Einhliða umræða hefur dunið yfir um „Borgarlínuna“ eða BRT-kerfi. Pawel Bartoszek borgarfulltrúi skrifaði grein um þetta í Fréttablaðinu 12. febrúar.

Við lestur greinarinnar spyr maður til hvers við þurfum að eyða hundruðum milljarða í sérrými fyrir almenningssamgöngur. Samkvæmt greininni er aðalástæðan ekki greiðari samgöngur, heldur að uppfylla einhvern BRT-staðal til þess að geta notað hugtakið „BRT-kerfi“. Þá þarf helmingur leiðarinnar að vera í sérrými, óháð því hvort þörf sé á því eða hvað það kostar. Þetta er bara til að uppfylla „kerfið“.

Þetta snýst ekki um að bæta samgöngur, heldur að geta montað sig af því að vera með BRT-Gull kerfi. Pawel skrifar með stolti að 71% fyrsta áfanga Borgarlínu verði sérrými og það sé „flott“ en ekki hvers vegna, eða hvað þau flottheit kosta skattgreiðendur, hvað þá að það gagnist íbúum borgarinnar. Götubútar og bílastæði þurfa að víkja og tekur borgarfulltrúinn því fagnandi.

Í Kaupmannahöfn eru mjög góðar og greiðar samgöngur allra samgöngumáta. Teppur eru nánast engar, umferðarstýring og samhæfing kerfa strætó og umferðarljósa til fyrirmyndar og vagnarnir eru margir hverjir merktir „City line“ eða „Borgarlína“. Nánast ekkert sérrými er fyrir þessa vagna. Þetta er bara strætó sem virkar.

Vagnarnir aka á venjulegum götum innan um almenna umferð og nánast allar stoppistöðvar eru hægra megin og utan umferðaræðanna. Því er engin truflun á stoppistöðvum. Það er mikil tíðni, tölvuvædd upplýsingagjöf á stoppistöðvum og vögnunum með samhæfingu við aðrar strætóleiðir. Allt skipulagt með nútíma tækni í rauntíma og samhæfingu við umferðarljósin.

Sama er í öðrum borgum eins og London, Osló, Stokkhólmi og víðar. Þar eru kjörorðin t.d. „Allar ferðir skipta máli“, „Lágmarka tafatíma allra“, „Sjálf bærar samgöngur fyrir alla“, en ekki „Forgangur sumra“, á kostnað fjöldans eins og viðhorfið er í Reykjavík.