Til eru nokkrir stjórnmálaflokkar sem reyna að sannfæra aðra um að helstu stefnumál þeirra séu í samræmi við vilja þjóðarinnar. Vísa þeir gjarnan í eigin rannsóknir og skoðanakannanir því til stuðnings. Almenningur fær að vísu aldrei að vita forsendur eða framsetningu í slíkum rannsóknum og könnunum.

Félagsskapur sem kallar sig Þjóðareign, og stuðningsmenn Viðreisnar og Samfylkingarinnar fóstra, lét gera könnun um viðhorf manna til fiskveiðistjórnunarkerfisins. Mátti helst skilja niðurstöðuna þannig að 77% landsmanna væri á móti núverandi kerfi og vildu að allar aflaheimildir, sem útgerðir hafa keypt dýrum dómi, yrðu fyrndar um 5-10% á ári og seldar hæstbjóðanda, sem teldist þá markaðsgjald.

Svona kannanir segja lítið þegar einungis um helmingur svarar og engar forsendur liggja fyrir um hvernig svona útboð á aflaheimildum yrði framkvæmt. Svo þykist ég vita að enginn sem tók þátt í könnuninni hafi kynnt sér greinargerð sérfræðinga úr vísindasamfélaginu frá 2010 um skaðsemi þessarar fyrningar- og útboðsleiðar fyrir land og þjóð.

Það má vel vera að meirihluti þjóðarinnar vilji að útgerðin greiði hærri skatta og gjöld fyrir nýtingu auðlindarinnar. Til að svo verði þarf hvorki auðlindaákvæði í stjórnarskrá né að fara fyrningarleið og selja aflaheimildir hæstbjóðanda.

Það var heldur ekki tilviljun að BSRB, sem er eins og hvert annað útibú frá Vg og Samfylkingunni, kostaði könnun Félagsvísindastofnunar um afstöðu landsmanna til einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu, svona rétt fyrir kosningar. Niðurstaðan var sú að um 80% voru mótfallin einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Svarhlutfallið reyndist einungis 43% og eins og svo oft áður veit almenningur ekkert um forsendur sem gefnar eru eða framsetningu í könnuninni. En hvers vegna ætti rekstrarform að skipta þá máli sem þurfa heilbrigðisþjónustu?

Það læðist að mér sá grunur að ekki viti allir að þjónustan er að mestu greidd af skattfé hvort sem ríkisstarfsmaður innir hana af hendi eða heilbrigðisstarfsmenn í einkarekstri. Við erum öll sjúkratryggð.

Það sem skiptir landsmenn máli, og þarf enga skoðanakönnun til að leiða í ljós, er að kostnaðarhlutdeild þeirra sé sem minnst og að hér sé ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi, þannig að efnameiri geti greitt fyrir hraðari og betri þjónustu.

Við munum fá tvöfalt heilbrigðiskerfi ef könnunin endurspeglar raunverulegan vilja þjóðarinnar.