Þann 5. marz sl. var ungur Íslendingur, 21 árs gamall, staddur á skemmtistaðnum 203 Club, þegar til átaka kom, sem hann reyndi að stilla.

Grimmileg árás án tilefnis

Á eftir, fyrir utan skemmtistaðinn, varð þessi Íslendingur svo fyrir heiftarlegri líkamsárás tveggja útlendinga, án tilefnis og fyrirvaralaust, og hann hálf drepinn. Virðast árásarmennirnir vera frá Mið-/Suður-Ameríku. Ljóst er, að þessir tveir árásarmenn þjörmuðu svo að Íslendingnum, með hnúum, hnefum og eggvopni, sennilega skrúfjárni, sem var stungið 6 sinnum í bak Íslendingsins, að bæði lungu féllu saman. Voru áverkar lífshættulegir.

Dyraverðir gerðu ekkert – vegfarandi bjargaði

Dyraverðir skemmtistaðarins virðast hafa horft á árásina, en ekkert aðhafzt. Lítill sómi að því fyrir staðinn. Að sögn móður fórnarlambsins náði gangandi vegfarandi að stoppa árásarmenn og taka þá af syni hennar. Fyrir heppni komst hann fljótt í sjúkrabíl, og tókst að bjarga lífi drengsins.

Dómur yfir aðalbrotamanni hneyksli

25. ágúst sl. féll dómur í þessu árásarmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur. Daniel Zambrana Aquilar, 23 ára, sennilega Bólivíumaður, sem stakk Íslendinginn 6 sinnum með stunguvopni, aftan frá, í gegnum þykkan og mikinn klæðnað og gegnum skinn, vefi, hold og beinagrind, inn í lungu, þannig, að þau féllu bæði saman, en þessi sami árásarmaður hafði veizt að 24 ára karlmanni fyrir utan skemmtistaðinn Prikið, brotið framtennur úr honum og veitt honum áverka á höfði og hægri hendi, sex mánuðum áður – greinilega árásarhneigður og ofbeldisfullur, hættulegur – fékk tveggja og hálfs árs fangelsi, og var honum gert að greiða fórnarlambinu 1,5 milljónir í miskabætur. Fyrir undirrituðum hneyksli.

Dómur yfir hjálparmanni grín

Hjálparmaðurinn, Raúl Ríos Rueda, 25 ára gamall, sem lét höggin dynja á fórnarlambinu meðan Daniel beitti stunguvopninu aftan frá, fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og minniháttar sekt, sem þýðir, að hann gekk út úr réttarsalnum, sem frjáls og fínn maður.

Málsatvik skýr – dómar senda alröng skilaboð

Fyrir undirrituðum eru þessir dómar mikil mistök, hneyksli, íslenzku réttarfari, Héraðsdómi Reykjavíkur, til skammar. Hér verður auðvitað að hafa það í huga, að refsing við brotum og glæpum gengur ekki aðeins út á refsihliðina, heldur, jafn mikið eða öllu fremur, út á það, að vara illfygli og ofbeldismenn við og reyna að fyrirbyggja glæpi og voðaverk. Dómar verða að senda skýr skilaboð í þá veru. Sú greining dómarans, að hér hafi ekki verið hægt að slá því föstu, að Daniel hafi verið ljóst, þegar hann stakk fórnarlambið 6 sinnum á hol, að bani kynni að hljótast af, er fyrir undirrituðum fásinna. Fullyrðing Daniels, að hann hafi „gripið áhald upp af götunni“, sem hann hafi notað til að stinga fórnarlambið með, er líka fjarstæðukennd og ótrúlegt, að dómarinn skuli hafa tekið hana til greina. Hvers konar áhöld liggja á förnum vegi, sem stinga má með í gegnum margfaldan og þykkan klæðnað, skinn, vefi, hold og beinagrind, inn í lungu og stórskaða þau!? Fyrir undirrituðum er augljóst, að Daniel hafi haft með sér þetta stunguvopn, borið það á sér og gripið til þess af fullum ásetningi við tilefnislausa og lífshættulega árásina. Að ganga út frá öðru, er í mínum huga dómgreindarskortur.

Hvað hefði evrópskur dómstóll mögulega gert?

Ég bjó lengi á meginlandi Evrópu. Mín grófa tilfinning er, að þessir dómar hefðu fallið miklu þyngra þar; Daniel hefði verið dæmdur í 6-8 ára fangelsi og Raúl, vegna meðsektar, aðild að árás, sem gat haft lífshættulegar afleiðingar, manndrápstilraun, í 6-12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Auðvitað er þetta engin fagleg úttekt, rétt tilfinning.

Hvað með árásarmennina?

Árásarmennirnir eru útlendingar, frá fjarlægum löndum, sem engan sérstakan rétt hafa hér. Hvernig komust þeir inn í landið, og á hvaða forsendum eru þeir hér? Væri æskilegt, að dómsmálaráðherra gerði grein fyrir því. Þegar slíkir menn koma hér og fremja brot og illvirki, er ekki sjálfsagt, að senda slíka glæpamenn til baka til síns heimalands, strax eftir dómsuppkvaðningu, eða að afplánun lokinni, og útiloka þá fyrir fullt og allt frá okkar landi?

Bann og háar sektir við vopnaburði

Væri ekki rétt, að banna allan vopnaburð hér á höfuðborgarsvæðinu, eða landinu öllu, þar sem hnúajárn, hnífar, stunguvopn og vitaskuld skotvopn væru stranglega bönnuð, á almennum og opinberum svæðum, svo og auðvitað á samkomum og mannsöfnuðum, og háar sektir væru við slíkum vopnaburði, t.a.m. 100 þúsund króna sekt fyrir fyrsta brot, og kæmi 10 daga fangelsi í stað sektar, ef hún væri ekki greidd skilvíslega. Dyravörðum bæri líka að framkvæma vopnaleit með málmleitartæki, eða láta gesti fara í gegnum málmleitarhlið.

Hættur alþjóðavæðingarinnar

Í öllu falli verður að fara vel ofan í saumana á þessu réttarfari öllu, ekki sízt í ljósi þess, að alþjóðavæðingin, sem mest er af hinu góða og ekki verður stöðvuð, felur líka í sér ágalla og hættur, m.a. þá, að hér koma menn frá löndum, þar sem ofbeldisverk – rán, nauðganir, misþyrmingar og morð – eru daglegt brauð, sem þeir sjá svo og skynja með öðum hætti en við Íslendingar.