Íslenskur sjávarútvegur er gjarnan sagður í fremstu röð á heimsvísu. Nýjustu fréttir benda til þess að atvinnugreinin sé í fremstu röð á fleiri sviðum en fiskveiðum.

Egill Örn Jóhannesson er framkvæmdastjóri bókaútgáfunnar Forlagsins. Í aðdraganda jóla árið 2019 fékk Egill óvænta heimsókn á skrifstofuna til sín – ekki þó frá jólasveininum.

„Hann bara dúkkaði hér upp í miðri jólavertíð,“ sagði Egill í viðtali við Stundina um innlit Jóns Óttars Ólafssonar, starfsmanns sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. „Þá var ég svo grunlaus að ég hélt að hann væri að koma að bjóða mér handrit.“

Þeir Egill og Jón ræddu um daginn og veginn. Þegar Jón kvaddi var Egill engu nær um erindi heimsóknarinnar. Það skýrðist nokkrum dögum síðar.

Egill fékk boð á fund á skrifstofu Samherja. Þar var honum ráðlagt að innkalla eina af bókum Forlagsins, Ekkert að fela: Á slóð Samherja í Afríku, þar sem þrír þekktir blaðamenn skrifuðu um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu.

Egill aðhafðist ekkert. Þann 22. desember fékk hann tölvupóst frá Jóni Óttari þar sem látið var að því liggja að ef Forlagið innkallaði ekki bókina biði fyrirtækisins kostnaðarsöm málaferli í London. „Googlaðu bara English defamation law [enska meiðyrðalöggjöf] og hvað málflutningsmaður QC kostar á klukkutímann. Þetta er ekki hótun ... bara að aðstoða þig að taka upplýsta ákvörðun.“

Vondi karlinn

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny komst í heimsfréttirnar árið 2020 þegar eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok. Hann lifði af og í janúar árið 2021 mælti hann með bók. Bókin var eftir breska blaðamanninn Catherine Belton og fjallaði um hvernig stétt rússneskra oligarka hefði sölsað undir sig eigur ríkisins. Nokkrum vikum síðar höfðuðu fjórir rússneskir auðmenn og rússneskt olíufyrirtæki fimm meiðyrðamál gegn Belton og útgefanda hennar fyrir enskum dómstólum.

„Þetta er ekki hótun.“ Uppátæki útsendara Samherja á sér þó nafn. Það gengur undir skammstöfuninni SLAPP sem stendur fyrir „strategic lawsuit against public participation“, eða „skipulögð lögsókn til hindrunar almennri umræðu“. Markmið stefnanda í slíkum málsóknum er ekki að hafa sigur fyrir dómi heldur að þagga niður í gagnrýnisröddum með því að kaffæra andstæðinga í lögfræðikostnaði og fæla aðra frá því að taka þátt í umræðunni. Lagaumhverfi á Englandi þykir einkar vel til þess fallið og eru enskir dómstólar vinsæll vettvangur til ímyndargæslu, sér í lagi meðal rússneskra oligarka.

„Flest útgáfufyrirtæki hefðu látið undan þrýstingi og innkallað bókina,“ sagði Catherine Belton en hún og útgefandi hennar ákváðu að verjast málsóknunum. Það tókst að bjarga bókinni. Belton sat þó uppi með reikning upp á 1,5 milljónir punda, eða 250 milljónir íslenskra króna.

Ný rannsókn sýnir að stjórnendur stærstu útgerðarfyrirtækja á Íslandi eru óánægðir með starfsumhverfi sitt. Er ástæðan m.a. neikvæð umræða um greinina og mikill tími sem helga þarf áróðri vegna hennar. „Maður upplifir sig bara sem vonda karlinn,“ sagði Daði Hjálmarsson, sem situr í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um niðurstöðurnar.

Á Þorláksmessu 2019 barst Forlaginu bréf frá lögmönnum Samherja um mögulega málshöfðun. Bókin hefur ekki verið innkölluð.

Samherji daðrar við flókna aðferð til ímyndarsköpunar sem aðeins er á færi fólks og fyrirtækja í fremstu röð á heimsvísu. En til er einfaldari aðferð til að virðast ekki vondi karlinn. Hún gengur undir heitinu orsök og afleiðing: Hætti stjórnendur að haga sér eins og rússneskir oligarkar mun fólk hætta að líta á þá sem rússneska oligarka.