Hryðju­verka­ríkið Ísrael er orðið al­var­legt vanda­mál og á eftir að versna … Ógnanir eru nefni­­lega eina um­gengnis­venjan, sem Ísraels­ríki kann.“

Þessi orð skrifaði Jónas Kristjáns­son rit­stjóri árið 1988.

At­burðir síðustu daga sýna að orð rit­stjórans hafa staðist tímans tönn.

Í sau­tján ár hafa Gaza­búar búið í her­kví Ísraels­hers, á þessu tíma­bili hefur her Ísraels gert fjöl­margar á­rásir á inni­lokaða íbúa Gaza­strandarinnar og drepið þúsundir og sært tug­þúsundir.

Á Gaza, sem er að stærð um 1/3 Reykja­nes­skagans, búa tvær milljónir Palestínu­manna, um helmingur þeirra eru börn undir á­tján ára aldri, börn sem aldrei hafa upp­lifað frið en búa við stöðugar ógnir frá Ísrael.

Frá árinu 2000 hefur Ísraels­her drepið 2.225 palestínsk börn, þar af 556 árið 2014 og 29 það sem af er þessu ári.

Barna­morð Ísraels eru gerð í skjóli frá helstu ríkjum Vestur­landa sem veita bæði fé til hernaðar og vernd frá refsi­að­gerðum.

Ríkis­út­varpið segir okkur að þarna séu átök milli „deilu­aðila“. Morð­á­rás sem einn af öflugustu herjum sam­tímans gerir á inni­lokað og vopn­laust fólk er ekki deila eða átök – barna­morðin eru ekki deila eða átök – þetta eru morð – barna­morð.

Stefani­e Fox, fram­kvæmda­stjóri friðar­sam­taka gyðinga (Jewish Voice for Peace), skrifar: „Hin hömlu­lausa grimmd gegn Palestínu­mönnum af hálfu ísraelska hersins – með fjár­mögnun, stuðningi og vörnum banda­rískra stjórn­valda – er skelfi­leg í grimmd sinni og ó­mann­úð. Palestínu­menn búa við kúgun Ísraels­manna alla daga ársins. Og þegar her Ísraela gerir loft­á­rásir á Gaza getur enginn sloppið, enginn getur flúið í öruggt skjól.“

Ríkis­stjórn Ís­lands og utan­ríkis­ráð­herra hljóta að for­dæma þessar á­rásir Ísraels á Palestínu – ríki sem Ís­land hefur viður­kennt.