Ég er starfandi hjúkrunar­fræðingur á Land­spítala og hef starfað ýmist á bráða­mót­töku- eða gjör­gæslu­deild yfir um 20 ára skeið. Að undan­förnu hefur á­stand Land­spítala verið á­berandi í fréttum og er sú um­ræða því miður síst orðum aukin.

Vakt eftir vakt er það mín til­finning að ég nái ekki að sinna starfi mínu vel. Og nú er svo komið að mér líður þannig að mér finnst ég þurfa að biðja þá sjúk­linga sem ég annast af­sökunar á því að geta ekki veitt þeim nauð­syn­lega og mann­sæmandi hjúkrun.

Mig langar að biðja aldraðan ein­stak­ling með slæma kvið­verki af­sökunar á að hafa ekki getað verkja­stillt hann al­menni­lega, vegna þess að sam­tímis kom inn sjúk­lingur með brjóst­verk sem þurfti tafar­lausa að­stoð. Mig langar að biðja alla þá sjúk­linga af­sökunar sem ég hef þurft að að­stoða við að af­klæðast á gangi deildarinnar, vegna þess að ekkert rúm­stæði var laust fyrir við­komandi.

Mig langar að biðja aldraðan, illa áttaðan sjúk­ling af­sökunar á því að hann þurfti að dvelja rúm­lega 40 klukku­stundir í glugga­lausu sjúkra­rými með 10 öðrum ein­stak­lingum á bráða­mót­tökunni, sökum þess að ekkert annað pláss var laust á legu­deildum spítalans.

Mig langar að biðja sjúk­linginn með háa hitann af­sökunar á því að hafa ekki haft tök á því að meta á­stand hans eins í­trekað og þurfti, vegna þess að aðrir fár­veikir og slasaðir sjúk­lingar í minni um­sjón þurftu á at­hygli og tíma mínum að halda.

Mig langar að biðja að­stand­endur sjúk­linga sem ég hef verið að annast af­sökunar á að hafa ekki haft tíma í að sinna þeim eins vel og þeir þurftu, oft á verstu og við­kvæmustu stundum lífs þeirra. Ég get því miður haldið lengi á­fram.

Það er búið að setja okkur heil­brigðis­starfs­fólk í von­lausa stöðu og við látin bera of þungar byrgðar. Við erum að sligast undan á­standinu og kerfið okkar sömu­leiðis. Stjórn­völd verða að axla sína á­byrgð og það ætti að vera þeirra að biðjast af­sökunar á stöðunni og fyrir að hafa flotið sofandi að feigðar­ósi.

Það átta sig allir á, sem að málinu koma, að við þessar að­stæður er öryggi sjúk­linga á Land­spítala ógnað. Það er ekki hægt að segja það skýrar. Eftir hverja vakt geng ég út, and­lega úr­vinda og líkam­lega upp­gefinn – með það efst í huga hvort eitt­hvað hafi farið fram hjá mér eða ég misst ein­hverja bolta, og ég þakka fyrir að ekki hafi orðið stór­slys, því geta bráða­deildar til að takast á við slíkt undir þessum að­stæðum er afar tak­mörkuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Vakt eftir vakt er bráða­mót­taka Land­spítala starf­rækt eins og stærsta legu­deild landsins, þrátt fyrir að að­búnaður og eðli starf­semi deildarinnar bjóði ekki upp á slíkt. Margar rann­sóknir hafa sýnt að við framan­greindar að­stæður eykst ó­áttun sjúk­linga og sjúkra­hús­dvöl lengist.

Ég kem einnig tölu­vert að kennslu heil­brigðis­vísinda­nema í klínísku starfi og kenni við Hjúkrunar­fræði­deild Há­skóla Ís­lands. Margar vaktir horfi ég í brostin augu nem­enda, sumir grátandi og and­lega úr­vinda, vegna þess að verk­efnin sem þeim er ætlað að sinna, eru þeim of­viða. Það getur ekki talist eðli­legt að nem­endur sem eru að stíga sín fyrstu skref í klínísku starfi sýni kulnunar­ein­kenni áður en þau út­skrifast, það er þau sem á annað borð halda á­fram námi.

Mynd­líkingar geta verið góðar til að setja hlutina í sam­hengi. Frá­farandi for­stjóri Land­spítala líkti á­standi á bráða­mót­töku við það að elta strætó. Mig langar að líkja Land­spítala við lítið fiski­skip þar sem ekki er í boði að hætta veiðum, þrátt fyrir að skipið sé drekk­hlaðið. Það kemst þar af leiðandi ekki í höfn til að landa aflanum og sekkur að lokum með manni og mús. Er virki­lega ekki hægt að bregðast betur við heldur en að „teikna“ á­standið upp í töflu­reikni – út frá for­sendum um aukna fram­leiðni í heil­brigðis­kerfinu?

Það er eitt að upp­lýsa um á­standið, annað að benda á rót vandans og lausnir. Í mínum huga er þetta nokkuð skýrt. Á­kvarðanir dagsins í dag hafa af­leiðingar síðar. Stjórn­völd hafa ný­verið í tví­gang niður­lægt hjúkrunar­fræðinga í kjara­bar­áttu, meðal annars með því að setja lög á þá og þannig neitað stærstu heil­brigðis­stétt landsins um sann­gjarnar og rétt­látar kjara­bætur. Þetta er án efa einn stærsti or­saka­þátturinn í því á­standi sem nú ríkir á Land­spítala, og út­skýrir að öllum líkindum hvers vegna fjórði til fimmti hver hjúkrunar­fræðingur starfar við annað en hjúkrun fimm árum eftir út­skrift. Allar aðrar lausnir eins og að fjölga hjúkrunar­rýmum, fjölga legu­deildum, fjölga nem­endum í heil­brigðis­vísindum eða stækka hús­næði, hanga á þessari sömu spýtu. Heil­brigðis­stofnanir verða aldrei starf­ræktar án hjúkrunar­fræðinga.

Með þessum skrifum vonast ég til að leggja lóð á vogar­skálarnar í um­ræðunni og taka undir með sam­starfs­fólki mínu sem þegar hefur tjáð sig, í þeirri ein­lægu von að stjórn­völd átti sig á þeim al­var­legu að­stæðum sem þau hafa leyft að raun­gerast.

Það þarf að bregðast við án tafar, en ekki með fleiri skýrslum eða nefndum, og ekki fresta að­gerðum með því að skýla sér á bak við hugsan­leg ráð­herra­skipti eða benda enn og aftur á stjórn­endur Land­spítala. Ríkis­stjórnin þarf að gera upp við sig hvernig Land­spítala við sem þjóð viljum eiga.

Viljum við fjár­sveltan spítala sem getur ekki sinnt hlut­verki sínu, þar sem á­standið minnir meira á sjúkra­stofnun í stríðs­hrjáðu landi? Eða viljum við vera stolt af þjóðar­sjúkra­húsinu okkar, þar sem mann­leg reisn og öryggi sjúk­linga er tryggt? Þá þarf að grípa til að­gerða strax.