Á dögunum samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar að frá og með næsta hausti verði nemendum áttunda bekkjar boðið að ljúka hæfniviðmiðum skólasunds við upphaf níunda bekkjar. Velji nemendur það og standist hæfniviðmiðin geta þeir þá notað tímann sem annars færi í skólasund í annars konar val í síðustu tveimur bekkjum grunnskóla.

Ólíkt því sem gengur og gerist víða er þjóðin meira og minna vel synd og það má þakka skólasundinu sem við öll höfum farið í gegnum. Sund er stór hluti menningar okkar enda hvergi í heiminum eins mikið um almenningssundlaugar þar sem fólk nýtur útivistar, hreyfingar og samveru á heilbrigðan hátt.

En það eru ekki allir sem velja að nýta sér þessar laugar til að auka vellíðan sína enda tengja margir sundlaugaheimsóknir við allt aðrar tilfinningar. Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga en flest á þetta fólk það þó sameiginlegt að hafa verið gert að mæta í sitt skólasund frá upphafi til loka grunnskólagöngu. Öryggis- og lýðheilsumarkmið vega þar augljóslega þyngst og er engin ástæða til að efast um þau. En hvað tekur það að meðaltali langan tíma að kenna barni að synda? Áratug? Varla.

Þó börnum virðist eðlislægt að líða vel í vatni er það líklega jafn eðlislægt að upplifa feimni við að bera sig frammi fyrir öðrum á unglingsárunum á tímum stórra líkamlegra breytinga. Að bjóða flugsyndum unglingum upp á val um það hvort þeir taki fáklæddir þátt í skólasundi eður ei er ég handviss um að geti haft mikið að segja um andlega líðan þessara sömu barna.

Ekki aðeins er þessi breyting til góðs á tímum sífelldrar aukningar á kvíðagreiningum barna og unglinga heldur er hún merki um enn stærri viðhorfsbreytingu: Því þessi tillaga kemur frá börnunum sjálfum – og á þau var hlustað!

Þegar ég ritaði þessi orð rann upp fyrir mér að hvað skýrustu æskuminningar mínar eru úr íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ frá níunda áratug síðustu aldar. Ástæða skýrleikans er ekki sú að ég hafi verið slík íþróttakempa að þar hafi ég varið flestum stundum, heldur vegna þess að þar leið mér alltaf illa. Það hefði þó aldrei hvarflað að mér að sjálf gæti ég haft áhrif á örlög mín sem grunnskólanemandi – að einhver fullorðinn myndi hlusta.

Tillaga Elísabetar Láru Gunnarsdóttur, fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, náði aftur á móti alla leið.

Fyrir það munu margir þakka henni – og þeim sem á hana hlýddu!

Yndisleg karlmennska

Á tímum þar sem eitruð karlmennska hefur af gefnu tilefni fengið mikla athygli fjölmiðla, hefur íslenska handboltalandsliðið ekki bara glatt covid þreytta og samkomutakmarkaða þjóðina - heldur einnig veitt von. Von um að sú kynslóð karlmanna sem nú sé uppsprottin hafi að einhverju leyti sloppið undan þvingandi oki karlmennskukrafna. Faðmlög, hrós og stöku tár frá sterkum íþróttamönnum eru nú merki um alvöru karlmennsku! Þvílíkir menn!