Við Íslendingar erum um margt lánsöm þjóð. Við búum í friðsælum heimshluta og erum ein auðugasta þjóð í heimi miðað við fólksfjölda. Fáar þjóðir búa að jafn mikilvægum auðlindum og við. Við strendur landsins eru fengsæl fiskimið og á hverri sekúndu streymir ógnarafl frá jöklum til sjávar, hrein orka brýst fram úr iðrum jarðar og ekki skortir kröftugan vind sem hægt er að beisla. Við eigum líka ómetanlega náttúru og gnægð af hreinu vatni, sem er einhver eftirsóttasta auðlind jarðar. Þjóðin í þessu gjöfula landi er vel menntuð.

Með þessa auðlegð stendur ekkert í vegi þess að við lifum hér góðu lífi. Ekkert nema mögulega við sjálf. Fátt er svo gjöfult að ekki megi sólunda því og klúðra. Fyrir fáum áratugum var Venesúela eitt auðugasta ríki veraldar vegna olíuauðlinda. Nú getur Venesúela ekki brauðfætt fólkið í landinu vegna rangrar stjórnarstefnu um árabil. Vítin eru til að varast þau.

Við verðum að nýta auðlindir okkar rétt og vel. Það hámarkar lífskjör þjóðarinnar. Einnig hvílir á okkur samfélagsleg skylda í samfélagi þjóða að nýta sjálfbærar orkuauðlindir landsins í þágu alls heimsins. Kolefnisspor orkufrekrar stóriðju og gagnavera sem knúin eru sjálfbærri orku hér á landi er einungis brot af kolefnisspori slíkra iðjuvera sem knúin eru kolum í Kína og víðar.

Okkur Íslendingum er nauðsynlegt að finna jafnvægi milli nýtingar og varðveislu okkar náttúruauðlinda. Vörumst öfgar í báðar áttir og höfum hugfast að við, þessar 370 þúsund hræður, erum grundvöllur kraftaverksins sem gerist hér á landi á degi hverjum. Fólkið gengur fyrir og maður og náttúra geta lifað í sátt og samlyndi.