Þegar eitthvað bjátar á og hjálpar er þörf skiptir það öllu máli að það gangi vel og fumlaust fyrir sig.

Jafnvel stöðugasta fólk getur verið í miklu uppnámi og þurft að dreifa athygli sinni milli þess að gera sitt besta í aðstæðunum og á sama tíma að reyna að koma upplýsingum til skila í síma bæði til að undirbúa viðbragðsaðila og fá sem bestar leiðbeiningar.. Því mikilvægara er að viðmælandi taki málið föstum tökum og leiðbeini af yfirvegun.

Mörg okkar þekkja að fá góða þjónustu frá Neyðarlínunni og við höfum miklar væntingar til þessarar mikilvægu þjónustu. Hún þarf að hughreysta, hjálpa okkur að líða eins og aðstæðurnar séu undir stjórn og leiðbeina okkur, svo við getum einbeitt okkur að því að gera okkar besta á vettvangi meðan hjálpin er að berast. Sumar væntingar berast okkur kannski úr bíómyndum og sjónvarpi, jafnvel úr gömlu Rescue 911 þáttunum með William Shatner.Traustið sem við leggjum á þessa aðila er jafnframt mikið. Við felum þeim að hjálpa okkur þegar líf og dauði eru í húfi.

Vegna þessa er það enn meira áfall þegar stuðninginn brestur.

Nýlega var greint frá slíku dæmi í fjölmiðlum eftir að hópur fullorðinna vinkvenna gekk fram á unga einstaklinga af erlendum uppruna sem reyndu að hjálpa vinkonum sínum sem voru meðvitundarlausar og froðufellandi.

Eins og ábyrgir borgarar gera frammi fyrir neyð þá stoppuðu þær og gerðu sitt besta til að hjálpa, og hringdu í Neyðarlínuna. Þeirra saga hefur verið rakin annarsstaðar og ætla ekki að endurtaka hana alla, en það sem eftir situr er að þeim var því illa brugðið í sínum samskiptum við Neyðarlínuna.

Að þeirra sögn var ítrekað skellt á þær og engin tilraun gerð til að leiðbeina þeim í gegnum aðstæðurnar, eða hjálpa þeim að sinna stúlkunum þangað til hjálp bærist. Engin tilraun til að hughreysta þær, eða einu sinni veita þeim upplýsingar um að sjúkrabíll myndi koma, en bara þær upplýsingar hefðu væntanlega róað stöðuna áþreifanlega.

Þegar þú situr yfir manneskjum sem þú telur raunverulega að séu við dauðans dyr er rifrildi við Neyðarlínuna það síðasta sem þú þarft á að halda. Það getur beinlínis verið áfall að verða fyrir þeirri vanvirðingu að líða eins og þín besta og heiðarlegasta tilraun til að kalla á hjálp og veita upplýsingar um þá neyð sem þú finnur þig í, sé virt að vettugi. Að þegar þú reynir aftur að fá aðstoð sé ítrekað skellt á þig af þeim sem þú treystir og hélst að myndi örugglega vera til staðar í slíkum aðstæðum.

Í umræðunni hefur orðið nokkuð ljóst að sú upplifun sé langt frá því að vera einsdæmi.

Af þeirri umræðu að dæma virðist það takmarka athygli og forgang sem Neyðarlínan veitir þegar grunur leikur á um notkun vímuefna. Enn meiri takmörkun athygli virðist leiða af heimilisleysi.

Ekki veit ég hvað er til í því. En þetta er upplifun fólks sem hefur hringt inn vegna einhvers í vanda sem það reynir að hjálpa. Jafnvel aðeins ásýnd þess að Neyðarlínuna varði minna um að hjálpa sumum en öðrum getur verið mjög skaðleg fyrir traust á þessari neyðarþjónustu. Við eigum öll jafnan rétt á heilbrigðis- og neyðarþjónustu og því skýlaus krafa að þjónusta Neyðarlínunnar standi öllum til boða án manngreinaálits. Ef einstaklingar upplifa að um mismunun eða fordóma sé að ræða jafnvel þó það stæðist ekki þarf að taka það alvarlega, bregðast við, svara og byggja upp traust.

Reykjavíkurborg á tæp 20% í Neyðarlínunni ohf. á móti ríkinu. Og þó svo stjórn Neyðarlínunnar ohf. beri endanlega ábyrgð á rekstri félagsins ber Reykjavíkurborg samt ábyrgð á því að rekstur og þjónusta á hennar vegum sé öllum til boða á jafnræðisgrundvelli.

Af þeirri ástæðu bauð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar bæði fulltrúa Neyðarlínunnar og fulltrúa hópsins sem gekk fram á stúlkurnar í neyð að koma á fund ráðsins. Til að fara yfir atvikið, verklagsreglur og starfshætti Neyðarlínunnar með það að markmiði að komast til botns í því hvort um einsdæmi eða endurtekið mynstur sé að ræða. Niðurstaða fundarins var samþykkt ályktun með hvatningu til stjórnar Neyðarlínunnar ohf. um að fram fari óháð úttekt.

Sama ráð hefur áður fengið fulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fund sinn til þess að ræða uppákomur á borgarhátíðum sumarið 2019. Viðhorf Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og núverandi ríkislögreglustjóra, sem kom fyrir ráðið einkenndist af auðmýkt og kurteisi og lögreglan setti sjálf af stað óháða úttekt.

Forsvarsmaður Neyðarlínunnar lagði hinsvegar fram minnisblað á fundinum sem hann átti með ráðinu sem bar merki um mikla vörn,, í stað vilja til að ræða atvikið og hvernigværi hægt að tryggja að þessi upplifun endurtæki sig ekki og áframhaldandi traust á störfum neyðarþjónustunnar. Í umræðu hefur Neyðarlínan einblínt á tímasetningar en útskýrt það að skellt hafi verið á og vöntun á aðstoð í gegnum síma sem dónaskap án þess þó að ávarpa rót vandans. Þessum atriðum hefur enn ekki verið svarað með fullnægjandi hætti og er það miður.

Við viljum öll geta treyst Neyðarlínunni. Þegar neyðin er stærst á hjálpin að vera næst.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Pírata í Reykjavík.