Húsbúnaður úr sér genginn, mygluvandi og þrengsli, snjóar inn. Fólk þarf að deila herbergi með ókunnugum, allt að sex saman með sturtu og salerni. Aðstaða til útiveru slæm og ekki hægt að hleypa fólki út úr húsi svo dögum skiptir.

Svona lýsa tveir geðlæknar, Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir, ástandinu á geðdeildum Landspítala í grein sem birtist í Fréttablaðinu á dögunum. Þær gagnrýna að stjórnvöld hafi ekki sett fram neinar áætlanir um endurnýjun á húsakosti geðheilbrigðisþjónustunnar og kalla eftir markvissum aðgerðum strax.

Þingflokkur Samfylkingarinnar lagði fram þingsályktunartillögu í fyrra um að hafist yrði handa við uppbyggingu sómasamlegs húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu Landspítala. Markmiðið er að skapa heilnæmt og gott umhverfi fyrir fólk sem glímir við geðrænan vanda, í takti við nútímakröfur um mannúðlega þjónustu. Tillagan fékk jákvæðar undirtektir frá Læknafélagi Íslands, Landspítalanum og Geðhjálp en einu viðbrögðin úr ranni stjórnarmeirihlutans voru þau að kannski mætti bara skera geðheilbrigðisþjónustuna alveg frá Landspítala háskólasjúkrahúsi og fela einkaaðilum reksturinn. Þingmálið var svæft í nefnd.

Geðheilbrigðisþjónusta hefur mætt afgangi hjá síðustu ríkisstjórnum. Geðlæknum hefur fækkað á þeim vettvangi sem veikustu sjúklingunum er sinnt og biðtími eftir þjónustu hefur lengst. Samkvæmt nýlegri skýrslu frá heilbrigðisráðuneytinu er meðalbiðtíminn hjá átröskunarteymi Landspítalans 45 vikur. Vel á annað hundrað börn eru á biðlista hjá göngudeild Barna- og unglingageðdeildar og meira en 700 manns bíða viðtals hjá ADHD-teymi spítalans.

Þetta er óásættanleg staða í velferðarþjóðfélagi og við verðum að gera betur. Það kallar á breytta forgangsröðun við landstjórnina. Í haust þarf að taka til starfa sterk, umbótasinnuð ríkisstjórn með pólitískan vilja til að stórefla aðbúnað og umgjörð geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og vinna gegn mönnunarvandanum í heilbrigðiskerfinu. Það verður aðeins gert með samhentu átaki þvert á ráðuneyti og þar mega deilur um rekstrarform ekki þvælast fyrir nauðsynlegri uppbyggingu. Sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk eiga betra skilið.

Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík.