þekking, verði inntak þeirra. Staðlar eru alla jafna valkvæðir en verða hluti af löggjöf þegar löggjafinn ákveður að vísa til þeirra. Með notkun staðla tryggjum við nefnilega að besta fáanlega sérfræðiþekking rati inn í okkar litla hagkerfi. Sú trygging er beinlínis byggð inn í EES samninginn.

Kolefnishlutleysi 2040

Forgangslistinn inniheldur hagsmunagæslu á sviði loftslagsmála. Þegar kemur að loftslags- og umhverfismálum er nú þegar til fjöldi alþjóðlegra staðla sem varða leið að árangri í umhverfismálum. Staðlaráð Íslands vinnur nú að útgáfu tækniforskriftar sem segir til um aðferð við að nýta alþjóðlega ISO-staðla til að varða leiðina að árangri Íslands við að ná kolefnishlutleysi árið 2040.

Orkunýting bygginga

Forgangslistinn inniheldur hagsmunagæslu um orkunýtni, þ.m.t. orkunýtni bygginga. Ekki verður hægt að leggja neinar línur á því sviði nema setja stöðluð viðmið og nota staðlaðar aðferðir og mælingar til að unnt sé að segja til um orkunýtni og flokka húsnæði eftir henni. Á stöðluðum viðmiðum byggja líka grænar fjárfestingar fjármálafyrirtækja. Ætlum við að verða alvöru og raunverulegir þátttakendur á þessu sviði, verður ekki hjá því komist að vinna stöðlunarvinnu, sem segir til um það hvaða mælingar við notum, hver viðmiðin eru og hvernig við skilgreinum ýmis hugtök sem enn eru okkur ekki þjál og mismunandi skilningur lagður í þau. Þá er gott að vera hluti af stærra mengi og hafa aðgang að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar.

Stafræn umbreyting ekki án samhæfingar

Á forgangslista ríkisstjórnarinnar er einnig minnst á mikilvægi þess að stafræn umbreyting sé samhæfð. Netöryggi, gervigreind, rafrænir markaðir og rafræn þjónusta, byggir öll á samhæfðri stöðlun, enda mikilvægt að allt virki vel og ólík tækni virki saman, öryggi sé tryggt, sem og neytendavernd og að þjónustustig haldist hátt. Stór alþjóðleg staðlasamtök starfrækja þann vettvang og Staðlaráð Íslands á aðild að þeim. Við erum nefnilega eitt púsl í stóru myndinni.

Forgangsmálið er stöðlun

Vettvangurinn til að eiga í góðu samráði við hagaðila er Staðlaráð Íslands, hlutlaus samráðsvettvangur þeirra sem hag hafa af stöðlun. Til þess að ná þeim árangri sem stefnt er að í stórum mikilvægum málaflokkum og til að halda áfram að vera þjóð meðal þjóða, þarf að tryggja starfsemi Staðlaráðs, tryggja farvegi fyrir íslenska hagsmuni inn í evrópska regluverkið og taka virkan þátt í því lýðræðislega samstarfi sem á sér stað á hinum fjölþjóðlega vettvangi sem staðlasamtök bjóða upp á. Það er nefnilega mikilvægt að hið opinbera skili fjármunum sem atvinnulífið greiðir til staðlastarfs og hætti að taka til sín talsverðan hluta hennar, eftir að hafa einhliða rift samkomulagi þar um. Á það hafa 40 stjórnendur og sérfræðingar opinberra stofnana, samtaka og einkafyrirtækja nýverið bent á. Það er ekki síður mikilvægt að fulltrúar hins opinbera taki fullan þátt í stöðlunarstarfi, sem samkeppnishæfni landsins hangir á sem og neytendavernd, heilsa og öryggi Íslendinga, að ekki sé talað um samvirkni, gæði og aukna landsframleiðslu. Staðlar verða nefnilega oft hluti af löggjöf þó alla jafna séu þeir valkvæðir. Þá er mikilvægt að íslenskir hagsmunir eigi rödd við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.

Þetta reddast nefnilega ... ekki mikið lengur.