Góð heilbrigðisþjónusta er okkur flestum afar mikilvæg en fullnægjandi mönnun er forsenda heilbrigðisþjónustu, hvort heldur í heimsfaraldri eður ei. Því miður skortir á að mönnun í íslensku heilbrigðiskerfi sé næg, eins og bent hefur verið á í hverri einustu úttekt sem Embætti landlæknis hefur gert undanfarin ár. Þetta er reyndar alþjóðlegt vandamál en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur áætlað að það vanti 18 milljónir heilbrigðisstarfsmanna fram til ársins 2030 og það einungis til að sinna grunnþjónustu.

Það er margt sem þarf að gera hérlendis til að tryggja fullnægjandi mönnun, þannig að hún sé í takti við eðli og umfang þjónustunnar. Það þarf að fjölga í mörgum heilbrigðisstéttum; með því að mennta fleiri en líka að gera starfsaðstæður meira aðlaðandi þannig að fólk haldist betur í starfi. Líta þarf til meðal annars vinnuskipulags, kjara, stjórnunar, samráðs, símenntunar, tækifæra til kennslu og vísindavinnu, tækni, húsnæðis, aðstöðu, lagaumhverfis og fleiri þátta. Heilbrigðisráðherra skipaði í maí 2021 landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu, sem ætlað er að vera ráðgefandi um aðgerðir til að bæta úr og bregðast við, í samræmi við Heilbrigðisstefnu.

Heimsfaraldur Covid-19 hefur svo sannarlega dregið fram mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks. Það væri nú betra fyrir þjóðir heims að eiga heri heilbrigðisstarfsfólks heldur en heri sem berjast hver við annan. Heilbrigðisstarfsfólk og umönnunarstéttir hafa svo sannarlega staðið sína plikt í heimsfaraldri Covid-19. Þegar faraldurinn var að byrja vissum við ekki nema að fjöldi sjúklinga veiktist alvarlega og að heilbrigðisstarfsfólk erlendis væri að smitast og veikjast. Það hindraði ekki að okkar fólk stæði óhikað í framlínu og að bakverðir kæmu til starfa. Faraldurinn hefur nú staðið í tæp tvö ár með miklu álagi á kerfið allt. Það er að stærstum hluta sama fólkið sem stendur vaktina, dag út og dag inn af mikilli ósérhlífni. Ég vil votta öllu því góða fólki mína virðingu og þakka fyrir óeigingjörn og vel unnin störf.