Takmarkanir á athafnafrelsi fólks, sem staðið hafa ansi lengi, bjóða að sjálfsögðu ekki upp á að rósemi sé í hávegum höfð á öllum heimilum. Pirringur og vanstilling grípur auðveldlega um sig. Dæmi um þetta eru viðbrögðin við fréttum af því að gríðarlega aukningu COVID-tilfella megi rekja til einstaklings sem virti ekki reglur um sóttkví eftir komuna til landsins. Þeir allra æstustu kröfðust þess að nafn hans væri birt og vildu vitaskuld líka fá mynd af viðkomandi. Þannig yrði landslýð ljóst hver sökudólgurinn væri. Um leið væri hann auðmýktur opinberlega og það svo mjög að hann fengi aldrei að gleyma því að hann hefði brotið af sér.

Hér er ekki verið að bera sérstakt blak af viðkomandi einstaklingi. Brot hans hafði alvarlegar afleiðingar, sem er örugglega ekki það sem hann bjóst við. En brotið jafngildir ekki því að réttlætanlegt sé að bregðast við í máli hans eins og æsingafólkið vill að gert sé með því að draga hann fram í sviðsljósið og úthrópa sem þjóðníðing. Það er ekki beint notalegt að horfa upp á refsigleðina grassera. En refsigleði er reyndar aldrei sérlega geðþekk.

Sennilega er auðvelt að fá útrás fyrir pirring með því að hella sér sérstaklega yfir einn einstakling af þeim fjölmörgu sem ekki hafa hlýtt sóttkví. Komið hefur fram að margir þeirra sem brjóta sóttkví séu útlendingar sem hér starfa og sagt er að sá sem hlýddi ekki, með þessum skelfilega vondu afleiðingum, sé Pólverji.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá nokkrum manni að hér á landi fyrirfinnst hópur einstaklinga sem amast mjög út í búsetu erlends fólks hér á landi, finnur því ýmislegt til foráttu og segir það taka vinnu frá Íslendingum. Þessi hópur felur aldrei vanstillingu sína og færist allur í aukana þegar upp kemur mál eins og þetta.

Stjórnmálamenn eiga að vita af hættunni á því að andúð skapist á COVID-tímum gagnvart því fólki sem hingað kemur að utan til að vinna og er á ferðalögum milli landa. Stjórnmálamenn hafa hins vegar ekki talað af röggsemi um mikilvægi þess að sýna aðstæðum þessa fólks skilning. Það gerði hins vegar maður sem á stundum getur talað með hvössum tón. Kári Stefánsson er hrjúfur á yfirborðinu en eins og margir slíkir einstaklingar hefur hann hlýtt hjarta, þótt hann reyni yfirleitt að leyna því.

Kári sagði á dögunum: „Við höfum ekki verið nógu dugleg að byggja brú yfir til þessa pólska samfélags á Íslandi. Þannig að það sem miður fer finnst mér vera okkur að kenna. Við höfum ekki tekið almennilega á móti þessu fólki. Alla vega er ljóst að þessir Íslendingar af erlendu bergi brotnir eiga í meiri erfiðleikum við að halda sóttkvíarreglurnar heldur en aðrir. Og það þarf að finna einhverja leið til að takast á við það án þess að benda fingri á þetta fólk sérstaklega.“

Þjóðin hefur einstakt dálæti á Kára Stefánssyni og sperrir eyrun í hvert sinn sem hann talar. Hún ætti að taka alveg sérstakt mark á þessum orðum hans. Þau eru svo sönn.