Við Þerneyjarsund var ein helsta kauphöfn landsins á miðöldum. Hún var forveri verslunar í Hólminum, þeirrar sem flutt var til Reykjavíkur þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1787. Öfugt við Hólminn – Örfirisey – og miðbæ Reykjavíkur, er Þerneyjarsund ósnortið af framkvæmdum, einn af örfáum stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að komast í tæri við umhverfi eins og það var, áður en borgin breiddist yfir holt og móa.

Við Þerneyjarsund eru ummerkin um miðaldaverslunina að mestu undir yfirborði en þar eru, auk Þerneyjar sjálfrar með miklum minjum, tvö bæjarstæði á fastalandinu, Glóra og Niðurkot, sem vitna um horfna búskaparhætti. Þetta landslag er einstakt á höfuðborgarsvæðinu, falin perla sem fáir vita af. Það hefur til skamms tíma verið skilgreint sem „opið svæði“ á skipulagsuppdráttum, en nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir iðnaðarsvæði í bilinu á milli bæjarstæðanna tveggja, í miðju hinnar fornu Þerneyjarhafnar. Ef af verður munu þessar framkvæmdir rjúfa það einstæða menningarlandslag sem þarna hefur varðveist.

Ferill málsins í höndum borgaryfirvalda sýnir vel hvernig sjónarmið umhverfisverndar og minjaverndar eru afbökuð og hunsuð, til að greiða götu framkvæmdaaðila. Borgarsögusafn og Minjastofnun Íslands hafa verið eindregin í andstöðu sinni við þessar ráðagerðir, en snúið hefur verið út úr málflutningi þeirra til að komast að fyrirframgefinni niðurstöðu. Til grundvallar liggur svokallað kostamat, unnið á vegum framkvæmdaaðila og borgarinnar, þar sem komist er að því að Þerneyjarsund sé álitlegasti kosturinn, meðal annars á þeirri forsendu að áhrif framkvæmdanna á menningarminjar séu óveruleg. Sú niðurstaða byggir á því að iðnaðarlóðin raski ekki þekktum mannvirkjaleifum sem sýnilegar eru á yfirborði. Henni er smokrað inn á milli rústanna og látið eins og þar með séu áhrifin hverfandi.

Lög um menningarminjar eru hins vegar afdráttarlaus um að fornleifar eru ekki aðeins mannvirkjaleifar, heldur einnig landslag sem hefur menningarsögulegt gildi – búsetulandslag og menningarlandslag. Það þarf ekki lagaþekkingu til að sjá að þarna er stefnt að því að eyðileggja landslag Þerneyjarsunds, þó þekktum mannvirkjaleifum eigi ekki að moka burt í þessari umferð. Annað er svo hvort að það sé trúlegt að þarna verði látið við sitja – reynslan sýnir að ef iðnaðarsvæðið verður að veruleika, verður þess ekki langt að bíða að það verði álitin knýjandi nauðsyn að stækka það eða veita öðrum sambærilega aðstöðu. Og þá verður auðvelt að segja að það sé hvort sem er búið að eyðileggja það sem verðmætast var – heildina – og tiltölulega lítill viðbótarskaði þó einhverjar grjóthrúgur þurfi að fjúka. Afgreiðslu Reykjavíkurborgar á deiliskipulaginu fylgir loforð um hverfisvernd fyrir þá aðskildu búta sem eftir verða (að vísu er ekki „talið tímabært að festa slík hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi nú“), sem er svolítið eins og að skera miðjuna úr Kjarvalsmálverki og lofa því svo, að hugsa ákaflega vel um ræmurnar sem eftir standa.

Í því liggur skaðinn sem nú stendur fyrir dyrum. Hann er réttlættur með afneitun á þeirri staðreynd að Þerneyjarsund er menningarlandslag, menningarsöguleg heild sem verður eyðilögð, ef áætlanir Reykjavíkurborgar ná fram að ganga.