Sumarið 1973 héldu tveir síbrotamenn með hríðskotabyssu að vopni fjórum starfsmönnum banka í Stokkhólmi í gíslingu. Umsátur lögreglunnar um bankann stóð í sex daga.

Atburðarásin inni í bankanum tók snemma óvænta vendingu. Gíslarnir fjórir snerust á sveif með gíslatökumönnunum. Þegar umsátrinu lauk með því að lögregla dældi táragasi inn í bankann bægðu gíslarnir lögregluþjónum sem frelsuðu þá frá sér en föðmuðu kvalara sína og kysstu. Gíslarnir heimsóttu mennina reglulega í fangelsi. Segir sagan að einn gíslanna hafi trúlofast gíslatökumanni.

Fyrirbærið fékk nafnið Stokkhólmsheilkennið. „Fórnarlömbin verða eins og börn,“ sagði sálfræðingurinn Frank Ochberg, sérfræðingur á sviði gíslatöku. „Þau geta ekki borðað, talað eða farið á klósettið án þess að fá leyfi.“ Ochberg sagði lítil góðverk, eins og þegar gísl er gefinn matur, vekja „frumstætt þakklæti fyrir lífgjöfina“ og að gíslarnir væru í algerri afneitun um að „þetta væri sama fólkið og kom þeim í aðstæðurnar.“

Það er annars konar „bankarán“ sem á hug okkar Íslendinga um þessar mundir. Nýverið var seldur í lokuðu útboði með afslætti 22,5 prósenta hlutur ríkisins í Íslandsbanka. Í tvær vikur ríkti leynd yfir nöfnum þeirra sem hrepptu hnossið. En svo kvað við kunnuglegan tón: „Faðir fjármálaráðherra á meðal þeirra sem fengu að kaupa í Íslandsbanka.“ Hinir rómuðu „fagfjárfestar“ reyndust afturgengnir útrásarvíkingar, kvótaaðall sem notar arðinn af einni almenningseign til að kaupa aðra, spákaupmenn, dæmdir hrunverjar, starfsmenn bankans og söluráðgjafinn.

„Mjög fallega gert“

Ári eftir gíslatökuna í Stokkhólmi ræddi blaða­maður tímaritsins The New Yorker við fórnarlömbin. Gíslarnir fullyrtu enn að gíslatökumennirnir hefðu komið vel fram við þá. Ein kvennanna, sem þjáðist af innilokunarkennd, hafði til að mynda fengið að taka nokkur skref út úr herberginu þar sem hópnum var haldið föngnum. Hún varð að vísu að bera snöru um hálsinn en hún sagði þetta hafa verið „mjög fallega gert“. Þegar gíslatökumaður hugðist skjóta annan gísl í fótinn til að sýna lögreglunni að sér væri alvara hugsaði gíslinn: „En fallegt af honum að ætla bara að skjóta mig í fótinn.“ Hinir gíslarnir hvöttu hann til að fórna sér fyrir gíslatökumennina: „Þetta er bara fóturinn, Svenni.“

Hinn 15. september árið 2017 sleit stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Var það í kjölfar þess að upp komst að fyrrnefndur faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, hefði veitt dæmdum kynferðisafbrotamanni meðmæli í umsókn um uppreist æru. Það olli að auki útbreiddri hneykslun að þáverandi dómsmálaráðherra Sigríður Andersen greindi Bjarna frá meðmælum föður hans án þess að gera öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar viðvart.

En í stað þess að verðlauna Bjarta framtíð fyrir það að verða við köllum almennings um aukna siðferðisábyrgð stjórnmálaflokka tóku kjósendur afstöðu með gíslatökumönnunum. Björt framtíð þurrkaðist út í næstu kosningum. Vinstri græn stigu fram fyrir hönd fanginnar þjóðar og þökkuðu Sjálfstæðisflokknum fyrir brauðmolana af „frumstæðu þakklæti“ gísls í sænsku bankaholi.

Og hér erum við stödd enn á ný, með snöru um hálsinn en teljum okkur frjáls, því við fengum að stíga nokkur skref út úr prísundinni sem var „mjög fallega gert“. Barnslega glöð yfir því að hafa áður verið leyft að kaupa brot af okkar eigin banka í almúgaútboðinu lifum við í afneitun um að sama fólkið og gefur með annarri hendi tekur með hinni. Gíslatökumennirnir þurfa hins vegar ekki að skjóta okkur í fótinn. Við tökum af þeim ómakið og skjótum okkur sjálf í fótinn á fjögurra ára fresti.